26.02.1921
Neðri deild: 9. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í D-deild Alþingistíðinda. (3598)

52. mál, nefnd til að ransaka orsakir fjárkreppu bankanna m. m.

Flm. (Einar Þorgilsson):

Þessi till. er ekki nýmæli hjer í deildinni, því að hún hefir verið hjer á dagskrá undanfarna daga, og jeg hygg, að hv. þdm. greini eigi á um efni hennar. Það, sem deilunum olli, er hvort till. eigi að vera 2 eða aðeins 1, sem felur svo í sjer efni till. á þskj. 51, um viðskiftahömlur og fjárkreppu ríkisins, og till. á þskj. 53, sem hjer er til umr. Vil jeg nú sem flm. till. á þskj. 53 gera stutta grein fyrir afstöðu minni til málsins.

Það hefir verið tekið fram hjer, að við stæðum á takmörkum stríðs og friðar, og að tímarnir væru viðsjárverðir, bæði fyrir einstaklingana og ríkið, hvað fjárhagslega afkomu þeirra snerti.

Jeg lít nú svo á, að þó að mörg mikilsverð mál liggi fyrir þessu þingi, þá sje þó þetta ef til vill mál málanna.

Á ófriðarárunum var oft kvartað yfir ýmsu, en ástæðulítið mörgum sinnum, því þá leið einstaklingum og þjóðinni ekki svo illa, að ástæða væri til að kvarta. Margir söfnuðu þá fje á þeim árum, en nú eru tímarnir breyttir. Þjóðarbúið hefir á síðustu missirum tapað tugum miljóna króna og fjöldi einstaklinga stendur höllum fæti efnalega. Það er því eigi vanþörf að athuga, hvort hægt sje úr að bæta.

Háværar raddir hafa kveðið við í blöðunum um það, að fjárkreppan stafaði af eftirlitsskorti stjórnarinnar og mistökum bankanna. Jeg skal ekki leggja neinn dóm á þetta, en meðfram vegna þessa berum við flm. till. fram, svo að hið sanna fái komið í ljós, og ef unt væri að bæta úr ástandinu.

Finn jeg svo eigi ástæðu til að fjölyrða meira um till., veit enda, að hún nær fram að ganga, því nauðsyn þess er svo ljós. Ástæðumar eru svo þröngar og útlitið svo ískyggilegt, að Alþingi verður að hafa hönd í bagga með, ef ske kynni, að það fengi einhverju um þokað. Veit að vísu, að hætt er við því, að ein þingnefnd fái ekki miklu áorkað, en má þó eigi láta óreynt, ef gagn kynni að að verða. Mælist til, að till. nái fram að ganga og 5 manna nefnd verði kosin.