28.04.1921
Efri deild: 57. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2294 í B-deild Alþingistíðinda. (2450)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

Forsætisráðherra (J. M.):

Aðallega eru það hinir ráðherrarnir, sem hjer standa fyrir svörum. Yfirleitt tel jeg ekkert gagn mundi af því verða, þótt jeg færi líka að tala um þetta mál, þar sem skoðanir okkar allra á því eru mjög svo líkar.

Það voru nokkur ummæli í ræðu háttv. 2. landsk. þm. (S. E.), sem komu mjer til að standa upp. Rjett mun það vera hjá þessum háttv. þm. (S. E.), að ágreiningur nokkur var innan stjórnarinnar um frv. 1919. En ekki held jeg það hafi verið rjett hjá honum, að frv. hafi ekki verið full gert, er hann fór utan. Frv. var þá fullgert frá hendi höfundar þess, og nokkuð hafði um það verið rætt, en ekki var það lagt fram á ráðherrafundi fyr en í fjarveru hans.

Það er rjett, að hann hreyfði mótmælum, sjerstaklega gegn því atriði frv., sem hann áðan nefndi, um hlutafjáraukningu. Sömuleiðis er það satt, að jeg var ekki allskostar ánægður með frv., en gat þó sætt mig við það.

Háttv. 2. landsk. (S. E.) sagði, að engan mundi fýsa að ganga inn í stjórn landsins, eins og alt væri í pottinn búið. Alment tekið skal jeg ekki rengja þetta. Og jeg verð auðvitað að trúa því, að þessu sje svo farið um háttv. 2. landsk. (S. E.), úr því hann segir það. Jeg ímynda mjer þá og, að þing og þjóð trúi þessu líka um hann.

Háttv. 2. landsk. (S. E.) sagði, að stjórn sú, sem nú er, væri ekki þingræðisstjórn. Jeg bjóst ekki við umræðum um þetta mál nú, þar sem það sýnist ekki koma mikið við málefni því, sem hjer er nú til umræðu. (S. E.: Tilefnið var gefið af fjármálaráðherra í gær). Jeg er ekki viss um, að nokkurt tilefni til þessara ummæla hafi komið þar; jeg heyrði þá ræðu.

Ósköp einföld leið fyrir andstæðingana til þess að prófa þetta er að bera fram vantraustsyfirlýsingu í sameinuðu þingi. Slíkt hefir fordæmi í „parlamentariskri“ sögu þessarar þjóðar, og sú leið hefir altaf verið farin hjer, þegar andstæðingar hafa hafist handa til að koma ráðuneyti frá, að bera fram vantraustsyfirlýsingu, sem alt þingið hefir tekið afstöðu til. Og jeg get fullvissað háttv. þm. um það, að það skal ekki þurfa að taka nema örstutta stund að prófa í sameinuðu þingi, því að ráðuneytið mun ekki hirða um að krefjast neinna umræðna.

Hitt er alveg nýtt, að stjórnarandstæðingar beri fram traustsyfirlýsingu á stjórn, og greiði svo sjálfir atkvæði gegn sinni eigin tillögu, eins og gert var í háttv. Nd. Og það er ekki einungis nýtt í þingsögu þessarar þjóðar, heldur þekkist slíkt hvergi mjer vitanlega. Enda hefi jeg heyrt, að þetta tiltæki stjórnarandstæðinga sje orðið ræmt erlendis.

Jeg vildi óska, að háttv. 2. landsk. (S. E.) kæmi fram umræðulaust með vantraust á stjórnina í sameinuðu þingi. Það þyrfti ekki að taka nema svo sem 10 mínútur að komast að, hvaða fylgi stjórnin hefir. (S. E.: Má jeg skjóta fram einni spurningu?). Já. (S. E.: Ef jeg bæri fram vantraustsyfirlýsingu í sameinuðu þingi og henni yrði snúið í traustsyfirlýsingu og hún feld, teldi stjórnin það þá nægilegt til að fara frá). Jeg var svo heppinn að lýsa yfir í háttv. Nd., áður en traustsyfirlýsingin kom fram frá stjórnarandstæðingum, hversu ósæmilegt jeg áliti að bera slíkt fram, og þess vegna þurfti jeg ekkert að segja þar um þetta eftir á. Og háttv. þm. (S. E.) mun geta gert sjer í hugarlund, hvert svar mitt mundi verða við þessari spurningu hans.