14.05.1921
Neðri deild: 70. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2468 í B-deild Alþingistíðinda. (2613)

122. mál, útflutningur og sala síldar

Jón Baldvinsson:

Þeir háttv. þingmenn, sem tekið hafa til máls, hafa tekið tillögum okkar vel, og þar á meðal háttv. frsm. (M. K.), og þykir mjer vænt um, að svo er.

Það er aðeins dálítill misskilningur hjá háttv. samþm. mínum (M. J.) um takmarkanir veiðinnar, sem jeg vildi leiðrjetta. Mjer skildist hann liti svo á, að takmarkanirnar ættu aðallega við fjelagsmenn, en þar hlýtur hann að hafa átt við 7. gr. hins upprunalega frumvarps, því eftir henni mætti líta svo á, því þar er talað um, að viðvíkjandi takmörkun veiðinnar fari með atkvæðisrjett eins og fjelagsmál væri.

En úr þessu er bætt með brtt. okkar, sem gera ráð fyrir, að ríkisstjórnin þurfi að samþykkja allar ákvarðanir fjelagsins um takmörkun veiðinnar.

Jeg er ekki alveg viss um, að það sje rjett hjá hæstv. atvrh. (P. J.), að það sje þyrnir í augum þeirra manna, sem fjelagsskap mynda, að fella niður 2. og 4. grein.

Jeg hefi talað við nokkra síldarútgerðarmenn um þetta, og þeir telja það mestu nauðsynina, að gott skipulag komist á síldarsöluna, og þeir telja engan líklegri til þess en ríkið sjálft. Aftur á móti efamál, að samkomulag náist um það meðal fjelagsmanna. (P. O.: Þeir, sem hafa skrifað undir, hlaupa ekki frá skuldbindingum sínum). Getur vel verið, að slíku megi treysta, eftir að undirskriftirnar eru fengnar, en þó er það nú svona, að útgerðarmennirnir, sumir að minsta kosti, treysta ríkinu betur um heppilegar framkvæmdir þessa máls heldur en væntanlegum fjelagsmönnum Síldveiðifjelagsins.