06.05.1921
Neðri deild: 63. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í D-deild Alþingistíðinda. (3606)

131. mál, skorun á stjórnina að leita umsagnar Alþingis um það hvort hún njóti trausts þess

Jakob Möller:

Jeg skil það reyndar vel, að hæstv. forsrh. (J. M.) sje illa við hvítasunnuandlitin. Hitt skil jeg síður, hvað hann er orðinn fádæma skilningssljór. Jeg var ekki að átelja það beinlínis, þó að hæstv. stjórn hefði ekki gert þessar atkvgr. sjálfar, sem jeg nefndi, að fráfararsök. Hitt sagði jeg, að eftir því, hvernig þær fóru, hefði stjórnin á eftir átt að ganga eftir því, að úr því yrði skorið skýrt og skorinort, hvert fylgi hún hefði. Hún átti að heimta hreinar línur.

Það, sem hæstv. forsrh. (J. M.) sagði um starf eða starfsleysi peningamálanefndarinnar, kom mjer líka dálítið einkennilega fyrir sjónir, því jeg hjelt, að einmitt hann hefði orðið tilfinnanlega var við það, að hún hefir starfað. Að minsta kosti hefir honum ekki orðið svo greitt um svör við öllum þeim spurningum, sem hún hefir lagt fyrir hann. Svo ógreitt hefir honum orðið um þau, að mig undraðu ekkert orð hv. flm. (E. E.), að afstaða stjórnarinnar til peningamálanna hefði haft spillandi áhrif á þingið. Held jeg því einnig fram, að svo sje, og álít; að hv. deild verði að gera sjer það ljóst, enda er það öllum vitanlegt, að stjórnin hefir beinlínis gefið rangar og villandi skýrslur um ýms mál. Þess vegna get jeg ekki heldur talið það of djúpt tekið í árinni að segja, að siðferði þingsins sje hætta búin af slíkri stjórn.

Að því er kemur til meðferðar þingsins á málum þeim, sem stjórnin lagði fyrir það, þá er þess að gæta, að þau mál eru flest fram borin samkvæmt fyrirmælum fyrri þinga. Því fer t. d. fjarri, að stjórnin hafi tekið það upp hjá sjálfri sjer að „endurskoða“ skattalögin, heldur eru skattafrv. þau, sem stjórnin lagði fyrir þetta þing, fram borin eftir margítrekaða skipun þingsins. En þar við bætist, að eins og nú er ástatt, þá er þingið til neytt að samþ. svo að segja hvaða tekjuaukafrv., sem fyrir það er lagt. — Að öðru leyti er það um afstöðu þingsins til mála stjórnarinnar að segja, að stjórnin hefir þar oft farið halloka og sjest það best með því að bera saman afstöðu stjórnarinnar til sömu málanna fyr og síðar. Og það haggar þessu ekkert, þó að stjórnin sje altaf í það búin að kúvenda, þegar hún sjer sitt óvænna.