17.05.1921
Neðri deild: 71. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2372 í B-deild Alþingistíðinda. (2504)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

Bjarni Jónsson:

Það kom hjer fram í umræðunum áðan vefenging á því, að Íslandsbanki hefði einkarjett til seðlaútgáfu í landinu. Jeg held ugglaust, að bankinn hafi þann einkarjett, að undanteknum 3/4 milj., sem Landsbankinn hefir útgáfurjett á að lögum. Enginn getur því gefið út seðla í þessu landi, nema með samningum við Íslandsbanka.

Jeg get ekki verið nefndinni samþykkur um breytingar þær, sem háttvirtur 1. þm. Reykv. (Jak. M.) kemur með. Það er ekki til neins, að stjórnin leiti til dómstólanna, þar sem skýlaus lög Alþingis eru fyrir aukningunni, og hefir bankinn þá ekki mist rjettinn til að gefa út nema það, sem er umfram 21/2 milj. kr.

Ef rannsókn yrði hafin gegn bankanum, mundu dómstólarnir líta á það, hvort hann hefði brotið af sjer þau rjettindi, en hitt er varanlegt, og einkarjettindin hefir hann ekki brotið af sjer.

Það er ekki til neins að halda því fram, að verið sje að sóa með rjettindi landsins, því að það er ekki hægt að brjóta þá samninga, sem gerðir hafa verið, heldur verður að hlíta þeim og halda þær skuldbindingar, sem hafa verið gerðar af Alþingi.

Jeg segi þetta óhræddur, þótt málaflutningsmenn ríkisins haldi því fram, að Íslandsbanki hafi brotið þau lög, er þeir vitna til. Jeg var á móti því í upphafi, að þessi rjettindi væru veitt, en úr því þau voru veitt með lögum, þá vil jeg halda því fram, að þau verði ekki með lögleysu af honum tekin.

Ef þessi lög ganga fram hjer í þinginu, en hluthafafundur gengur síðan ekki að þeim, þá eru lög þessi ónýt. Þess vegna hefi jeg borið fram frv. um að heimila stjórninni að hjálpa bankanum, hvað sem um frv. þetta verður. Það er varlegra að setja þessa heimild um lánveitingu til handa Íslandsbanka, ef svo færi, að þessi lög um hlutakaupin yrðu ónýt, þótt þau næðu fram að ganga hjer í þinginu; hún skaðar ekki; en það er betra, að stjórnin standi ekki uppi ráðalaus, ef illa tekst til.

Aðalatriðið er, að ríkið gerist hluthafi í bankanum, og fái þannig mest ráð yfir honum, eða með öðrum orðum kaupi bankann; en það er aftur aðalatriðið fyrir bankann og atvinnuvegi landsins, því að lánstraust bankans verður ekki betur treyst en með því að landið taki hluti í honum.

Jeg get ekki skilið það, að jafnframt því, sem landið fær umráð yfir bankanum, að þess sje þá krafist, að hann afsali sjer seðlaútgáfurjettinum. Jeg skil ekki það hugsanasamband. Jeg er ekki á móti því, að með tíð og tíma fái Landsbankinn seðlaútgáfurjettinn, eins og farið er fram á í frv., ef þá Landsbankinn sjálfur og stjórnin fallast á þetta fyrirkomulag.

Háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) taldi það hentugast, að bæði Íslandsbanki og Landsbankinn færu ekki með seðlaútgáfuna, en svo væri þriðji bankinn, sem aðallega væri seðlabanki; enda mun það hentugast svo, að þeir bankar sjeu óháðir, sem fara með aðalviðskifti landsmanna, því að þeir munu þá ekki eins óragir og seðlabankar.

Mjer finst það því nægileg bráðabirgðaráðstöfun, sem farið er fram á í frv. þeirra háttv. þm. Mýra. (P. Þ.) og háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.), þar sem gert er ráð fyrir að framlengja þennan rjett um eitt ár. Nú er bráðum hluthafafundur í Íslandsbanka, og þá getur stjórnin samið við fundinn og lagt það samþykki fundarins fyrir næsta þing. Þetta væri beinust og skynsamlegust aðferð, að mjer skilst, ef vel væri uni búið, og vildi jeg reyna, hvort þetta gæti ekki tekist, og hugsa að aðrir vilji það líka. Það er þá einasta að menn treysta ekki stjórninni til þess, og finst mjer það hart um fylgismenn hennar. En jeg, sem átti frumkvæðið að vantraustsyfirlýsingu á stjórnina, jeg þori vel að eiga það undir henni, að hún framfylgi þessum lögum, þótt dyggustu fylgifiskar hennar vilji ekki eiga það á hættu.

Það er ekki til neins að ætla að binda bankann með þessu, og það er því bara vantraust á stjórnina, ef menn vilja ekki veita henni þessa heimild. En jeg geri þetta ekki að kappsmáli, ef menn vilja heldur, að frv. gangi fram og álíta það nægilega trygt. Það yrði ekki annað en frestun á þessu, sem farið er fram á í brtt. háttv. þm. Ak. (M. K.) og fleiri, að þeir vilja láta nefnd þessa ákveða verð þeirra hluta, er ríkið keypti í bankanum. En þessi hjálp þolir ekki slíka bið; hún verður að koma strax, eða svo fljótt sem auðið er, ef á að gera það. Þess vegna þarf þingið að setja það þegar í lög, svo að viðskiftamenn bankans í öðrum löndum sjái tiltrúna, og munu þeir þá ljetta fyrir viðskiftum bankans.

Það er alls ekki af umhyggju fyrir útlendri bankastofnun, að jeg er á móti því, að þessu sje frestað, heldur af því, að útvegurinn og aðrir atvinnuvegir hvíla meira á þessum banka en hinum, því að hann hefir haft meira fjármagn. Og þó menn vildu steindrepa bankann, þá mundu menn steindrepa íslenska atvinnuvegi um leið. Ef það ráð yrði tekið að gera bankann innlendan, þannig, að landið yrði aðaleigandinn, þá mundi það í framtíðinni koma í veg fyrir deilur. Jeg sje heldur ekkert á móti því, að það yrðu tveir innlendir bankar, eða fleiri.

Jeg geri ráð fyrir, að það hafi verið hugsun háttv. Ed., að nefnd yrði sett milli þinga til að rannsaka þetta, og að hún muni þá fá sjer erlendan, óhlutdrægan bankafræðing til aðstoðar, og get jeg vel fallist á það. Nú er þá ekki annað að gera heldur en ráðstafa seðlaútgáfunni með bráðabirgðaskipulagi, en um leið tryggja bankanum ákveðið hlutafje.

Það hefir verið fátt ver gert landinu en þegar 1909 var felt frv. í Ed., sem samþykt hafði verið í þessari deild, að taka hluti í þessum banka fyrir 2 miljónir kr.; þá mundi hann þessa stund vera í höndum ríkisins og þá mundi hagur ríkisins og hagur þessa banka standa öðrum fótum en hann nú gerir. Jeg vil þó ekki taka undir þann vesældarbarlóm, sem dagsdaglega heyrist um hag hans og landsins. Jeg vildi láta í ljós að jeg álít, að það ætti að kippa þessu úr Ed.-frv., eins og till. hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) fer fram á, en láta standa um hlutakaupin. Það kann vel að vera, að mönnum finnist jeg vera óþjóðlegur, í þessu, enda var jeg einusinni kallaður danski Bjarni. En fyrir mjer er hvorki Íslandsbanki nje Landsbanki, heldur landið alt og hagur þess, og ef hans vegna þarf að styrkja útlenda bankann, þá það, og ef þarf að hjálpa báðum bönkunum, þá það.