19.03.1921
Neðri deild: 27. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í D-deild Alþingistíðinda. (3831)

87. mál, vantraust á núverandi stjórn

Magnús Kristjánsson:

Jeg vil aðeins beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forseta, á hvern hátt mjer og öðrum þm., sem telja, að forseti hafi felt rangan úrskurð um dagskrá hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.), á hvern hátt þeir eigi að rjettu lagi að koma fram með mótmælin.

Jeg tel bókunina og úrskurðinn þannig úr garði gert, að það megi ekki standa ómótmælt, og þess vegna er athugasemdin í alla staði rjettmæt. Hjer hefir enginn valdið hneykslum, nema hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.). Hefir hann ekki gert með því annað en það, að staðfesta enn betur það álit, sem jeg hefi altaf haft á honum. En aðferð hans í þessu máli álít jeg stærsta hneykslið, sem dæmi eru til í þingsögunni. Og er það honum sæmandi.

Jeg krefst þess, að hæstv. forseti láti bóka á ný þessa athugasemd okkar og leyfi okkur að undirrita hana. í henni liggur yfirlýsing um skilning okkar á þessu máli. Og jeg tel það í alla staði rjett og sanngjarnt, að hann komi fram.