30.03.1921
Neðri deild: 30. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2093 í B-deild Alþingistíðinda. (2286)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Bjarni Jónsson:

Jeg stend aðeins upp af því, að jeg sá það á síðustu ræðu háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.), að mig hafði hent sú óhamingja að egna þann ágæta mann til reiði. En það var nú alls ekki jeg, sem dæmdi hann í þessu máli, heldur voru það hans eigin verk. Því þótt jeg segði, að dagskrá hans væri sprottin af illvilja, hlaut jeg að álykta svo, einmitt af því, að jeg þekti hið mikla vit hans á búskap og mintist hans í þeim efnum frá fyrri árum. En sú rjetta skýring hefir mjer síðar dottið í hug, sem sje sú, að þessi háttv. þm. (S. St.) virðist sem formaður allsherjarnefndar hafa það starf að sitja á hinum meiri málum deildarinnar, t. d. tillögu einni, sem jeg flutti hjer fyrir skömmu. Og vildi jeg nú spyrja, eins og maðurinn í sögunni: Er vel setið, móðir góð?