19.03.1921
Neðri deild: 27. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í D-deild Alþingistíðinda. (3825)

87. mál, vantraust á núverandi stjórn

Jakob Möller:

Úr því sumir hv. þm. hafa leyft sjer, og talið það rjett, að ganga að fundabók þingsins og pára þar hvað sem þeim dettur í hug, þá vona jeg, að þeir sömu hv. þm. taki mjer það ekki illa upp, þótt jeg hafi nú neytt þessa sama rjettar, og strikað yfir pár þessara herra í fundarbókinni. Það voru hvort sem er ómerk orð, þýðingarlaus og málinu óviðkomandi, því að þau snertu alls ekki bókunina, hvort hún væri rjett eða röng. Hæstv. fjrh. (M. G.) lýsti að vísu yfir því, að þetta væri athugasemd við bókun, en það er algerlega rangt. Bókunin er ekkert annað en skýrsla um það, sem fram fer á þingfundum, og jeg fæ ekki skilið, að nokkur hv. deildarmaður geti bent á það með rökum, að í fundarbókinni sje rangt skýrt frá atburðum.