07.04.1921
Neðri deild: 37. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í B-deild Alþingistíðinda. (272)

18. mál, vátryggingarfélag fyrir fiskiskip

Frsm. (Pjetur Ottesen):

Frv. þetta er að efni til alveg óbreytt frá því er það var lagt fyrir þingið.

Þær breytingar, sem háttv. Ed. gerði á frv., tvær að tölu, eru, á öðrum staðnum leiðrjetting á villu, sem slæðst hefir inn í 5. gr. frv., en í hinum staðnum, í 7. gr., málsrjetting, að í staðinn fyrir „gerðardóm“ í 12. gr. laganna komi „gerðardómi“.

Með frv. þessu eru gerðar allverulegar breytingar á lögununi frá 1909 um stofnun vátryggingarfjelags fyrir fiskiskip. Má yfirleitt telja, að þær sjeu til mikilla bóta, enda hafa kringumstæðurnar breyst mjög síðau lög þessi voru samin, og því síst vanþörf á að breyta ýmsum atriðum.

Það hafa þegar fyrir löngu komið fram óánægjuraddir og umkvartanir um ýms ákvæði laganna.

Á þinginu 1917 flutti sjávarútvegsnefnd Nd. frv. um breytingar á þessum lögum. Það frv. náði ekki samþykki deildarinnar, þó að þm. hinsvegar viðurkendu fúslega, að þörf væri á ýmsum breytingum á lögunum, og varð niðurstaðan sú, að frv. var vísað til stjórnarinnar, og henni falið að undirbúa málið.

Breytingar þær, sem hjer liggja fyrir, ganga að sumu leyti lengra en breytingarnar 1917, en aftur er öðrum af þeim breytingum, er þá var farið fram á, slept. t. d. þeirri, að nema í burtu ákvæðið undir staflið 6 í 7. gr., „ef það sannast, að skipstjóri hafi af ásettu ráði eða fyrir vítavert hirðuleysi valdið tjóni“, að þá megi draga frá alt að 20% af skaðabótafjenu. Það er óneitanlega hart, að slík ráðabreytni skipstjóra skuli bitna svo hart á skipseiganda eða útgerðarmanni, sem er sýkn saka, og valdið honum svo miklu eignatjóni. En aftur á móti er þetta allverulegt tryggingarákvæði fyrir vátryggingarfjelagið, að því leyti, sem það er aðhald og sterk hvöt fyrir útgerðarmanninn um að velja ábyggilegan og góðan skipstjóra á skip sitt.

En breytingar þær, sem hjer liggja fyrir, ganga aftur á móti lengra að því leyti, að sjálfsábyrgðin er feld burtu úr lögunum, og jafnframt hin gagnkvæma ábyrgð vátryggjenda. Þetta er gert með breytingunni við 2. gr., og með því að fella burtu 6. gr. laganna. Þessi ákvæði hafa alla tíð verið óvinsæl af vátryggjendum.

Þetta var óneitanlega mikilsvert tryggingarákvæði fyrir sjóðinn, að minsta kosti meðan verið var að koma fótum undir hann, en þar sem forstöðumaður Samábyrgðarinnar telur fjelagið standa á traustum grundvelli, þótt þessari gagnkvæmu ábyrgð sje í burtu svift, þá sjer sjávarútvegsnefndin ekki ástæðu til að vera á móti henni, því að sú breyting er að ýmsu leyti til mikilla bóta.

Enn fremur er sú breyting gerð við 2. gr. laganna, að í stað þess að fjelagið er nú bundið við það að taka eingöngu ábyrgð á þeim skipum og bátum, sem ætluð eru til fiskveiða við Ísland, eða í þjónustu við þær, eða til flutninga hjer við land, þá er því breytt þannig, að fjelagið tekur „aðallega“ ábyrgð á skipum, sem ætluð eru til þess, en þar með er það ekki útilokað, að ábyrgðin geti einnig náð til skipa, sem fara landa á milli, t. d. með afla sinn, og er það mikil bót, og því fremur, sem slíkar siglingar eru venjulega hættuminni en siglingar með ströndum landsins.

Þá er í 3. gr. ábyrgð ríkissjóðs á því, að fjelagið fullnægi skuldbindingum sínum, hækkuð úr 200 þús. kr. upp í 800 þús. kr., og nokkur ákvæði, sem nú eiga ekki við, um aukaiðgjöld, feld niður úr þessari grein.

Við 5. gr. laganna er sú breyting gerð, að nú má tryggja afla og veiðarfæri á hverju einstöku fari fyrir alt að 10.000 kr., en áður var hámarkið 5000 kr.

Við 7. gr. er sú breyting, að feld eru í burtu ákvæðin um það, að ávalt skuli borga 2% frá af tryggingarupphæðinni, þó ekki yfir 3000 kr., og að tjón, sem ekki næmi 2% af tryggingarupphæðinni, alt upp að 300 kr., skyldi ekki bætt.

Heppilegra er talið að taka ákvæði um þetta upp í reglugerð, ef þess er álitin þörf.

Þá er 9. gr. laganna þannig breytt, að nú er það lagt á vald stjórnarinnar, hvort sjórjettarpróf skuli haldið út af tjóni, sem bóta er krafist fyrir. En áður var svo ákveðið, að það skyldi ávalt gert, Reynslan hefir sýnt, að þetta er í mörgum tilfellum óþarft, en hefir ávalt í för með sjer kostnað og fyrirhöfn.

Þá er í 13. gr. felt í burtu ákvæðið um að framkvæmdarstjóra Samábyrgðarinnar sje veitt staðan til 5 ára í senn, og jafnframt er í burtu felt annað ákvæði, sem nú er orðið dauður bókstafur.

Þá er loks upphæðin í 16. gr., 1000. breytt, þegar um er að ræða ágreining, er upp kann að koma milli fjelagsins og annara vátryggingarfjelaga, sem endurtryggja í því, og leggja skal ágreininginn í gerð. Hún hefir verið hækkuð upp í 2000 krónur.

Þá hefi jeg gert nokkra grein fyrir helstu breytingunum.

Að lokum skal jeg geta þess, að frv. þetta hefir, eftir því sem frá er skýrt í athugasemdunum, verið borið undir stjórn Fiskifjelags Íslands, og hún tjáð sig samþykka því í öllum greinum.