01.04.1921
Efri deild: 32. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í C-deild Alþingistíðinda. (2926)

74. mál, skipun læknishéraða o.fl.

Halldór Steinsson:

Á Alþingi 1917 flutti jeg hjer í deildinni frv. um stofnun Hnappdælalæknishjeraðs. Hin hv. deild sá sjer ekki fært að samþ. frv., en afgr. það með rökst. dagskrá, eins og nefndin leggur til að gert verði við frv. það, sem nú liggur hjer fyrir. Jeg vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp dagskrána frá 1917. Hún hljóðar svo:

„Í því trausti, að stjórnin á næstu árum taki skipun læknishjeraða til gagngerðrar endurskoðunar, sjerstaklega með tilliti til þeirra óska, sem komið hafa fram á síðari þingum í því máli, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Á þingi 1919 kom þetta mál aftur til umr. hjer í þessari hv. deild. Og eins og hv. flm. (B. K.) gat um, var þá samþ. hjer í deildinni að stofna tvö ný læknishjeruð Hnappdælahjerað og Kjósarhjerað, og málið afgr. til hv. Nd. Er þrátt fyrir þennan skýlausa vilja deildarinnar 1919 og hina skorinorðu dag skrá 1917, hefir stjórnin þó alls ekkert gert í þessu máli. Þegar þetta mál kemur nú enn á ný fyrir þingið, og það treystist ekki til að afgr. það, vegna fjárskorts, þá er það þó það minsta, sem þingið getur gert, að ákveða svo skýrt, að stjórnin skuli undirbúa málið, að hún geti ekki látið það undir höfuð leggjast. En nú er dagskrá nefndarinnar svo óákveðin, að stjórnin getur hennar vegna dregið undirbúning þessa máls á langinn. Í nefndarálitinu er tekið svo til orða, að stjórnin skuli taka skipun læknishjeraða til gagngerðrar endurskoðunar, „þegar hægist um fjárhag landsins“. Þarna eru bakdyr fyrir stjórnina að smjúga út um. Því það er á hennar valdi að ákveða, hve nær hún telur fjárhag landsins svo góðan, að tiltök sjeu að taka skipun læknishjeraðanna til endurskoðunar. Þess vegna álít jeg rjettast að fella þessa setningu burtu úr dagskránni. Yrði hún þá fullkomlega í samræmi við vilja þingsins 1917.

Jeg leyfi mjer því að bera fram aðra rökstudda dagskrá, svo hljóðandi.

Í því trausti, að stjórnin taki skipun læknishjeraða til gagngerðrar endurskoðunar sem fyrst, og taki þá tillit til þeirra óska, sem fram hafa komið á síðari þingum í því máli, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.