21.03.1921
Neðri deild: 28. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í C-deild Alþingistíðinda. (2722)

61. mál, skipting Ísafjarðarprestakalls

Björn Hallsson:

Jeg ætla ekki miklu við það að bæta, sem háttv. frsm. meiri hl. allshn. (P. O.) hefir sagt. Jeg taldi og tel enn ástæður hans góðar og gildar.

Um málið var allmikið rætt í allsheljarnefnd, og okkur kom ekki öllum ásamt. Jeg játaði, að vel mætti þessi skifting á undan ganga, ef þingið á annað borð vildi ganga inn á þá braut að fjölga prestum. En af fjárhagsástæðum tel jeg ekki hyggilegt að ganga inn á þá braut nú að fjölga starfsmönnum ríkisins um skör fram. Störf prestanna eru nú mun ljettari en áður, síðan fræðslulögin gengu í gildi, eða að minsta kosti taka prestarnir störfin ljettara. Og ef á að fara að fjölga þeim mikið, þá fer að verða spurning, hvort ekki sje rjettara að aðskilja ríki og kirkju, og hefi jeg þó ekki fylgt því til þessa.

Jeg er því sömu skoðunar og háttv. 1. þm. Bang. (Gunn. S.), að málið verði látið bíða nú og athugað, hvað margar slíkar breytingar stæðu til bráðlega. En jeg vil heldur ekki gefa því nein loforð um fylgi á næstu þingum.

Mjer finst undarlegt af háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.) að vera ógna þingmönnum með því, að presturinn fari, ef frv. sje ekki samþ. Mjer er um það kunnugt, að hann vildi ekki sveitaprestakall þegar hann fjekk þetta. En ef hann hefir nú fengið þá reynslu, að betra muni að vera í sveit, þá er ekkert um það að tala; það er ekkert annað en aukin lífsreynsla, sem hann hefir fengið um kaupstaðarveruna. Slíkt er hins vegar algengur hlutur, að prestar flytji sig úr einu brauði í annað.

Háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) benti á fólksfjöldann í prestakallinu, að þar væru um 930 manns. En jeg vil þá benda honum á Kirkjubæjarsókn með Hjaltastað, er í mun vera jafnmargt fólk eða heldur fleira. Erfiðleika eiga og prestar víðar við að stríða. T. d. þarf presturinn í því prestakalli að sækja yfir tvö stórvötn, Jökulsá og Lagarfljót, og snjóþunga sókn. Og þó það megi segja, að bátar sjeu dýrir og bátsferðir, þá eru reiðhestar og landferðir dýrar líka. Þannig má færa ýmsar ástæður með og móti skiftingunni, og víðar er erfitt og þarf að breyta, ef fjárhagsástæður leyfðu.

Jeg tel þess vegna mjög athugavert að fara inn á þessa braut, án þess að rannsaka alt vendilega. Og ef þingið hyrfi að því að fjölga prestum, þá held jeg, að væri rjett áður að endurskoða og athuga öll prestakallalögin yfirleitt.

Jeg hefi ekki í neinu skift um skoðun við umr. um málið hjer, enda mun það svo oftast, að þingræður á fundum hafa lítil áhrif, nema auka landssjóði útgjöld með óþarflega löngum þingfundum.