29.03.1921
Neðri deild: 29. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í C-deild Alþingistíðinda. (2740)

61. mál, skipting Ísafjarðarprestakalls

Frsm. meiri hl. (Pjetur Ottesen):

Jeg ætla ekki að rökræða frv. þetta nú, og því síður er þess þörf, þar sem jeg sje, að rök þau, sem færð eru fram í nál. meiri hl. allsherjarnefndar og ræðum þeim, er jeg hjelt um málið við 2. umr., hafa vakið menn til umhugsunar og sannfært að minsta kosti nokkra hv. deildarmenn um það, að það sje varhugavert að ganga út á þá braut, sem frv. stefnir, og þörfin fyrir skiftingu þessa embættis sje engan veginn svo brýn, sem haldið er fram af flm.

En jeg vildi aðeins leiðrjetta þau orð hv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.), er hann sagði, að meiri hl. nefndarinnar væri með skiftingunni. Hv. þm. (Þorst. J.) hlýtur að hafa orðið mismæli; það er minni hl., sem er með því, að frv. um skiftinguna nái fram að ganga.

Hv. frsm. minni hl. (S. St.) gat þess, að það að fara nú að hefja umr. um málið gæti kostað meira en laun prestsins næmu eftir skiftinguna, og rjeð því frá að hafa langar umr. um málið, en þar sem honum varð nú það á að halda lengstu ræðuna, þá sannast á honum, að hægra er að kenna heilræðin en halda þau.