05.04.1921
Neðri deild: 35. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í C-deild Alþingistíðinda. (2790)

70. mál, kosningaréttur og kjörgengi til bæjarstjórnar og sveitarstjórnar

Frsm. (Einar Þorgilsson):

* Á þskj. 84 er frv. til laga um breytingu á lögum nr. 49, frá 30. nóv. 1914, um kosningarrjett og kjörgengi til bæjarstjórnar í Reykjavík. Frv. þetta er samið af bæjarstjórn Reykjavíkur og flutt hjer í þessari hv. deild af öllum 4 hv. þm. Reykv. Var því vísað til allshn., og hefir hún samþ. nál. það, sem liggur fyrir á þskj. 174.

Í niðurlagi nál. getur allshn. þess, að hún geti alls ekki aðhylst frv. og sje því óskift um að leggja á móti því, að það nái fram að ganga. Ástæður hennar eru settar fram í nál., og jeg þarf nú ekki miklu við að bæta, þótt jeg hins vegar leyfi mjer að koma með nokkrar athugasemdir.

Það, sem nefndin fyrst og fremst hefir athugað, er að kjósendur eru ráðendur bæði í bæjar- og sveitarfjelögum, og má líta svo á, að öll stjórn sje í þeirra hendi. Því virðist svo, að þegar kosningalögin voru samin, þá hafi ekki aðrir verið látnir hafa kosningarrjett en þeir, sem færir væru taldir að fara með sjerforráð sín, eða hefðu búsforráð. Síðan hefir kosningarrjettur verið rýmkaður mjög, en nefndinni þykir of langt farið, þegar nú er til þess ætlast, að þeir fái kosningarrjett, sem alls ekki eru færir um að fara með sjerforráð sín.

Hjer er þá að ræða um að veita kosningarrjett þeim, sem styrk hafa orðið að þiggja vegna heilsubrests, ómegðarþyngsla eða sjúkdómstilfella. Nefndin tekur það fram, að hún er einhuga um það, að þeim ætti að veita aftur rjettindi sín, er hafa mist þau af tilgreindum ástæðum, ef mögulegt er að greina þessa styrkþega frá þeim, er af öðrum ástæðum hafa orðið að leita á náðir sveitar- eða bæjarsjóðs. Nefndin getur þess í nál. sínu, að í núgildandi lögum er það allmikið misrjetti, að þessum mönnum er gert alveg jafnt undir höfði og öðrum, sem eru styrkþegar fyrir ráðleysi, kæruleysi eða ómensku. Nefndin bendir á það í nál., að fyrir hv. deild liggi frv. til laga um breytingu á 77. grein fátækralaganna, þar sem komi fram ákvæði, er miða í þessa átt, og nefndin er þessari stefnu fylgjandi, en er hins vegar á móti því, að allir styrkþegar verði kosningarrjettar og kjörgengis aðnjótandi.

Annað atriði í þessu frv., sem jeg vildi minnast á, er það, að þeir, sem skattskyldir eru og ekki hafa greitt skatta sína fyrir kjördag, skulu strikast út af kjörskrá. Þetta finst nefndinni algerlega ríða í bág við hugsjón þá, er að baki frv. liggur, að allir verði kosningarrjettar aðnjótandi. Það er mesta ástæða til að ætla, að margur sje skattskyldaður, sem þó ekki getur greitt skatta sína á rjettum tíma, eða eigi bágt með það. Ýms ófyrirsjáanleg forföll, sem skattgreiðanda alls ekki verður kent um, geta hindrað hann. Það er því í rauninni mesta misrjetti, að þeir, sem ekki hafa greitt skatta sína 3 dögum fyrir kjördag, eigi að strikast út. Nefndin lítur svo á, að þetta ákvæði jafnvel gæti leitt til þess, að menn mundu reyna að koma sjer hjá því að greiða skatta og leita styrks, þótt þeir hefðu enga aðra þörf fyrir hann. Þess er getið í greinargerðinni fyrir frv., að þetta ákvæði sje sett til þess að herða á mönnum að greiða skatta sína á rjettum tíma, en nefndin lítur svo á, að það einmitt muni leiða til þess, að menn, fremur en ella, leiti á náðir sveitar- eða bæjarsjóðs.

Jeg álít þetta mál eitt af þeim, sem ekki verðskulda langar umr. og megi ekki tefja fyrir öðrum mikilsverðari málum. Jeg skal þess vegna ekki vera langorður, en læt mjer nægja að vísa til nál.

Þess vil jeg þó geta, að það getur tæpast talist rjett að semja sjerstök lög um kosningarrjett og kjörgengi fyrir Reykjavík, heldur eigi þau lög að vera ein og þau sömu fyrir alt land. Og jeg skal geta þess enn fremur, viðvíkjandi brtt. hv. þm. Dala. (B. J.), á þskj. 212, um 21 árs aldurstakmarkið til kosningarrjettar, að nefndin hefir alls ekki enn tekið neina afstöðu til hennar, svo jeg get engu svarað fyrir hennar hönd, en fyrir mitt leyti vil jeg geta þess, að með þessari brtt. er ekki numin á burt þyngsta ástæða mín fyrir að leggjast á móti þessu frv. Þá brtt. get jeg því ekki aðhylst; hún ætti þá líka helst að koma fram sem sjerstakt frv.

*) Þessi ræða átti að koma á undan ræðu Jóns Baldvinssonar.