19.02.1921
Neðri deild: 4. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í C-deild Alþingistíðinda. (3017)

19. mál, vatnalög

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Þetta mál er nú lagt fram, samkvæmt tilætlun síðasta þings. Undirbúningur þess hefir verið sá, að lögfræðingur, sem málum þessum var einna kunnugastur, var fenginn til þess að semja upp úr frv. milliþinganefndarinnar frv. það, sem hjer liggur fyrir. Eins og tekið er fram í athugasemdunum, hefir þar fremur verið hallast að minni hlutanum að efni til, en að meiri hlutanum að formi til. Að öðru leyti get jeg vísað til athugasemdanna, sem frv. fylgja, bæði um málið í heild sinni og einstök atriði. Þá vil jeg og benda væntanlegri hv. nefnd á það, að í aths. er mjög skírskotað til nál. fossanefndarinnar, og verður það því vitaskuld að vera til hliðsjónar við athugun þessa frv.

Að öðru leyti ætla jeg ekki að halda langa ræðu að þessu sinni. Jeg vil aðeins bera fram afsökun fyrir sjálfan mig í þessu máli, — afsökun á því, hvað jeg hefi sjálfur unnið lítið að þessu frv. Þegar litið er til annara starfa, sem atvinnumálaráðherra hefir í stjórnarráðinu, sjest brátt, að honum muni ekki tæmast mikill tími til löggjafarstarfa, og enn síður næði, allra síst til þess að setja sig inn í svo umfangsmikinn bálk, sem hjer er um að ræða. Til þess þarf meira hugsana- og starfsnæði en mjer er skamtað. Jeg get þessa hjer, til skýringar á því, hvers vegna prófessor Einari Arnórssyni var falið að semja þennan lagabálk, og til þess að eigna mjer ekki starf, sem jeg hefi ekki unnið.

Jeg vil benda á eina viðbót eða atriði, sein vantaði í bæði frv. fossanefndanna, sem sje alm. ákvæði um veiðirjett í vötnum, þar á meðal um eignarrjett á veiði í stöðuvötnum. Eldri ákvæði í lögum eru tekin hjer upp, en ákvæði um eign á veiði í stöðuvötnum hefir vantað áður og lögfræðinga greint á um það, t. d. hvort ákvæðin um straumvötn gildi einnig um stöðuvötn. Þetta nýja ákvæði er nú sett í samræmi við samhljóða álit fossanefndarinnar, um eignarrjett á vatnsbotni; enn fremur gamlar venjur við eitt helsta veiðivatn landsins, Mývatn. Athugasemd í jarðabók Árna Magnússonar frá 1712, þar sem almenningur er talinn í Mývatni, ber vott um þetta.

Sömuleiðis vil jeg benda hv. nefnd á þá spurningu, hve almenningsrjetturinn eigi að ná langt, hvort heldur til alls landsins, eða t. d. aðeins sveitarfjelaga þeirra, sem lönd eiga að vatninu. Jeg kannast við, að það vantar ákvæði í frv. um þetta atriði.

Að lokum leyfi jeg mjer að stinga upp á sjerstakri nefnd í þetta mál, að umr. lokinni, og ætti 5 manna nefnd að nægja.