15.04.1921
Neðri deild: 44. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í C-deild Alþingistíðinda. (3202)

102. mál, bann á innflutningi á óþörfum varningi

Hákon Kristófersson:

Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) var að tala um það, að hann myndi ekki þau orð mín, er fallið höfðu í sinn garð við í. umr. þessa máls. Þetta eru nú kynleg ummæli, þar sem hann þó fann ástæðu til að snúa út úr orðum mínum, og það mjög illgirnislega, eða var hann að hártoga sitt eigið minnisleysi? Jeg sagði ekki, að mjólkurgripirnir væru allajafnan geldir, en að í harðæri gætu þeir brugðist sem annað. En segjum svo, að slíkar horskjátur, eins og háttv. þm. (Sv. Ó.) komst að orði, væru til á Barðaströnd, þá væri það ekki nema lítill hluti af gripum landsins, og jafnvel þótt einhverjar horskjátur úr kjördæmi háttv. þm. S.-M. (Sv. Ó.) bættust í hópinn, þá mundi það engu muna. Yfirleitt bjóst jeg alls ekki við svona óþinglegum orðatiltækjum, sem hv. þm. (Sv. Ó.) þótti sæma að viðhafa í ræðu sinni. Við nánari athugun er þetta ekki nema sem vant er, að þessi hv. þm. (Sv. Ó.) fer með útúrsnúninga og illyrði í ræðum sínum í garð mín og annara þm.

Hann sagði, að þeir, sem fylgdu frv., fylgdu því af óhreinum hvötum. Svona nokkru má alt af slá fram, en venjulega eru það ekki þeir, sem hreinastir eru, sem beina svona ásóknum til annara. (B. J.: Hreinn Sveinn!).