14.05.1921
Efri deild: 70. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2225 í B-deild Alþingistíðinda. (2346)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Björn Kristjánsson):

Jeg ætla mjer ekki að ganga inn á ræðu háttv. frsm. minni hl. (S. E.) í einstökum atriðum, enda býst jeg við, að það hefði engan árangur. Jeg vil aðeins taka það fram, viðvíkjandi því, sem háttv. þingmaður heldur fram um, að rjettara sje að lána með meiri vöxtum, en minni afföllum, að mitt álit er það, að ekki þurfi að stofna sjerstakan banka til þessa, heldur aðeins nýja 5. deild í Landsbankanum.

Þá sagði háttv. frsm. minni hl. (S. E.), að sá, sem samið hefði frv., hefði gert það eftir tilmælum stjórnarinnar, og komst þannig að orði, eins og þá væri sjálfsagt að samþykkja það. En jeg veit ekki betur en að það sje engin nýlunda hjer, þótt slík frv. strandi, sem jafnvel milliþinganefndir semja.

Viðvíkjandi því, að þörf verði á að bæta nú við einum manni, skal jeg benda á það, að 1917 var seinast bætt við nýjum bankastjóra við Landsbankann, svo að bankastjórnin yrði færari um að rækja starf sitt, og jeg ætla, að við það ætti nú að sitja, og þeim sje vorkunnarlaust að halda þessu veðdeildarstarfi áfram. Man jeg, að meðan jeg var við bankastjórn, vorum við aðeins tveir, sem afköstuðum þessu sama starfi, og tel jeg því naumast ná nokkurri átt að láta 4 menn vera að dunda við það nú. Verði bankastjórar Landsbankans ófáanlegir til að rækja starfið vel áfram, er ekki annað en láta þá fara frá.