14.05.1921
Efri deild: 70. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2054 í B-deild Alþingistíðinda. (2265)

73. mál, eignarnám á landspildu Bolungarvíkurmölum

Sigurður Jónsson:

Það er alls ekki svo, að jeg ætli að ganga fram fyrir skjöldu nefndarinnar, til þess að verja þetta frv. En þótt það virðist vera smámál, þá snerta samt ýms skjöl þess nokkur meginatriði í stefnu þingsins nú og áður. Ef nú væri farið að hindra það, að hreppsfjelagið gæti fengið þetta keypt, þá er brotin sú grundvallarregla, að ábúendur eða notendur þjóðjarða og kirkjujarða geti fengið keypta þá jörð, sem þeir búa á.

Því er haldið fram, að þetta sje runnið frá litlum meiri hl. hreppsnefndar. En nú er þetta ekki skipun, heldur heimild. Og jeg tel líka vafa á því, að lítill meiri hluti hreppsnefndar mundi ráðast í kaupin, heldur mundi málið borið undir hreppsbúa á almennum fundi.

Jeg mun fylgja frv., því að ef það verður felt, er þar með brotin sú regla, sem undanfarin þing hafa fylgt.