03.05.1921
Neðri deild: 61. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í D-deild Alþingistíðinda. (3398)

107. mál, heimavistir við hinn lærða skóla í Reykjavík

Þorsteinn Jónsson:

Jeg býst ekki við, að stjórnin geti mikið framkvæmt á næsta ári í þessu máli, þó að tillagan á þskj. 311 ásamt brtt. minni yrði samþykt. Tilgangurinn með þeim er líka aðeins sá, að hún færi að hugsa um málið og framkvæmi svo verkið, er hún sjer sjer fært. Enginn vafi er á því, að mikil þörf er á heimavist við mentaskólann, en engu minni þörf er á henni við kennaraskólann, því allir nemendur þess skóla eru utan af landi, en meiri hluti nemenda mentaskólans er úr Reykjavík. Þess vegna á að haldast í hendur undirbúningur heimavista við þessa tvo skóla. Þessir skólar báðir eru mjög þýðingarmiklar stofnanir. Stefnan er víðast sú, að gera þessum tegundum skóla jafnhátt undir höfði. Hingað til hefir kennaraskólinn verið settur skör lægra hjer á landi en mentaskólinn; t. d. eru laun kennara við hann mikið lægri en laun kennaranna við mentaskólann.

Enginn taki orð mín svo, að jeg sje á móti heimavistum við mentaskólann, en jeg legg áherslu á, að þeim sje líka komið á við kennaraskólann.