21.03.1921
Neðri deild: 28. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 520 í C-deild Alþingistíðinda. (3127)

98. mál, vegir

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Út af ræðu hv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.) vil jeg taka það fram, að stjórnin hefir enn ekki getað tekið vegamálið, samkvæmt umtalaðri þál., til nægilegrar rannsóknar. Fyrst og fremst hefir hún — eins og sjá má af því, sem nú liggur fyrir þinginu — allmikið að gera við rannsókn og undirbúning annara mála, og þar að auki óvenjulegar annir í öðrum efnum. Enn fremur virtist stjórninni tæpast tími til þess að taka fleiri vegi á landssjóðs arma, á meðan ekki er komið lengra áleiðis með þá vegi, sem í vegalögunum eru og hafa verið frá öndverðu.

Um þetta atriði, sem hjer er um að ræða sjerstaklega, er þó það að athuga, að þar sem hjer er um lagðan veg að ræða, er það aðallega viðhaldið, sem á landssjóð mundi koma. En hvað svo sem því líður, þá virðist mjer sjálfsagt, að eigi að hreifa við einu slíku máli, verði óhjákvæmilegt að athuga kerfið alt í heild sinni jöfnum höndum.

Um hitt skal jeg lítið þræta, og ekki gera það að kappsmáli, hvort þetta yrði rannsakað í samgöngumálanefnd, þótt jeg viti það reyndar af eigin reynslu, að slík mál hafi ávalt komið til athugunar í fjárveitinganefnd, og meira að segja verið eitt af mestu vandamálum hennar. Hygg jeg, að hún hafi best yfirlit um vegakerfi landsins í heild sinni, og ástæður og þarfir landsmanna í því efni.