21.02.1921
Efri deild: 5. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í B-deild Alþingistíðinda. (227)

32. mál, friðun rjúpna

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg þykist viss um, að allir sjeu þakklátir hæstv. stjórn fyrir frv. þetta. Er enginn efi á því, að brýn nauðsyn er á því að lengja friðunartíma rjúpunnar, en jeg vil taka það fram, að jeg álít of skamt farið í þessu frv., vil helst, að nú þegar sje ákveðið að friðunin skuli ná til ársloka 1922. Vitanlega getur næsta þing framlengt tímann, ef því þykir þörf.

Jeg geri ráð fyrir, að frumvarpi þessu, þótt umfangslítið sje, verði vísað til landbúnaðarnefndar, og tel þá rjett, að friðunartíminn verði lengdur um eitt ár. Eins gott að taka lengri tímann strax. Auk þess mætti og íhuga, hvort ákvæði þessi gætu ekki átt heima í hinum almennu fuglafriðunarlögum.

Það hefir ekki reynst jafnmikið gagn að þessum friðunarlögum og búast hefði mátt við, að því er rjúpuna snertir. Jeg þekki það, að það ár, sem rjúpur hafa verið ófriðaðar, hafa allir hert sig í líf og blóð til þess að drepa sem allra mest, áður en friðunin gengi í gildi.

Betra virðist mjer að friðunarárið væri miðað við fardagaárið, en ekki almanaksárið, svo að rjúpan væri alfriðuð yfir veturinn það ár, sem friðunarlögin eru í gildi, og þá væri girt fyrir það, að heil hersing manna fari út til að skjóta rjúpuna einmitt um það leyti, sem lögin eiga að fara að verka. Sem sagt, sje jeg ekkert á móti því, að málið fari í nefnd, og mun leggja til að framlengja friðunartímann til 1. jan. 1923 í stað 1922.