19.05.1921
Neðri deild: 74. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2417 í B-deild Alþingistíðinda. (2548)

135. mál, heimild til lántöku fyrir ríkissjóð

Jakob Möller:

Jeg gat ekki mælt þessu frv. stjórnarinnar bót vegna óheilindanna í undirbúningi þess. Það var óskýrt og loðið, og ekkert lá fyrir frá stjórnarinnar hálfu, sem gæti bent á, að samkomulag næðist um frv. Nú er búið að skýra og bæta frv. með brtt., og Landsbankinn hefir látið álit sitt í ljós og getur fallist á frumvarpið. Þetta frv. og aðstæður þess eru því gerólíkar stjórnarfrumvarpinu, sem enn væri ómögulegt, eins og í upphafi. — Og hvað er þá annars um afstöðu hæstv. stjórnar að segja til þessa fósturs síns?

Hæstv. ráðherra (M. G.) talaði um að sveigja til. Fyr má nú rota en dauðrota. Það lítur helst út fyrir, að hæstv. ráðherra (M. G.) telji það jafnvel lofsvert að sveigja svo til, að hann verði að breyta gegn sannfæringu sinni, og get jeg vel trúað honum til að gera það. Hitt er annað mál, hve heilbrigt eða heillavænlegt er að hafa slíka stjórn. Eða hæstv. ráðherra (M. G.) ætlar ekki að breyta gegn sannfæringu sinni, og ekkert lán að taka, og er hann þá að blekkja þingið. Get jeg vel trúað honum til þess.