09.05.1921
Neðri deild: 65. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í D-deild Alþingistíðinda. (3672)

48. mál, sambandslögin

Forsætisráðherra (J. M.):

Hv. þm. Dala. (B. J.) talar oft á annan veg en hann veit rjettastan. Hann sagðist vera hissa á mjer. Hvernig getur hv. þm. (B. J.) sagt þetta? Jeg sagði í fyrra, að jeg sæi ekki ástæðu til að taka þetta mál upp. Jeg hefi stundum orðið var við velvild þessa hv. þm. (B. J.). Hann sagði meðal annars, að við hefðum gert margt misjafnt um dagana. Jeg býst við, að eitthvað líkt mætti segja um hann, en jeg er ekki vanur að fara út í þesskonar reikninga. Ef hv. þm. (B. J.) óskar, er velkomið, að jeg leysi frá pokanum.

Hv. þm. (B. J.) segir niðurstöðuna hjá sjer, að við sýnum, að við sjeum fullvalda ríki. Jeg veit vel, að hv. þm. (B. J.) vildi helst hafa sendiherra í hverri borg, álítur, að það mundi margborga sig.