26.02.1921
Neðri deild: 9. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í C-deild Alþingistíðinda. (2655)

36. mál, þjóðjarðir

Frsm. (Stefán Stefánsson):

Eins og nál. ber með sjer, hefir nefndin ekki fundið ástæðu til að fallast á frv. þetta. Nefndinni er það ekki ljóst, á hverju það byggist, að betra sje, að einn maður hafi eftirlit með jarðeignum ríkissjóðs á stóru svæði, í stað viðkomandi hreppstjóra í hverjum hreppi. Þeim ætti að vera það hægara, þar sem svæðið er minna og þeir eru nákunnugir. Nefndinni virðist það of mikið vantraust á hreppstjórum landsins að þora ekki að trúa þeim fyrir þessum tiltölulega fáu eignum, ef það álíst tiltækilegt að setja einn mann yfir margfalt fleiri eignir og dreifðari um margfalt stærra svæði. Það er þegar búið að selja mikið af þjóðjörðum, og það ætti því ekki að vera sjerstakt vandastarf að hafa á hendi innheimtu og eftirlit á þeim fáu eignum, sem eftir eru í hverjum einstökum hreppi. Aðalástæðan fyrir frv. þessu er talin sú, að ekki sje annað óselt af þjóðjörðum en þær, sem fyrirhugaðar eru til opinberra nota, eða þar sem er útmæling á lóðum, eins og t. d. á Raufarhöfn, Kópaskeri og Flatey, þar sem hafa risið upp þorp, og þess vegna telji stjórnin það miður heppilegt að fela hreppstjórn í hverri sveit umsjónina. En einmitt eins og hjer hagar til, þá lítur nefndin svo á, að hreppstjóri standi þar miklum mun betur að vígi en maður, sem á heima í fjarlægu hjeraði og hefir að sjálfsögðu auk þess í mörgu öðru að sýsla. Ef þessi maður ætti t. d. heima í uppsveitum Suður- eða Norður-Þingeyjarsýslu, mundi hann kynoka sjer við að fara alla leið út á Raufarhöfn eða fram í Flatey, til þess að skifta lóðarskika eða líta eftir ábúð einstakra leigjenda.

Þetta frv. kemur því undarlegar fyrir, sem það byggir á sömu ástæðu og lögin frá 1913 voru bygð á, en gengur þó í þá átt, að kollvarpa að miklu leyti þeim lögum. Og vil jeg í því sambandi vísa til orða flm. málsins 1913, 1. þm. Skagf. og þáverandi umboðsmanns. Hann segir svo, hinn gamli og glöggi þingm., í ástæðunum fyrir lögunum, sem jeg ætla að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Aðalatriðið í frv. er að koma hagkvæmara skipulagi á umboð þjóðjarða. Fyrirkomulagið nú er sjerstaklega óhentugt, af því að þjóðjörðum hefir fækkað mjög, fyrir sölu á seinni árum. Fyrirhöfn umboðsmanna aukist.“

Háttv. deildarmenn sjá, að ástæðan fyrir lögunum er þarna sú sama og nú er flutt til þess að upphefja þau og það í því umboði, sem ekki verður sagt að standi eiginlega neitt sjerstaklega á. Þegar litið er á þetta hliðstætt, kemur það allkátlega fyrir sjónir. Auk þess byggir frv. á undarlega litlu trausti til hreppstjóra yfirleitt. Ef sýslunefnd er ekki treyst til þess að útnefna svo þrjá menn, að þeim hverjum um sig sje nokkurn veginn fulltrúandi til að gegna stöðunni, og sýslumanni svo ekki treyst til þess að velja þann, sem hann ætlar best til starfans fallinn, þá er óneitanlega rjettara að nema lögin alveg úr gildi. Það nægir ekki að gera það að eins á þeim stað, sem frv. fer fram á, heldur fyrir fult og alt, ef bygt er á þessari órökstuddu ástæðu stjórnarinnar með frv. En þessi vantraustsyfirlýsing á hreppstjóra, sem nefndin getur ekki fallist á, er enn undarlegri, þegar til þess er litið, að þeir mega ekki gera ábúðarsamning án samþykkis viðkomandi sýslumanns. Vandamesta starfið á umboði þjóðjarða hvílir þannig að miklu leyti á sýslumanni, því hitt ætti hverjum hreppstjóra að vera ljett verk, að dæma um það, hvort jörð sje sæmilega setin og sjá um, að afgjald sje greitt o. s. frv. það getur verið erfiðara að gera hagfeldan byggingarsamning, en það er sem sagt gert með aðstoð sýslumanns.

Þetta mál er að vísu ekkert stórmál, en getur þó orðið allþýðingarmikið, því ef frv. er samþ., þá er því þar með lýst yfir, að lögin um umboð þjóðjarða sjeu óheppileg. Nefndinni hefir þess vegna ekki fundist ástæða til að fallast á frv., eins og tekið er fram í nál.

Þá má benda á það, að frv. hefir dálítinn kostnaðarauka í för með sjer. Umboðsmönnum er ætlað 10% í þóknun, og er það hagfelt, þegar til þess er litið, að áður höfðu þeir 162/3%. En hreppstjórar hafa 6% eða 4% minna en umboðsmenn. Þetta eru að vísu ekki stórar upphæðir og skiftir ekki mjög miklu máli, en eigi að síður mælir það á móti frv. frekar en með því.

Jeg sje þá ekki ástæðu til að ræða þetta frekara að sinni; fæ ef til vill tækifæri til þess síðar. Jeg hefi hjer lýst skoðun minni og skoðun nefndarinnar og vona, að mjer hafi tekist það svo, að háttv. deildarmenn geti auðveldlega áttað sig á málinu, enda er það ekki torskilið.