15.04.1921
Neðri deild: 44. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í C-deild Alþingistíðinda. (3205)

102. mál, bann á innflutningi á óþörfum varningi

Flm. (Jakob Möller):

Jeg verð að segja, að mjer kom nokkuð á óvart þessi fjörbrotakippur, sem stjórnin tók nú alt í einu við umr. þessa máls, þar sem alls ekki er enn að því komið að ákveða, hvort heimildarlögin skuli úr gildi numin, heldur er málið aðeins til 1. umr. Það hlýtur eitthvað mótdrægt að hafa komið fyrir hæstv. stjórn, úr því að hún er svona „nervös“ út af ekki meira máli en þessu. Jeg man ekki betur en að hæstv. stjórn hafi hvað eftir annað lýst því yfir, þegar var verið að ræða um afnám innflutningshafta á nauðsynjavörum, að af því mundi leiða, að ilt eða ómögulegt yrði að framkvæma nokkrar hömlur á óþarfainnflutningi, og ekkert gagn að banninu nema allar vörur væru teknar með. En nú kemur hæstv. stjórn sjálfri sjer alveg í baksegl og segir að framtíð landsins og gæfa standi og falli með því, að þessi hjegómi fái að halda sjer. Ja, — það sæmir óneitanlega vel hæstv. stjórn að gera þennan hjegóma að „kabinets“-spursmáli, og meira að segja, það er henni vel sæmandi einmitt að vinna hinn glæsilegasta sigur á því bragði sínu!

Jeg skil annars vel, að hv. þm. Ak. (M. K.) sje ant um að halda í þennan anga, sem eftir er af innflutningshöftunum. Það er sagt, að landsverslunin hafi altaf haft gott af innflutningshöftunum, og nú á hún að fara að hafa einkasölu á tóbaki og ef til vill líka sælgæti, og þá er skiljanlegt, að hún vilji tryggja sjer það að þurfa ekki að keppa við kaupmenn um þær vörur.

Jeg skal svo víkja að því, sem áður hefir verið sagt um þetta mál, og þá fyrst að hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.). Það var alveg rjett, sem sá hv. þm. sagði, að frv. þetta er fram komið af því að dagskrá mín við 2. umr. um bráðabirgðalögin var feld. Eftir það var ekki hægt að gera sjer grein fyrir, hvaða vörur mætti flytja til landsins og hverjar ekki. Það er svo langt frá því, að það hafi komið skýrt fram við þá umr. T. d. sagði hæstv. atvrh. (P. J.), að margar vörur, seni nú væru taldar þarfavörur, gætu síðar talist hreinn óþarfi. Stjórninni eru því alls ekki sett nein takmörk í þessu efni, en slíka óvissu tel jeg óheppilega, og það, sem jeg fer fram á með því að flytja frv. þetta, er í raun og veru ekki annað en það, að hv. þing láti skýrt og ótvírætt í ljós álit sitt á því, hvort nokkur innflutningshöft skuli hafa eða ekki, eða á hvaða vörutegundum og hverjum ekki. Ef þingið vill hamla innflutningi á óþörfum vörum, þá tel jeg rjett að telja upp þær vörur, sem heimila skal innflutning á, eða þá þær, sem ekki má flytja inn. Frv. er fram borið til þess að fá skorið úr þessu.

Jeg geri ráð fyrir, að frv. verði vísað til nefndar. Gæti jeg vel hugsað mjer, að nefndin legði það svo til, að frv. yrði samþykt og þannig feld úr gildi sú ákveðna heimild, sem felst í lögunum frá 8. mars, en jafnframt væri t. d. fram borin þál.till. um að heimila stjórninni að hefta eða banna innflutning á ákveðnum vörutegundum, t. d. þeim, sem stjórnin hefir nú auglýst. Mjer finst þessvegna engin ástæða fyrir hæstv. stjórn að láta svona óðslega nú þegar út af þessu frv. En vitanlega get jeg ekki varnað henni að gera það að „kabinets“-spursmáli nú við 1. umr. þótt mjer finnist það dálítið barnalegt.

Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) fór þeim orðum um frv., að það væri ekki af hreinum hvötum sprottið. Þeim ummælum vísa jeg aftur heim til föðurhúsanna, og jeg geri ráð fyrir, að hvatir þessa hv. þm. (Sv. Ó.) sjeu ekki hreinni en annara í þessari deild. Og yfirleitt tel jeg ósæmilegar þær getsakir, sem vilja klingja við til okkar þm. Reykvíkinga, t. d. að við tökum of mikið tillit til kjósenda okkar. Við þm.

Reykv. erum allir sammála um þetta, og líklega gerir þó hv. þm. (Sv. Ó.) ekki ráð fyrir, að þeir kjósendur hjer í bænum, sem einkum versla með „glingur og glys“, hafi öll ráð yfir samþingismanni mínum, háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.), hvað sem okkur hinum líður. Ástæðan til þess, að við allir erum mótfallnir þessum hjegóma, er sú, eins og jeg svo oft hefi tekið fram, að þetta er með öllu tilgangslaust fálm og óþörf fyrirhöfn; í fyrsta lagi vegna þess, að hjer er um svo litla upphæð að ræða, samanborið við verslunarveltuna, og í öðru lagi vegna þess, að innflutningur á þeim vörum, sem hjer er um að ræða, hlýtur að heftast alveg af sjálfu sjer eins og nú er ástatt. Eftirspurnin minkar eftir því, sem kaupgetan minkar, og menn verða hræddir við að flytja inn eftir því, sem verðlag vörunnar lækkar erlendis og eftirspurnin minkar innanlands. Jeg get bent á það í þessu sambandi, að í marsmánuði í fyrra nam innflutningur til Danmerkur 242 milj. króna, en í síðastliðnum marsmánuði voru fluttar þangað aðeins fyrir 100 milj. króna. Þetta sama lögmál myndi einnig gera sig gildandi hjer. Og þegar um það er að ræða, hvað sparast mundi við innflutningshöftin, þá mega þm. ekki einblína á það, sem flutt er inn á þeim árum, þegar innflutningurinn er sem allra mestur, og hve mikið mundi mega draga úr þeim innflutningi. Hjer ber eingöngu á það að líta, hvaða líkur eru til, að mikið af óþarfavarningi yrði flutt til landsins eins og nú á stendur, þegar innflutningshvötin eru lömuð bæði af getuleysi kaupmanna að afla sjer varanna og af getuleysi almenings að kaupa þær af þeim aftur. Það má telja það alveg víst, að án allra innflutningshafta mundi innflutningurinn verða alveg hverfandi, vegna þess að menn vilja alls ekki kaupa. (M. K-: Það er ekki þessum háttv. þm. að þakka). Það er víst ekki heldur hv. þm. Ak. (M. K.) að þakka; nú, en vilji hann þakka sjer ástandið, sem nú er í landinu, þá læt jeg honum það eftir og skal ekki keppa við hann um þann heiður.

Um dagskrá hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) er óþarfi að tala. Jeg skildi hana ekki sem vantraust eins og hv. samþingismaður minn, 4. þm. Reykv. (M. J.). Mjer finst hún frekar lýsa trausti, en það kom mjer nokkuð á óvart, eins og sagt hefir verið í blöðunum nú síðustu dagana, um afstöðu þessa háttv. þm. til hæstv. stjórnar.

En eftir það, sem fram hefir komið í málinu hjer í dag, þá gefst mönnum nú færi á að greiða atkvæði um traust eða vantraust á núverandi stjórn í sambandi við þetta mál, því hæstv. forsrh. (J. M.) hefir tekið það fram um afstöðu stjórnarinnar til frv., að hún mundi ekki „una því“, ef frv. yrði samþ.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um málið. Það ætti að vera orðið öllum þingheimi sæmilega ljóst.

Hjer er ekki um það að ræða, hvort taka skuli endanlega ákvörðun um það, hvort algerlega skuli afnema takmörkun innflutnings á óþörfum varningi, heldur hitt, hvort þingið sjálft eigi að ráða því algerlega, hvort það vill takmarka innflutninginn, og hvaða vörur þá skuli banna.

Jeg geri ráð fyrir, að frv. verði vísað til nefndar til þess að athuga það nánar.