14.05.1921
Efri deild: 70. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2213 í B-deild Alþingistíðinda. (2344)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Björn Kristjánsson):

Háttv. frsm. minni hl. (S. E.) er nú búinn að tala í nær því hálfan annan klukkutíma. — Jeg get því búist við að verða nokkuð langorður, því að jeg hefi allmörgu að svara.

Háttv. frsm. (S. E.) sneri sjer fyrst að nál. — Hann tók það fyrst fram, að verð verðbrjefa yrði að miðast við gangverð, því að það væri venja í útlöndum. En þetta var ekki gert hjer frá 1900 til 1918, af þeirri ástæðu, að miðað var altaf við innlánsvextina og að Landsbankinn nýtur hlunninda af veðdeildinni, því að hann fær stórfje frá henni árlega til að lána út með miklu hærri vöxtum en hann borgar veðdeildinni, og skal jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp, hvað það var á árinu 1919, sem hver flokkur átti inni:

1...... flokkur kr. 392933.00

2...... flokkur — 365754.00

3...... flokkur — 348948.00

4...... flokkur — 116804.00

Þetta fje fær bankinn með 21/2–3% vöxtum, og má geta nærri, hvað hann græðir á því. Og með þessu móti gat hann vel haldið uppi verðinu á bankavaxtabrjefunum, og því hefði bankinn átt að halda áfram. Við getum því sjálfir haldið uppi gangverðinu, eins og gert var til ársins 1919, þegar líka aðallega er bygt á innlenda markaðinum. Það er því alveg rangt, sem frsm. minni hl. (S. E.) sagði, að verð verðbrjefanna yrði að miðast við peningamarkaðinn, þ. e. útlánsvextina.

Þá sagði hann og, að verðbrjef veðdeildarinnar seldust ekki, en nú er búið að setja þau niður í heimsmarkaðsverð, og hví seljast þau þá ekki? Og hvernig heldur hann, að verðbrjef Ríkisveðbankans seljist frekar?

Þá sagði hann ennfremur, að enginn vildi taka lán í veðdeildinni, með þeim kjörum, sem þar væru nú. Og er jeg honum alveg sammála um það, og að ekkert gagn sje í veðdeildinni eins og hún er nú.

Þá tók hann það fram, að ef veðdeildin yrði afhent Ríkisveðbankanum, þá yrðu án efa allar reglur hennar haldnar. En jeg efast nú einmitt um það, því í lögum veðdeildarinnar stendur:

„Veðdeildinni skal stjórnað af stjórn Landsbankans, og reikningar hennar endurskoðaðir af endurskoðendum þess banka“.

Þær reglur verða þó vissulega ekki haldnar, sem er þó höfuðatriðið, hver á að stjórna veðdeildinni.

Þá kom hann að sjóðunum og sagði, að ekkert gagn væri að þeim, því að þeir væru svo litlir, og fyrir því yrði að stofna stóran veðlánabanka. En jeg skil ekki, hvernig á að fara að stofna þennan banka, þegar ekkert veðdeildarbrjef selst, þó að búið sje að setja þau niður í 74%.

Þá kem jeg að 30. gr. Háttv. frsm. minni hl. (S. E.) vildi vefengja það, sem jeg sagði um 30. gr., að engin ákvæði væru þar, sem sýndu, að verja ætti fje til þess að kaupa verðbrjef veðdeildarinnar. Hann las greinina upp, og jeg held, að jeg verði að gera það líka. Þar stendur:

„Jafnóðum og bankinn innheimtir lán þau, er stofnsjóður verður útlagður með samkvæmt. 4. gr., skal ávaxta stofnsjóðinn í íslenskum ríkisskuldabrjefum, bankavaxtabrjefum bankans sjálfs, eða öðrum verðbrjefum, er bankastjórn og stjórnarráð telja trygg“.

Hjer er ekki sagt, að þetta fje eigi sjerstakt, að nota til þess að kaupa brjef bankans, enda koma slíkar greiðslur í svo smáum stíl, að seint safnast fje að mun til brjefakaupa, þegar sjóðirnir standa mest í lánum. Svo segir ennfremur:

„Meðan fje sjóðsins kann að bíða þess að verða þannig komið fyrir, skal það ávaxtað í Landsbanka Íslands eða annari tryggri peningastofnun, er stjórnarráðið samþykkir“.

Hjer segir, ef bankinn hefir handbært fje, má eigi verja því til annars en ávaxta það í Landsbankanum, eða annari peningastofnun, sem stjórnin telur trygga. (S. E.: Jú, líka til að kaupa verðbrjef). Og loks segir:

„Má og verja því til útlána um stuttan tíma, ekki yfir 6 mánuði, gegn handveði í bankavaxtabrjefum bankans, eða öðrum verðbrjefum, er stofnsjóðinn má geyma í samkvæmt þessari grein.

Handveðlán þessi mega ekki hærri vera en 8% fyrir neðan gangverð hinna veðsettu brjefa á þeim tíma, er lán er veitt.

Nú hefir bankinn orðið fyrir tapi, og varasjóður hrekkur eigi til greiðslu þess, og greiðist þá tapið úr stofnsjóði. Ef sjóðurinn á þennan hátt lækkar um 10%, má bankinn ekki halda áfram að gefa út bankavaxtabrjef eða veita lán, nema Alþingi ákveði á ný, að bankinn skuli halda áfram störfum, og með hvaða skilyrðum“.

Jeg get því ekki sjeð, að þetta eigi að vera til útlána um langan tíma, alt að 40 árum, eins og er meiningin með bankann. Og það er ekki nokkur ábending, ekki einu sinni í 4. gr„ að þetta sje annað en tryggingarfje. Jeg hefi marglesið greinina, og skil þetta vel, en hún er svo óskýrt orðuð, að jeg er í vafa um, að höfundurinn hafi skilið hana sjálfur.

Þá sagði háttv. 2. landsk. þm. (S. E.), að landbúnaðinum væri meiri hagnaður að því að fá stóran banka en að hafa ræktunarsjóðinn. Þetta gæti verið rjett, ef trygging væri fyrir því, að bankinn hefði fje og lánaði með sömu kjörum. Jeg skal taka það fram, að jeg teldi gott að fá stóran banka. ef skilyrði væru fyrir hendi til þess að stofna hann. En jeg tel það ekki svo nauðsynlegt, að eigi megi fresta því eða gera neinar brtt., einungis til þess að tefja málið ekki.

Þá sagði og háttv. frsm. (S. E.), að það væri ekki of hátt að lána 3/5 af verði eignanna. því að Landmandsbanken lánaði svo mikið. En því verð jeg þar til að svara, að það er annað að bjóða verðbrjef frá velþektum og stórum banka, eins og Landmandsbanken er, heldur en frá landi, sem eigi er þekt að öðru en fátækt, eins og Ísland er.

Og til þess að komast hjá því að lána of mikið út á eignirnar, þá ætti bankinn að hafa trúnaðarmenn úti um land. (S. E.: Trúnaðar og virðingarmenn). En þeir hafa nú reynst allmisjafnir þessir trúnaðarmenn; en virðingarmenn úti um land hafa reynst mikið betur, og því betur, sem lengra dregur frá Reykjavík.

Þá tók hann það fram, að það skerti ekki lánstraust landsins, þó að viðlagasjóðurinn væri tekinn, en meiri hl. nefndarinnar er algerlega á annari skoðun, og leggur því eindregið á móti því, að hann sje skertur.

Jeg skal svo fara fljótt yfir sögu og aðeins drepa á helstu atriðin úr ræðu háttv. frsm. (S. E.), sem eftir eru.

Hann sagði, að það væri óskiftur áhugi allra landsmanna fyrir þessu máli, en jeg verð að segja það, að jeg hefi hvergi orðið var við það. Jeg hefi þó ferðast um alt kjördæmi mitt og hvergi orðið var við neinn áhuga fyrir því. En hitt veit jeg, að það er óskiftur áhugi manna fyrir því, að veðdeildin komist aftur í sama horf og áður, því að jeg hefi ekkert heyrt nema óánægju yfir því, að veðdeildin skuli ekki geta veitt lán eins og áður.

Annars var alt, sem háttv. frsm. (S. E.) sagði, einungis í þá átt að hindra að málið tefjist, en talaði ekkert um það, hvort brtt. væru rjettmætar eða ekki. Alt veltur á því hjá honum, að brtt. verði ekki samþyktar, hversu rjettmætar sem þær eru, svo málið tefjist ekki. En hann gat ekki bent á eitt einasta atriði, sem benti í þá átt, að ekki gæti dregist að bankinn tæki til starfa, þó að hann væri stofnaður.

Einna verst tókst honum að svara athugasemdunum við 7. gr. Hann gat ekki komist út frá því öðruvísi en með því að slíta út úr sambandi tvær breytingartillögur, sem þurftu að lesast saman. Meðal annars sagði hann, að það væri eðlilegast að ganga fyr að skuldabrjefum einstaklinga en varasjóðnum. En þótt hann færi um allan heim, myndi hann hvergi sjá svo að farið, heldur eins og 1. brtt. okkar segir, að fyrst sje gengið að varasjóði, þá að tryggingarfjenu, og síðast að landssjóði. Og það mundi þykja allkyndugt, ef farið væri að auglýsa til sölu nokkur skuldabrjef einstakra manna, ef bankinn gæti ekki staðið í skilum.

Jeg vil því í þessu sambandi benda honum á 2. brtt. okkar; hún er í þremur liðum. a., b. og c., og ef hann les c.-liðinn, þá sjer hann, að þar stendur: „Á eftir orðunum „Ef taka þarf til trygginganna“ komi: 1–3“. — Hann hlýtur því að sjá, ef hann athugar þetta, að brtt. ætlast til, að fyrst sje tekið til varasjóðsins

Þá áleit frsm. minni hl. (S. E.), að á sama stæði, hvort lánað væri út á 1. eða 2. veðrjett í slíkum banka, ef lánin samtals væru eigi látin yfirstíga 3/5 virðingarverðs.

Hvernig stendur þá á því, að menn skoða 2. veðrjett ekki eins tryggan, spyr hv. frsm. minni hl. (S. E.). Það getur auðvitað altaf átt sjer stað, að lán gegn 2. veðrjetti sjeu fulltrygg, en þegar við förum að bjóða brjefin út erlendis, þá horfir málið öðruvísi við en ef um viðskifti einstakra manna hjer heima væri að ræða. Þá verðum við að geta sýnt, að tryggingin sje hin allra besta. Við eigum alt undir þeim, sem ætlast er til að kaupi brjefin, og verðum að líta á málið með þeirra augum, en ekki eingöngu okkar eigin.

Þá talaði háttv. frsm. minni hl. (S. E.) um, að ný virðing væri ónauðsynleg, og taldi næga tryggingu að byggja á hinu reglulega mati, sem fram fer 10. hvert ár. En til dæmis um, hve áreiðanleg sú virðing er, vil jeg geta þess, að jeg á hús við Vesturgötu, og er það virt á 27.200 kr. Leigan eftir húsið er tæp 700 kr. Hvernig á nú að taka svona virðingu gilda? Virðingarnar eru yfirleitt óábyggilegar, en það er meira en „formalismus“, sem hann nefndi svo, að vilja hafa þær sem rjettastar, og heimta að alt sje í lagi. Þess þarf einmitt, til þess að halda verði brjefanna uppi.

Jeg get ekki verið að þrátta við háttv. frsm. minni hl. (S. E.) um það, hvort ofaukið sje orðunum: „auk sameiginlegrar ábyrgðar lántakenda fjelagsins“ í 18. gr. Hann vill ekki láta sannfærast. En nú stendur í upphafi greinarinnar: „Nú verða stofnuð veðlánsfjelög, er ná yfir takmörkuð landsvæði, með sameiginlegri ábyrgð fjelagsmanna“. Hvers vegna á nú að taka fram aftur um ábyrgðina, ef átt er við hið sama? Ef farið er að taka þetta upp aftur, þá lítur svo út, sem hið síðarnefnda sje persónuleg ábyrgð. Orðalagið bendir til þess.

Um 9. lið brtt. á þskj. 580 hjelt hann því fram, að gjaldið væri nóg eins og það er ákveðið í frv., og benti á reynslu veðdeildarinnar því til sönnunar. En hefir hann tekið eftir því, hvernig háttað er sambandi veðdeildarinnar og Landsbankans? Og hvernig getur hann sagt um, hvort þetta gjald er nóg? Það er lögbundin upphæð, sem veðdeildin má verja til kostnaðar, og jeg get fullvissað hann um það, að hún er ekki nóg, og væri þó því enn síður nóg, ef veðdeildin væri sjerstök stofnun.

Þá vill hann ekki, að sem mestu sje varið til þess að leysa brjefin inn. En jeg segi, að það sje hagur fyrir baukann að leysa brjefin sem fljótast inn, til þess að flokkarnir sjeu sem styst lifandi. Hann segir ennfremur, að þetta sje tekið eftir lánsfjelögunum þýsku. Já, það er nú einmitt það. Þetta fyrirkomulag er sniðið um of eftir þeim, en á ekki við hjer, því að hjer er ekki gert ráð fyrir „solidariskri“ ábyrgð veðanna.

Þá taldi hann hættulegt að láta „kritiska“ endurskoðandann vera bankastjóra í viðlögum. Við þetta mun nú samt verða að hlíta, og fyrst í stað, meðan starfsemi bankans er lítil, getur það varla gert mikið til.

Hann telur meiri tryggingu að stjórnin skipi bókara og gjaldkera heldur en láta bankastjórnina gera það. Hvernig stendur á því, að bankastjórnin hefir skipað núverandi bókara veðdeildarinnar, og ekkert orðið að sök? Þó hefir hann gegnt starfinu í 14 ár og farist vel. Hann hefir ekki sýnt yfirmönnum sínum mótþróa, en það hafa aðrir starfsmenn bankans gert árum saman, og sitja þó enn, af því að stjórn bankans hefir ekki vald yfir þeim. Þannig er reynslan.

Hann vildi láta bankastjórana hafa rífleg laun, svo að þeir þyrftu ekki að leita sjer tekna utan embættisins. Þegar um slíka stofnun er að ræða, sem engin vissa er fyrir um, hvort gefur nokkurn arð, sem teljandi sje, eða ekki, þá held jeg næstum því, að rjettara sje að hafa launin ekki mjög há til að byrja með, og hækka þau þá heldur síðar. Jeg verð að segja það, að jeg lifði við 6000 kr. laun, án dýrtíðaruppbótar, öll þau ár, sem jeg var bankastjóri, og hafði engar tekjur utan hjá. Þóttist jeg vinna starf mitt trúlega, eftir því sem jeg gat, þótt launin væru ekki hærri.

Loks gat hann þess, að síðasta brtt. okkar væri óþörf. Það getur verið. En jeg hefi nú aldrei sjeð afgreidd lög, sem breyta eldri lögum, svo að þess hafi ekki verið getið í þeim, að hin eldri væru úr gildi feld.

Jeg hefi þá svarað stuttlega flestu í ræðu háttv. frsm. minni hl. (S. E), og þykist jeg hafa sýnt, að hann hafi ekki hnekt þeim rökum, sem jeg flutti fram í fyrri ræðu minni.