07.04.1921
Neðri deild: 37. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í C-deild Alþingistíðinda. (3152)

120. mál, launalög

Þórarinn Jónsson:

Það eru aðeins örfá orð. Það er auðvitað rjett hjá hæstv. forsrh. (J. M.), að föstu launin eru ákveðin með kaupsamningi millum embættismanna og ríkisins, en dýrtíðaruppbótin þarf alt að einu ekki að falla undir þennan kaupsamning, heldur sýnist mjer hún fult eins vel mega skoðast sem uppbót, sem ríkið veitir starfsmönnum sínum, og sem það eitt hefir fullan ráðstöfunarrjett yfir. Hæstv. forsrh. sagði líka, að þingið hefði fulla heimild til að breyta lögunum eftir 1925, en jeg fæ eigi sjeð, að það hafi frekar heimild til þess að lækka launin eftir þann tíma, en það hefir nú.

Annars virðast allir mótstöðumenn frv. ganga út frá því, að þetta hljóti endilega að hafa lækkun uppbótarinnar í för með sjer, og sje gert í þeim tilgangi. Þetta er að því leyti rjett, að það mundi hafa þessar verkanir, eins og nú stendur á, en fari svo, sem vel sýnist geta orðið, að vöruverð stigi aftur, mundi þetta hafa gagnstæðar verkanir. Hjer getur því alveg eins verið um hækkun að ræða.

Að síðustu vil jeg geta þess, að skoðanirnar um heimild til breytingarinnar eru nú talsvert mismunandi, því að hv. þm. Dala. (B. J.) hjelt því nú fram, að þingið hefði ætíð heimild til að auka eða skerða laun starfsmanna sinna.