24.02.1921
Neðri deild: 8. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í C-deild Alþingistíðinda. (2678)

14. mál, bann innflutnings á óþörfum varningi

Jón Þorláksson:

Það eru öfgar hjá hv. þm. Ak. (M. K.), að það sje í eiginhagsmunaskyni, er kaupmenn halda því fram, að rjett sje að leyfa innflutning á ódýrum vörum til landsins. Jeg hefi ekkert sagt um það, hvort allur innflutningur ætti að vera ótakmarkaður; það er rannsóknarefni handa nefndinni. Hitt er annað mál, að jeg álít verksvið það, sem hæstv. fjármálaráðherra (M. G.) vill láta verðlagsnefndina hafa, vera alt of viðtækt. Það er ófær leið, til þess að halda vöruverði niðri, að hindra aðflutning á ódýrum varningi, en færa niður með valdboði verð á fyrirliggjandi birgðum.

Það er rjett hjá hæstv. fjrh. (M. G.), að það gæti ef til vill haft í för með sjer gjaldþrot einhverra manna, ef innflutningur væri óheftur. En það gæti líka leitt af sjer gjaldþrot, ef verðlagsnefnd setti niður verð hjá kaupmönnum niður fyrir það, sem vörurnar hafa kostað þá. Og jeg tel vafasamt, að slík niðurfærsla með valdboði væri heimil, ef hið opinbera jafnframt bannar kaupmönnum að flytja til sín ódýrari vörur. Jeg held, að hið opinbera yrði þá að taka vörurnar lögnámi gegn fullu endurgjaldi, til þess að ráðstöfunin kæmi ekki í bága við stjórnarskrána. Hjer við bætist, að engin verðlagsnefnd getur annað því að ákveða verð á öllum vörutegundum.

Mín skoðun er sú, að almenn viðskiftalögmál eigi að ráða Ef svo er, þá má hver sjálfum sjer um kenna, ef hann tapar á því að hafa keypt of mikið af vörum og of dýru verði. En þá er munur á afstöðunni gagnvart slíkum mönnum, eða þegar þeir geta skelt allri skuldinni á stjórnarráðstafanir.

Besta leiðin er því sú, að leyfa innflutning á ódýrum varningi. Það er fjarstæða hjá hv. þm. Ak. (M. K.), að nokkur hafi sagt, að núverandi erfiðleikar væru að kenna verslun ríkisins. Erfiðleikarnir stafa af dýrtíð þeirri, sem alstaðar ríkir, og verðfalli á íslenskum afurðum.

Hæstv. atvrh. (P. J.) og hæstv. fjrh. (M. G.) mótmæla því báðir, að ódýrari vörur sjeu fluttar inn í landið, vegna þess, að dýrari vörur sjeu fyrir. Vonandi fær sú skoðun ekki yfirhöndina. En það eru ekki of sterk orð að segja, að slíkt mundi halda við dýrtíðinni í landinu.