03.05.1921
Neðri deild: 61. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í D-deild Alþingistíðinda. (3428)

115. mál, hrossasala innanlands

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Þess var getið í umr. um frv. um hrossasölu til útlanda, að landbúnaðarnefnd ætlaði að bera fram till. um endurbætur á fyrirkomulagi hrossasölunnar innanlands, þar sem henni virtist ýmislegt hafa farið þar öðruvísi en æskilegt hefði verið, einkum að því er til kostnaðarins kemur. En ástæðan til þess, að þetta hefir dregist, er einkum sú, að nefndin gat ekki fyr athugað til fulls reikninga yfir söluna. Jeg vil því, áður en jeg sný mjer að till. nefndarinnar, leyfa mjer að gera þess nokkra grein, hvernig sölunni var hagað í fyrra og kostnaðinum við hana.

Er þá fyrst að geta þess, að til þess að halda markaðina voru ráðnir 6 menn, og þótti mörgum þar talsvert í borið um of, þar sem 1 eða 2 menn hafa oft annað þessu áður. En nú var einn til að mæla, einn til að klippa, einn til að skoða tennur, einn til að gá að járnum o. s. frv. En þetta er bersýnilegur óþarfi og tefur fyrir markaðshaldinu, enda gekk það þá með ógreiðlegasta móti. Og mín persónulega skoðun er sú, að aðalmarkaðshaldarinn sjálfur hefði verið færastur til að gera þetta alt og vel haft tíma til þess með venjulegri aðstoð. En þessi hálfa tylft manna fór nú ekki heldur í loftköstum yfir landið. T. d. skal jeg geta þess, að þeir fóru lausríðandi á 5 dögum frá Reykjavík til Blönduóss, þar sem venja er þó að fara á ekki meira en 3 dögum. Og svona mætti fleiri telja. T. d. voru dagleiðir frá Svignaskarði að Grund, þaðan að Þyrli, þaðan að Möðruvöllum í Kjós, og þó dag um kyrt á Grund og Möðruvöllum. Þó vil jeg taka það fram, að ekki eiga allir sammerkt mál í þessu, því yfirleitt virðist sá hafa farið best með tímann, sem fór um Dalina og Snæfellsnessýsluna; hann var alls 15 daga.

Svo kemur kostnaðurinn. Kaup mannanna var mismunandi. Tveir markaðshaldararnir höfðu 40 kr. á dag og í uppbót 1% af söluverði hrossanna, en þrír höfðu 60 kr. á dag og 5 kr. í fæðispeninga og enga uppbót. Kaupið var því yfir 150 kr. á dag hjá sumum, þeim sem höfðu uppbótina, og má það heita rjett sæmilegt, þegar þess er gætt, hverjar dagleiðir þeir höfðu. Kaup annara starfsmanna var einnig mismunandi, yfirleitt um 25 kr. á dag hjá þeim, sem Eggert Benediktsson rjeð, en þó allmiklu hærra hjá sumum, frá 35 kr. til 45 kr., aðallega þeim, sem voru við þetta norðanlands, hvernig svo sem á því stendur. Yfirleitt má finna það að sumum reikningunum, að ekki sje nægilega skýr grein gerð þar fyrir ýmsum atriðum, og ekki nógu vel sundurliðað um ýms atriði. Þetta kemur ekki síst fram í reikningunum um gistingar, vöktun og slíkt, og eru þeir oft furðulega háir. T. d. voru á einum stað greiddar fyrir vöktun (og sennilega einnig markaðshald ?) í 3 eða 31/2 sólarhring 1263 kr. Á öðrum stað voru greiddar fyrir næturgistingu með stóð (þess ekki getið hve fjölment) á suðurleið 450 kr. um nóttina, og þó komst það á einum stað upp í 750 kr., með einhverri frekari vöktun og haga.

Skal jeg svo drepa stuttlega á helstu kostnaðarliðina í heild sinni.

Markaðshald og rekstur kostaði kr. 78107, hagi, þ. e. geymsla hjer syðra, og rekstur til skips 29046 kr. 65 aura, framskipun 12297 kr., skrifstofukostnaður 9106 kr., umboðslaun 11935 kr., og ýmislegur kostnaður 1134 kr. Kostnaðurinn við þessi 3436 hross, sem seld voru, varð því alls um 120 þús. kr., eða um 10% af hrossaverðinu, eða vel það, þar sem meðalverðið var 330 kr., og kostnaður varð því um 35 kr. á hross.

Þegar litið er yfir þetta, er ekki nema eðlilegt, að sú spurning vakni, hvort kostnaðurinn sje ekki orðinn óþarflega mikill og hvort eða hvernig megi úr honum draga. Og það var einmitt þetta, sem rannsóknir nefndarinnar beindust að, og skal jeg nú gera þeirra örstutta grein.

Aðalbreytingin er fólgin í því, að till. gerir ráð fyrir því, að hrossasöluhjeruðin annist sjálf þær framkvæmdir innanlands, sem að sölunni lúta. En sparnaðurinn við það yrði allmikill. T. d. mætti sjálfsagt spara 3 menn við markaðshaldið, og mundu þar koma fullar 7 þús. kr. Annað atriði, sem reyndar hefir víst að ýmsu leyti leitt af óvissum skipagöngum, er kostnaður við haga og vöktun syðra, um 29 þús. kr. Þennan lið telur nefndin að spara megi að mestu eða öllu leyti, með því að láta alls ekki geyma hrossin neitt hjer syðra, en haga rekstrunum hentugar. Þetta hefir einnig mikið gildi að öðru leyti, af því að hagagangan hjer syðra hefir verið svo lítil og ljeleg, að hrossunum hefir hríðhrakað hjer, og er oft ömurlegt að sjá hvernig þau eru útleikin, og getur það spilt markaðinum og farið illa með skepnurnar.

Jeg skal nú ekki segja, nema það væri til of mikils mælst, að spara mætti þetta alt, en mjög mikið af því má áreiðanlega spara. Sama er að segja um skrifstofukostnaðinn. Þó að hann geti sennilega ekki horfið allur, má vafalaust lækka hann um helming.

Svo er þóknunin til nefndarinnar, sem reyndar er ekki unt að gera sjer fulla grein fyrir af reikningnum, en má áætla um 8 þús. Á liðunum um kaup, rekstur, haga og gæslu virðist því ekki langt gengið að áætla 10% sparnað. Svo má vafalaust spara að minsta kosti helming, eða um 5 þús. kr., af vöxtum af peningum, sem nú er venjulegt að flytja með sjer til að greiða andvirði keyptra hrossa. Þegar þetta er því alt dregið saman, sjest fljótt, að það er ekki lítið, sem spara má á hvert hross, ef skynsamlega er á haldið. Yrði það eftir þessari áætlun á þessa leið:

1. Á mannahaldi við markaðshald ca. kr. 7000

2. Á geymslu hrossanna hjer syðra ca. — 27000

3. Á skrifstofukostnaði ca. ........... — 5000

4. Á þóknun til nefndarinnar ca. — 8000

5. Á vöxtum af peningumca. — 5000

6. Á kaupi rekstrarmanna,

haga og ýmsri aðstoð ca. — 7000

eða samtals ca. kr. 59000

Vel má vera, að tölur þessar sjeu settar fullháar, og þeim er aðeins slegið fram til athugunar fyrir hæstv. stjórn. En það vænti jeg að engum dyljist, að hjer sje mjög hægt að spara frá því sem nú er.

Jeg býst nú við, að þessir hrossasölureikningar hafi gengið á milli allra þeirra nefnda, sem um slík mál fjalla, og þess vegna megi treysta þeim. Þó vildi jeg leyfa mjer að minnast á eitt atriði í þessu sambandi, og er það atvik, sem nýlega hefir komið fyrir uppi í Borgarfirði.

Þar fanst fyrir skömmu hross niðri í, og voru menn fengnir til þess að draga það upp úr tókst þeim að bjarga hrossinu lifandi. Þegar svo farið var að spyrja um eiganda þessa hross, kom það upp úr dúrnum, að landssjóður ætti það. Þetta væri hryssa, sem skilin hefði verið eftir þar efra sumarið 1919, og að nú fylgdi henni tryppi á öðru ári. Menn þeir, sem sögðu mjer sögu þessa, kváðust hafa farið til hrossasölunefndarinnar og spurst þar fyrir um, hvort nokkur innstæðureikningur hefði fylgt frá þeirri nefnd, er þá hafði söluna með höndum, og sömuleiðis höfðu þeir farið til þeirra manna, sem helst var trúandi til að vita um þetta, en það fór alt á sömu leið; hvorki nefndin nje hinir einstöku menn gátu neitt upplýst í máli þessu.

En hvernig sem annars liggur í þessu, þá virðist þó, að ríkissjóður eða þá útflutningsnefndin eigi þarna tvö hross.

Jeg skal ekkert um það segja, hvort líkur sjeu til, að þetta hafi átt sjer víðar stað, en mjer finst full ástæða til, að mál þetta sje ekki látið liggja í þagnargildi, heldur verði reynt að upplýsa það eins og föng eru á.

Jeg geri ráð fyrir því, hvað þetta tilfelli snertir, að hryssan hafi verið fylfull, og þess vegna verið komið í geymslu þarna, en þá kem jeg að öðru atriði, sem mjer finst full ástæða að minnast á. Og það eru markaðshaldararnir, þessir hestavitringar, sem gefa sig út fyrir afarkaup og þykjast öllum fróðari í þessum sökum. Mjer finst það ófyrirgefanlegt af þeim að kaupa fylfullar merar, og þó að jeg hafi ekki fleiri dæmi á hraðbergi lík þessu, eða að hryssur, sem þeir hafa keypt, hafi kastað áður en þær komust á útflutningsstaðinn, þá er hitt þó kunnugt, að á leiðinni yfir hafið út til Hafnar köstuðu 8 hryssur síðastliðið sumar. Að markaðshaldararnir, trúnaðarmenn ríkisstjórnarinnar í þessum efnum, geri sig seka í því að kaupa slík hross, það verður aldrei rjettlætt.

Þá ætla jeg að leyfa mjer að fara nokkrum orðum um einstaka liði þessarar þingsályktunartillögu, því jeg þykist hafa sýnt fram á það í þessum inngangi, að það sje síst að ástæðulausu, að landbúnaðarnefnd hefir fallist á, að breyta þurfi fyrirkomulagi hrossasölunnar frá því, sem verið hefir.

Fyrsti liðurinn byggist á því, að nefndinni hefir fundist eðlilegast, að hrossahjeruðin sjálf hefðu fjelagsskap um hrossasöluna, þann veg, að hrossasölufjelögin nái yfir öll hrossahjeruð, en hefðu svo umboðsmann í hverri sveit, og taki fullkomlega tillit til þess, hvað best á við, ekki einungis í hverri sýslu, heldur hverri einstakri sveit. Starf þessara fjelaga er mikið, því eins og gengið hefir að undanförnu, þá hefir undirbúningur hrossasölunnar verið mjög ófullkominn. Þegar spurst var fyrir um, hve margra hrossa mátti vænta úr hverri einstakri sveit, þá lenti það í handaskolum, og endanleg loforð um ákveðinn hrossafjölda fengust ekki fyr en eftir langa mæðu. Ef þessi hrossasölufjelög kæmust á, með umboðsmanni í hverri sveit, myndi úr þessu bætt. Umboðsmennirnir ættu, hver í sinni sveit, að vita, hve margra hrossa mætti vænta, og þeim ætti líka að vera kunnugt um, í hvaða ástandi hrossin væru. Og það er ekki aðeins nauðsynlegt, að hrossasölufjelögin viti um ástand hrossanna, heldur ættu þau líka að beita sjer fyrir betri meðferð þeirra, enda hafa hrossin, því miður, ekki altaf verið í eins góðu standi til útflutnings og vera ætti.

Þarna er því ærið starf fyrir hrossasölufjelögin, að sjá um betra uppeldi á útflutningshrossum. Og spá mín er, að slíkur fjelagsskapur gæti ýtt undir það, að menn alment færu betur að sinna hrossarækt og hugsa meira um kynbætur heldur en verið hefir. Því eftir því, sem hrossin batna og stækka og útlit þeirra verður betra, má búast við hærra verði.

Þá kemur annar liðurinn. Nefndin hefir fallist á það að ganga ekki lengra en að leyfa stjórninni aðeins að ráða markaðshaldarann. Er þó nefndin með þessu ekki að vantreysta stjórninni, en svo gæti farið, að samkomulag fengist um þetta atriði og fjelögin sjálf fengju einnig að ráða markaðshaldarann. En á meðan stjórnin hefir einkasöluna á hendi, þykir hlýða að hún ráði aðalmarkaðshaldara, en hrossasölufjelögin sjái um aðstoð við markaðshald, ráði kaupi rekstrarmanna og fjölda þeirra, útvegi haga og annist að öllu leyti rekstur hrossanna frá markaðsstaðnum og þangað, sem þeim verður skipað út.

Þriðji liðurinn gerir ráð fyrir því, að þar, sem ekki eru hrossasölufjelög, taki sýslunefndirnar að sjer framkvæmdir þessa máls. Það má nú vera, að naumur tími sje til að koma þessu í kring þegar á þessu voru. Þó held jeg, að það megi takast, að meira eða minna leyti, enda býst jeg við, ef stjórnin fyrirskipaði sýslumönnum þetta þegar í stað, að sýslunefndirnar myndu taka þetta að sjer.

Þá er það fjórði liðurinn. Hjer er um mikinn sparnað að ræða á rekstri hrossanna, vöktun þeirra og fleira, sem hlýtur að sparast við það, að þurfa ekki að reka þau alla leið úr Norðurlandi og hingað suður. Þessi staður, Borðeyri, er ugglaus útskipunarstaður. Það er auðvitað fundið að Borðeyri, að þar sje ekki bryggja og aðeins smáir bátar, en kunnugir hafa sagt mjer, að úr þessu mætti bæta með því að fá stærri báta, og myndi þá hrossaútskipunin takast vel.

Það, sem sjerstaklega þarf að stefna að í þessu hrossasölumáli, er það, að hrossin missi sem allra minst, áður en þau eru flutt um borð í skipin. Þess vegna verður að fjölga útskipunarstöðunum, svo þessi langi rekstur á hrossunum hverfi úr sögunni. Á þetta leggjum við Norðlendingar aðaláhersluna, því við þykjumst fara nærri um það, að betur myndi um hross okkar fara, ef þeim væri skipað út í Norðurlandi; og Borðeyri er sá staðurinn, sem bæði Skagfirðingar og Húnvetningar gera sig ánægða með.

Það kom fram í umr. um hrossaeinkasölufrv. hjer á dögunum, þegar rætt var um, að skjóta málinu til sýslunefnda og leita umsagna þeirra, að búast mætti við, að sýslurnar settu skilyrði um framkvæmdirnar. (Atvrh. P. J.: Að því leyti, sem hægt er). Já, vitanlega. Og eitt af þeim skilyrðum er þá þetta um fjölgun útskipunarstaðanna, og því er sjerstaklega stefnt til stjórnarinnar í sambandi við þann skipakost, sem hún hefir sjálf yfir að ráða, landssjóðsskipin, að hún muni geta bætt úr þessu.

Þá er það fimti liðurinn og líklega sá liðurinn, sem mest verður um deilt. Með ákvæði þessu mælir það, að með því fyrirkomulagi, sem verið hefir, tapast miklir vextir, áhætta fyrir markaðshaldarana að ferðast með þessa miklu fúlgu af peningum og alt of dýrt að senda slíkar upphæðir með pósti.

Á móti þessu mælir það, að flestir þurfa á peningunum að halda strax. Þó býst jeg við, að sumir þeir, sem selja mörg hross, geti tekið mikið af verði þeirra í bankaávísunum, því flestir þeir hinir sömu hafa kaupafólk hjer að sunnan, sem borga mætti með ávísunum þessum, er útborgaðar væru svo, þegar fólkið kæmi hingað suður. Einnig gæti komið til mála, að sýslumenn gætu bjargað þessari útborgun að einhverju leyti, ef fyrir þá væri lagt að senda ekki greiðslur sínar hingað suður, heldur greiða hrossaverðið að því leyti sem fjársjóðir þeirra hrökkva.

En hvað sem því annars líður, ætla jeg, að þessu mætti kippa svo í lag, að vextirnir ættu að geta sparast að minsta kosti um helming frá því, sem verið hefir.

Það þýðir víst ekki að fjölyrða frekar um till. þessa. Hún er á fullri sanngirni bygð, og vænti jeg því, að hæstv. stjórn taki hana til rækilegrar athugunar og sjái sjer fært að framkvæma hana.

Jeg skal taka það fram, að till. er ekki fram borin til þess að áfella hæstv. stjórn nje ásaka hana fyrir, hvernig tekist hefir til með hrossasöluna undanfarið. Það ætlast enginn til, að stjórnin hefði á hvað tíma sem var getað fylgst með framkvæmdum þessa máls. Það er öllum kunnugt, að stjórnin hefir haft í svo mörg horn að líta þessi ár, að hún þess vegna hefir orðið að treysta þeim trúnaðarmönnum sínum, er hún sjálf fól allan veg og vanda af málinu. Það vill líka altaf brenna við, að þegar einhverju er stjórnað hjeðan úr Reykjavík, verður það dýrara og stundum lakara í framkvæmdunum heldur en ef valdir væru kunnugir menn á staðnum. Og þeir menn, sem þarna eiga að vinna að, eru mennirnir, sem gera það í sjálfs sín hag; þeirra aðstaða er betri, þeir hafa þekkinguna á öllum staðháttum og vita hvað best gegnir.

Og þó að því ræki, að stjórnin t. d. í sumar yrði að hafa allar þessar framkvæmdir með höndum, vegna þess, að tími ynnist ekki til að stofna þessi hrossasölufjelög, þá vona jeg samt, að hæstv. stjórn taki till. þessa til greina og reyni af fremsta megni að sporna við því, að slíkur kostnaður verði við sölu hrossanna og jeg hefi bent á.