14.05.1921
Efri deild: 70. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2230 í B-deild Alþingistíðinda. (2348)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Frsm. minni hl. (Sigurður Eggerz):

Ekki mun þýða neitt að halda uppi löngum umræðum, en nokkur orð verð jeg þó enn að segja. Hv. 4. landsk. þm. (G. G.) sagði ósvífni að ætlast til, að menn samþ. frv. þetta óbreytt. Engum hefi jeg skipað að samþ. það. En jeg býst ekki við, að hann geti kallað það ósvífni, þótt þeir, sem ekki álíta brtt. til bóta, samþ. frv. óbreytt og greiði atkvæði móti brtt. Jeg hefi tvisvar farið gegnum brtt., og get ekki sjeð, að þær sjeu til bóta, og því get jeg ekki greitt atkv. með þeim. Hvað hv. 4. landsk. þm. (G. G.) gerir, því ræður hann sjálfur.

Bæði háttv. frsm. meiri hl. (B. K.) og háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) eru komnir á þá skoðun, að veðdeildin, eins og hún nú er, geti ekkert hjálpað. En ætli ekki sje þá rjett að grípa tækifærið og stofna einmitt nú Ríkisveðbankann, og sameina hina 3 sjóði, svo meira gang verði að þeim en verið hefir hingað til? Annarsstaðar er siður að hafa veðlánabanka sjerstaka. Sambandið við Landsbankann álít jeg aðeins eigi að vera til bráðabirgða. — Aðalhlutverk hins nýja bankastjóra, fyrst um sinn, er að selja hlutabrjefin og lána fengna peninga út aftur. Hingað til hefir enginn einn bankastjóri Landsbankans haft þetta starf eitt með höndum, og því vil jeg ekki ámæla þeim nje bera þeim á brýn, að þeir hafi unnið óeðlilega lítið að sölu brjefanna. En þess krefst jeg, að hinn nýi bankastjóri gefi sig að sölunni með dugnaði, og má þá búast við meiri sölu en hingað til.

Háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) gerði mikið úr því, að hjer væri verið að búa til nýtt embætti. Sagði hann, að áhugi stuðningsmanna frv. væri sá einn, að koma vissum manni í embættið. Skrítið er að beina því að mjer, að jeg styðji þetta frv. til þess að koma vissum manni í bankastjórastöðuna, þar sem jeg er stjórnarandstæðingur, en það er stjórnin, sem skipar í embættið, og jeg ræð því að sjálfsögðu engu um skipun þess.

Jeg er margbúinn að sýna, að sjóðirnir eru ekki eingöngu tryggingarfje, heldur auka þeir líka veltufje bankans.

Háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) hneykslaðist mjög á því, að jeg skyldi segja, að óskiftur vilji þjóðarinnar stæði á bak við þetta frv. En jcg get staðið við það. Margir þingmenn hafa sagt mjer, að mikill áhugi hafi verið meðal kjósenda sinna á að Ríkisveðbankinn kæmist sem fyrst á fót.

Jeg skil vel, að háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) sje ant um ræktunarsjóðinn. En um hann er mjer líka ant. Og með því að láta hann renna inn í bankann er hann ekki gerður að neinu olnbogabarni, heldur mun hann á þann hátt einmitt gera landbúnaðinum enn meira gagn. — Háttv. þm. (G. G.) sagði, að þetta ár væru lánaðar 150 þús. úr ræktunarsjóðnum. En hvað fullnægir það þörfum landbúnaðarins á Íslandi? Það er ekki stór upphæð. Hann bar kvíðboga fyrir því, að verðlaunastarfsemi ræktunarsjóðsins hætti, yrði hann sameinaður Ríkisveðbankanum. En vel mætti sjá fyrir því, að sú starfsemi hjeldi jafnt áfram fyrir það, með því að veita úr ríkissjóði einhverja fjárhæð til verðlauna. Sje jeg svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um málið. Vil aðeins að endingu mæla með því, að frv. nái fram að ganga óbreytt.