17.05.1921
Neðri deild: 71. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2359 í B-deild Alþingistíðinda. (2499)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg vil byrja með því að endurtaka það, sem jeg hjelt fram áður hjer um annað frv., að samkomulag þarf að komast á; menn verða að sveigja til skoðanir sínar, heldur en að láta slíkt mál enda í illdeilum og orðhengilshætti. Það er ekki hægt að búast við því, að skoðanir 42 manna falli alveg saman í stóru og smáu; þær eru eins margar og mennirnir. Þetta virðist mjer einnig vaka fyrir flutningsmönnum brtt. á þskj. 617, þar sem þeir hafa hætt við að halda fram frv. sínu, en koma með brtt. í staðinn. Er því einnig vonandi, að þeir leggi ekki svo ríka áherslu á þær allar, að þeir geti ekki fylgt samkomulagi, þó að á einhverjum öðrum grundvelli verði. Háttv. þm. Ak. (M. K.) sagði, að ekki mætti hrapa að hlutakaupum í Íslandsbanka. Jeg er honum alveg sammála. Og mjer sýnist 5. gr. í frv. háttv. Ed. svo úr garði gerð, að naumast geti verið um slíkt að ræða, ef eftir henni yrði farið. Þar er bæði gert ráð fyrir þriggja manna mati, og svo eiga kaupin að liggja undir úrskurð stjórnarráðsins. Þá sagði háttv. þm. (M. K.) einnig, að það, sem gert væri fyrir Íslandsbanka í þessu efni, drægi úr Landsbankanum. Jeg neita því ekki, að Landsbankinn væri öflugri, ef hann væri eini bankinn hjer. En flestir munu þó nú á þeirri skoðun, að einveldi eða einokun í þessum málum sje ekki holt, enda getur oft verið gott, bæði fyrir bankann og viðskiftamennina, að skifta störfunum. Hitt skal jeg ekki fara út í, hvort það er rjett, að vonirnar um Íslandsbauka hafi brugðist. Hann hefir áreiðanlega gert mjög mikið gagn, og gerir enn nú með því að taka á sig mikið af tapi þessara ára, og vorkenni jeg honum það reyndar ekki, þegar litið er á gróða hans árin áður, enda hvorttveggja háð venjulegum viðskiftareglum.

Út af fyrirspurnum um skilning 2. málsliðar 2. gr., skal jeg geta þess, fyrir mig persónulega, að jeg skil hann þannig, að seðlafúlga sú, sem úti er 1. maí 1922, eigi 1. maí 1923 að hafa lækkað um 1/10. Hitt gæti verið efamál, hvort hjer ætti að reikna eftir almanaksári, eða frá 1. maí. Fleira þarf jeg ekki að taka fram í þessu sambandi, enda talaði hv. þm. Ak. (M. K.) hóflega og hjelt sjer við málið.

Um brtt. á þskj. 628 er óþarft að tala, þar sem þær eru teknar aftur. Út af orðum hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) um seðlaútgáfuna þarf jeg heldur ekki að fjölyrða. Það gladdi mig, að hann kvaðst ekki vilja gera þetta að kappsmáli. Að öðru leyti get jeg vísað til þess, sem jeg hefi áður sagt, bæði um bankann sem seðlabanka og „privatbanka“.

Annar háttv. þingmaður (Sv. Ó.) gat þess, að sig hefði undrað, að stjórnarfrv. hefði ekki verið lagt til grundvallar. Jeg fyrir mitt leyti er nú hættur að undrast það, þegar þess er gætt, hverjir völdust í peningamálanefndina og hve sundurleit hún er að skoðunum. En jeg vil undirstrika það, að þessu valda breyttar kringumstæður frá því að stjórnarfrumvarpið var samið, og svo hið fasta samkomulag um málið í háttv. Ed. Það er rjett, sem háttv. sami þm. (Sv. Ó.) tók fram, að í frv. vantar lánsheimild. En hún er á leiðinni annarsstaðar, eins og kunnugt er, svo jeg, fyrir mitt leyti, hefði alt eins vel kosið, að hún hefði staðið í þessu frv., að því leyti, sem henni væri ætlað að ná til Íslandsbanka.

Um brtt. á þskj. 617 get jeg lýst því yfir, að mjer finst vel hægt að ganga að a-lið 1. brtt., þar sem talað er um, að Íslandsbanki dragi inn meira en í frv. segir, enda er hóflega í sakirnar farið, og stjórnarráðið á að setja nánari reglur.

2. brtt. held jeg, að ekki verði kostur að koma fram, vegna samkomulags háttv. Ed., og yrði því aðeins til að tefja málið, að samþykkja hana, enda skiftir það litlu máli, hvort þetta er gert á þessu þingi eða því næsta, þar sem málið er hvort sem er í þingsins höndum. Jeg hefði einnig gjarnan getað gengið inn á 2. lið í 2. brtt., ef hann hefði ekki verið settur þannig í samband, að annaðhvort verður að samþykkja eða fella alt saman. En ákvæðin í hinni nýju 6. gr. gera ófært að samþykkja það alt.