19.05.1921
Sameinað þing: 3. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í D-deild Alþingistíðinda. (3626)

143. mál, fjármálanefnd

Stefán Stefánsson:

Þó að jeg sje einn af meðflutningsmönnum till. á þskj. 623, þá er ekki þar með sagt, að jeg sje eða hafi verið alls kostar ánægður með orðalagið og jafnvel einstakt ákvæði í till., enda viðurkendi hv. aðalflm. (E. Á.), að orðalagið væri ekki sem heppilegast. Jeg hefi því leyft mjer að taka upp þau meginatriði till., sem jeg geng út frá, að hv. flutningsmenn telji kjarna málsins, með brtt. á þskj. 652. Jeg lít svo á, að aðaláhugamál flutningsmannanna sje, að kosnir sjeu þrír menn í nefnd til að gera till. um skipulag bankamálanna, og leggja þær fyrir næsta þing. Það virðist vera augljóst, að sjálfsagt sje að skipa nefnd, því að mál þetta er svo margbrotið og enda flókið, að jeg álít, að það sje ekki við þingsins hæfi að ráða fram úr því án sjerstakrar aðstoðar. Það þarf því að leita ráða hinna fróðustu manna til þessa starfa. Með því væri nokkum veginn fengin trygging fyrir því, að málið yrði til lykta leitt betur en við annars eigum tök á.

Þingið hefir verið að vinna að því næstum allan þingtímann að finna leið til að koma bankamálunum í viðunandi horf, í eitt eða tvö ár. Það er ekki hægt að segja, að þingið hafi neinn vissan mann, er hægt sje að snúa sjer til að þessu leyti, sem hægt sje að treysta svo, að vissa sje fengin fyrir því, að vel fari. Jeg tek því undir með hv. flm. (E. Á.), að bestu og hæfustu menn landsins sjeu kvaddir til þess að athuga þetta vandamál á milli þinga og leggi fram tillögur sínar fyrir næsta þing, og væri þá hægt að ganga út frá, að með því væri besta lausn málsins fengin. í þessa átt virðist mjer verða að stefna.

Þá er annar liður brtt. minnar á þskj. 652 um, að „nefndin skal enn fremur vera í ráðum með stjórninni um meðferð væntanlegs ríkissjóðsláns, ef til kemur“. þessi liður er næsta mikilvægur, og er hann gerður til þess, að ef til þess kemur, að ríkið tekur lán, þá geti stjórnin haft þessa þrjá menn, sem hafa lagt sig í bleyti til að ráða fram úr þessum málum, með í ráðum um meðferð þess fjár. Sjálfa lántökuna virðist mjer aftur ekki veruleg ástæða, að nefndin hafi með að gera, enda býst jeg við, að lánið verði ekki eins stórt, eftir því að dæma, sem komið hefir fram nú á síðustu dögum, eins og búist var við.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta mál, en mín sannfæring er það, að till. mínar nægi til þess að fá undirbúið málið undir næsta þing, og vil jeg því jafnframt taka það fram, að ef hv. þm. vilja ekki samþykkja brtt. mínar, þá finn jeg mig knúðan til að greiða atkv. á móti aðaltill.