14.03.1921
Neðri deild: 22. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 494 í C-deild Alþingistíðinda. (3087)

84. mál, vextir

Flm. (Gunnar Sigurðsson):

Jeg skal ekki vera langorður; býst við, að slíkt sje óþarft um svo einfalt mál, sem hjer um ræðir. Frv. þetta er aðeins breyting á úreltum lögum, nr. 10, 7. febr. 1890, er alls ekki eiga hjer lengur við.

1. gr. frv. ræðir um, að þar, sem ekki er tiltekin vaxtaupphæð af láni, skuli vextirnir vera 6%.

Það er að vísu sjaldgæft, að slíkt korni fyrir, en þó þykir rjett að slá við því varnagla.

2. gr. frv. er aðalatriðið. Samkvæmt henni er heimilað að taka alt að 8% ársvexti af peningaláni með veði í fasteignum.

Eins og nú standa sakir er óheimilt fyrir aðra en bankana — Landsbankann og Íslandsbanka — að taka hærri vexti en 6% af slíkum lánum, og meira að segja mjög óviss heimild fyrir þá, þó þeir muni ekki fara eftir þessu ákvæði, eða að minsta kosti þá fara í kringum það, gegn veði í fasteign. Þetta fyrirkomulag er afarbagalegt bæði fyrir einstaka menn og sparisjóðina. Hafa sparisjóðirnir tekið tvent til bragðs í þessu efni. Annað það, að veita helst ekki fasteignaveðlán, heldur víxillán. Hitt það, að fara í kringum lögin, og taka hærri vexti af þessum lánum en þeir höfðu heimild til. Er hvorugt gott og sýnir, að breyting á þessum úreltu lögum er nauðsynleg.

Eins og ástandið er nú, er það fjölda manna afarbagalegt að geta ekki fengið lán út á fasteignir sínar, og þekki jeg þess mörg dæmi.

Hitt geri jeg ekki að neinu kappsmáli, hvort vextina af þessum lánum skuli miða við 8% eða við forvexti í bönkunum. En jeg bar þetta atriði undir ýmsa fjármálamenn hjer, og töldu þeir heppilegra að miða vextina við fasta, ákveðna tölu heldur en við „disconto“ bankanna, sem sífelt breytist.

Jeg fer svo ekki fleiri orðum um frv. þetta. Vona, að það nái fram að ganga, og geri það að till. minni, að því verði vísað til fjárhagsnefndar.