19.05.1921
Neðri deild: 74. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2396 í B-deild Alþingistíðinda. (2518)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

Jón Þorláksson:

Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) taldi, að í brtt. minni fælist aukning á seðlaútgáfu Íslandsbanka og að rjettur bankans væri aukinn með því, að tímatakmark innköllunar seðlanna er fært frá 1. maí til 31. okt. Aukningin er aðeins í orði, en ekki á borði, eins og jeg áður hefi gert grein fyrir. En um tímann er það að segja, að þótt settur væri 1. maí, þá mundu seðlarnir í reyndinni ekki verða dregnir inn fyr en seðlaþörfin fer að minka, eftir 31. okt., og jafnvel ekki fyr en í árslok, eins og hæstv. fjrh. (M. G.) þegar hefir útlistað. Mjer hefði verið alveg sama, þótt ákveðið hefði verið 31. okt. 1921, en jeg treysti mjer ekki til að gera neina skynsamlega till. um ákvörðun seðlamergðarinnar 31. okt. 1921, vegna þess, að seðlaþörfin á þeim tíma er svo mjög komin undir ráðstöfunum bankans frá fyrri hluta ársins, sem þegar eru um garð gengnar. En sje sett lögákveðið hámark fyrir seðlaumferðinni 31. okt. 1922, þá getur bankinn í tíma gert þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru, til þess að komist verði af með hina ákveðnu seðlamergð.

Jeg er sjerstaklega mótfallinn VI. brtt. á þskj. 654, frá háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) og háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.), því að af henni mundi leiða meira seðlaflóð en áður hefir verið í landinu. Íslandsbanki mun þá, vegna sinna eigin hagsmuna, freistast til að hafa sem allra mesta seðla úti 1. maí 1922, því að við það eykst seðlaútgáfa hans hlutfallslega fyrir öll þau ár, sem eftir eru af leyfistímanum. Það er gróði fyrir hann að hafa sem mesta seðla úti þennan dag, þó hann þurfi að borga fulla forvexti af því, sem er fram yfir 7 miljónir kr. Og háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) má ekki halda, að neinir erfiðleikar sjeu á því fyrir bankann að koma seðlunum út. Ekki er annað en að veita þau lán, sem um er beðið. Þar við bætist svo, að eftir brtt. á að gefa út af ríkissjóðs hálfu alla aukaseðla, sem þarf umfram það, sem Íslandsbanki hefir úti 1. maí. Þótt Íslandsbanki færi ekki frekara í sakirnar en það að hafa úti 7 milj. 1. maí, þá mundu þar til svara einar 13 milj. kr. 31. okt. Yfir höfuð er ekki hægt að setja seðlamergðinni nein takmörk eftir þessari brtt. VI á þskj. 654. Reynist hámark það, er jeg sting upp á, 8 milj. 31. okt. 1922, of lágt, þá má, eins og jeg þegar hefi sagt, breyta því á næsta þingi.

Hjer hefir verið mikið talað um svo nefnda „toppseðla“, hvor bankinn ætti að gefa þá út, meðan seðlaútgáfan væri í höndum tveggja banka. Alt þetta tal er á misskilningi bygt, því að strax og orðin er nokkur veruleg seðlaútgáfa, einnig hjá þeim bankanum, sem minna hefir, þá hljóta að verða „toppseðlar“ hjá þeim báðum, þ. e. þeir báðir að hafa færri seðla í umferð þann tíma árs, sem seðlaumferðin er minst, heldur en þann tímann, sem hún er mest, nema einhverjar alveg sjerstakar ráðstafanir sjeu gerðar með lögum eða á annan hátt, til þess að annarhvor bankinn á hverju ári innkalli svo mikið af sínum seðlum, sem nemur öllum mismuninum á mestu og minstu seðlafúlgu í umferð.

Viðvíkjandi seðlamergðinni skal jeg einungis bæta því við, að allir okkar bankafróðustu menn, að minsta kosti þeir, sem ekki eiga nú sæti í bankastjórn, leggja mjög mikla áherslu á, að seðlamergðin sje takmörkuð meðan seðlarnir eru óinnleysanlegir. En þegar sú stund kemur, að þeir verða innleystir með gulli, þá takmarkast útgáfan af því, án þess að löggjafarvaldið þurfi að reisa skorður við henni. Vitanlega er ekki þörf á slíkum takmörkunum, ef mönnum stæði á sama, þótt okkar gjaldeyrir hefði lægra gengi en danskir seðlar, og sumum hefir fundist það vera rjetta leiðin að lofa slíkum gengismun að koma fram. En jeg held, að það sje ekki rjetta leiðin, heldur sú, að reyna að halda uppi jafngengi við danskan gjaldeyri, en þá má ekki hafa meira af seðlum í umferð en vera mundi eða fært þætti, ef okkar seðlar væru innleysanlegir — ekki með gulli, heldur með dönskum Þjóðbankaseðlum. Þetta mundi vera besta ráðið til að halda okkar seðlum í sama verði og dönskum seðlum.

Að öðru leyti skal jeg geta þess um mínar brtt., að jeg hefi leitað fyrir mjer í háttv. Ed., hvort frv. með breytingum mínum mundi ná samþykki þeirrar deildar, og eftir því, sem best verður vitað er ekkert því til fyrirstöðu.