03.05.1921
Neðri deild: 61. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í D-deild Alþingistíðinda. (3396)

107. mál, heimavistir við hinn lærða skóla í Reykjavík

Frsm. (Jón Þorláksson):

Þessi till. stendur í sambandi við frv. til laga um hinn lærða skóla í Reykjavík, sem mentamálanefndin hefir látið frá sjer fara.

Ástæðurnar fyrir till. eru þær fyrst og fremst, að eins og kunnugt er, eru megn vandræði fyrir aðstandendur námsmanna að útvega húsnæði og fæði handa þeim hjer í bænum. Og örðugleikarnir fyrir aðstandendur nemenda við mentaskólann eru meiri en annara, sökum þess, að þangað fara menn yfirleitt mjög ungir, og þar af leiðandi getur ekki talist forsvaranlegt að senda þá hingað, nema sjeð sje fyrir fæði og húsnæði hjá góðu fólki, en á því vill verða misbrestur sökum húsnæðisvandræðanna.

Önnur ástæðan fyrir því, að nefndin ber fram þessa till., er sú, að hún álítur heimavistir nauðsynlegar vegna skólans sjálfs og skólalífsins. Áður voru heimavistir við þennan skóla. Aðalástæðan til þess, að þær voru afnumdar, var rúmleysi. Meðan þær voru mótuðu þær skólalífið. Þær ólu upp fjelagsanda meðal pilta, og þeir hefluðust við að umgangast hverjir aðra. Reynslan sýndi, að þótt heimavistirnar nægðu ekki nema handa helmingi nemenda, þá var þó sá hópur nógu stór til þess að vera miðpunktur skólalífsins og draga einnig hina, sem ekki bjuggu þar, að sjer. Eftir að heimavistirnar lögðust niður, hefir alt skólalífið breyst mjög. Oss, hina eldri skólamenn, furðar á því, hve lítil kynni piltar hafa nú hver af öðrum. Því fer fjarri, að nemendur þekki nú alla skólabræður sína með nafni. Þess hefir orðið vart, að nú fara menn af skólanum óánægðir með hann og veru sína þar. Stingur þetta mjög í stúf við það, sem áður var. Jeg efast ekki um, að þetta stafar mikið af því, að heimavistirnar eru farnar og með þeim samlíf það á milli pilta, sem af þeim leiddi.

Svo teljum við heimavistirnar nauðsynlegar til að koma rjettingu á það hlutfall, sem nú er á milli reykvískra nemenda og nemenda annarsstaðar að. Örðugleikarnir á að koma nemendum hjer fyrir draga úr aðsókninni frá öðum hjeruðum, og að sama skapi fjölgar Reykvíkingunum. 2/3 hlutar allra nemenda mentaskólans eru nú úr Reykjavík. Nefndin er sammála um að telja óheppilega slíka röskun á hlutföllunum, og álítur hún nauðsynlegt að skapa skilyrði til þess, að utanbæjarmenn geti sótt skólann.

Að því er meiri hluta mentamálanefndarinnar snertir, þá stendur tillagan einnig í sambandi við frv. það, sem mentmn. hefir afgreitt til þingsins. Þar er gert ráð fyrir, að slitið verði hinu beina sambandi milli Akureyrarskólans og skólans hjer. Þá verða þeir, sem ætla sjer að ganga mentabrautina, að jafnaði að byrja strax hjer, þótt hitt sje auðvitað ekki útilokað, að duglegir menn geti gengið inn í efri bekki, eins og altaf hefir átt sjer stað. Við skólann á Akureyri eru nú heimavistir. Þær hafa mjög stuðlað að því, að fyrir menn af Norður- og Austurlandi hefir verið þægilegra að sækja skólann þar en hjer. Ef sambandinu milli skólanna yrði slitið, ykist þess vegna mjög örðugleikinn við skólanám fyrir menn úr þessum landshlutum. Úr þessu mætti mikið bæta með góðum heimavistum og mötuneyti hjer við skólann, því við það lækkaði mjög kostnaðurinn við að dvelja hjer.

Enn skal jeg geta þess, að ráðunautar þeir, sem stjórnin hefir skipað til að athuga skólamál vor, Guðmundur prófessor Finnbogason og Sigurður prófessor Sívertsen, víkja að því í áliti sínu, að nauðsynlegt sje að koma upp heimavistum við mentaskólann, þótt þeir ekki komi fram með neinar beinar tillögur um það.

Í sambandi við þetta mál hefir stúdentaráðið beint því til mentamálanefndarinnar, hvort hún áliti ekki unt að koma upp verustað fyrir stúdenta í sambandi við heimavistirnar handa mentaskólapiltum. Nefndin vill ekki gera að tillögu sinni, að slíkum verustað sje blandað saman við heimavistirnar, en hún mælir hið besta með, að þarfir stúdentanna sjeu teknar til álits og undirbúnings svo fljótt sem mögulegt er.

Brtt. er komin fram frá hv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.). Hún fer fram á, að undirbúningur sje líka gerður til að koma á heimavistum við kennaraskólann. Nefndin sem heild hefir ekki viljað gera þetta að tillögu sinni í bili, sökum þess, að alt er óráðið um skipun þess skóla í framtíðinni. Það má raunar líka segja það um mentaskólann, en þó er skemmra komið með kennaraskólann. Till. milliþinganefndarinnar um þann skóla eru alveg nýkomnar. Nefndin vill gera kennaraskólann viðskila við aðra skóla, eins og mentaskólann. Þó vill mentamálanefndin ekki taka gefið, að þetta verði gert. Hugsanlegt væri, að hann yrði látinn vera í einhverju sambandi við gagnfræðaskólana, og fyr en sjeð verður með vissu, hvert samband verður þar á milli, er ekki hægt að gera ákveðnar tillögur um skipun heimavistar við kennaraskólann. þess vegna vill nefndin ekki taka upp ákvæðið í brtt. hv. 1. þm. N.-M. (þorst. J.) að sinni. En hún er að sjálfsögðu með því, að kennaraskólinn fái heimavist, og þegar búið er að ákveða skipulag hans, þá mun hún leggja til með því, að byrjað verði á undirbúningi þess máls.

Jeg vil geta þess, að þótt þessi till. mentamálanefndarinnar verði samþykt, þá hefir hún ekki neinn sjerstakan kostnað í för með sjer, því að eftir því, sem horfir nú með fjárlögin, þá mun byggingarmeistari fá aðstoðarmann með háum launum, og ætti hann því að geta undirbúið þetta mál án sjerstaks kostnaðar fyrir ríkissjóð.

Mentamálanefndinni var ljóst, þótt hún bæri tillöguna fram, að miklir örðugleikar eru á framkvæmd þessa máls sökum fjárhagsástands landsins og hversu dýrt er nú að byggja. En þótt nefndin áliti þennan tíma illa fallinn til framkvæmda, þá álítur hún rjett að nota einmitt þennan tíma til undirbúnings, svo að hægt sje að byrja undir eins á framkvæmdunum og um hægist.