09.05.1921
Neðri deild: 65. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 318 í C-deild Alþingistíðinda. (2947)

114. mál, sýsluvegasjóðir

Eiríkur Einarsson:

Með frv. virðist stigið spor í þá átt að ljetta undir með þeim, er vegaviðhaldið hvílir þyngst á, þar sem landssjóði er ætlað að hlaupa undir bagga, þegar greiðslurnar fara að verða mjög háar. Af þessum ástæðum ljæ jeg frv. atkv. mitt upp úr hv. deild, þótt jeg sje að ýmsu leyti óánægður með það. Hefi jeg ekki ráðist í að koma með brtt. við það, en þykist vita, að lagfæringar verði gerðar í hv. Ed. á því, sem helst þarf umbóta. Skal jeg drepa á nokkur atriði þess, er jeg tel endilega þurfa að breyta við frv., áður en þingið gengur frá því, og í trausti þeirra lagfæringa í hv. Ed. greiði jeg atkv. mitt.

Jeg er mjög myrkfælinn við þá breytingu, sem frv. gerir ráð fyrir, frá því er nú er, að leggja vegagjöldin á fasteignirnar, sem jeg held að sje nóg boðið með skattaálögum eftir þetta þing, þótt þetta gjald jafnaðist ekki á þær. Er það ætlun mín, að sanngjarnara og rjettlátara hefði verið að afla greiðslnanna áfram með svipaðri niðurjöfnun og verið hefir. Með þessari sífeldu fasteignaskattskyldu verður þeim íþyngt, er helst þyrfti að hlífa oft og einatt, en öðrum slept, er síður skyldi.

Þá held jeg, að ákvæði 4. gr. frv., um heimild fyrir sýslunefndir til að ákveða hreppum misjafnt hundraðsgjald, sje varhugavert, gæti eins haft ósanngirni í för með sjer eins og hitt, sem því er ætlað. Væri eftir því, hvernig atkvæðamagni væri háttað í sýslunefndum, hægt að ofbjóða einstökum sveitum með þessari heimild.

Mjer finst, að ekki ætti að gera ráð fyrir, að hærri niðurjöfnun en 6 af þúsundi geti átt sjer stað.

Þá vil jeg geta þess um ákvæði 7. gr., sem er þó höfuðrjettarbótin, að landssjóðsgreiðslurnar byrja of seint: væri mesta nauðsyn að ljetta undir með sýslufjelögunum fyr en útgjöld sýsluvegasjóðs nemur 3 af þús. fasteignaverðs; ætti fremur að byrja á 2‰ og hækka hraðari skrefum. Þegar sýsluvegaútgjöldin fara að verða óhemjuhá, er ofætlun að láta sýslufjelögin greiða nema lítinn hluta þeirra.

Þá finst mjer nauðsynlegt, að reynt væri í sambandi við þetta að afla sýslufjelögunum tekjustofna, til að standast þessi þungu útgjöld, aðra en fást með sjerstakri álagningu í þessu skyni. Tel jeg þar liggi næst að benda á eigna- og tekjuskattinn, sem væri vel fallinn til að notast í þessar nauðsynjar; með því væri líka trygð að nokkru innheimta hans.

Vænti jeg þess, að frv. eigi eftir að komast í það horf, sem hjer hefir verið bent á, áður en hv. Ed. gengur frá því.