12.05.1921
Neðri deild: 68. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í D-deild Alþingistíðinda. (3868)

125. mál, eignarumráð ríkisins yfir vatnsréttindum í Soginu

Bjarni Jónsson:

Jeg skil ekki, hvað þessi till. á að þýða, þegar áður er komin till., sem veitir stjórninni sama rjett. Jeg skil ekki heldur, að hæstv. stjórn nái þessum rjetti, þegar viðurkent er, að enginn eignarrjettur er á vatnsorku í landinu. Ríkið getur farið með þetta mál eins og því sýnist, með lagaákvæðum.

Sem stendur er vatn einskis manns eign. En þótt það væri ekki viðurkent, þá er þetta vatnsfall í þeirra höndum, sem engin ástæða er til að krefja það af. Að minsta kosti ekki Reykjavík. Reykjavík yrði eflaust stærsti notandinn, og væri þá hálfkynlegt að kaupa af Reykjavík og selja svo Reykjavík aftur. Enginn lætur sjer detta annað í hug en að Reykjavík verði meðeigandi í fyrirtækinu.

Þá er eigandi Úlfljótsvatns. Hann hefir ekki bundið sig neitt gagnvart fossafjelaginu Íslandi, nema það fengi leyfi til virkjunar, og það leyfi þarf ríkið ekki að veita. Þá eru ekki aðrar kröfur, nema einn áttundi í fossum, sem eru neðar.

Ef nú efri hlutinn yrði tekinn til virkjunar fyrir nálægar sveitir, Reykjavík og þorpin umhverfis Faxaflóa, þá er ekki um neitt fossafjelag að ræða.

Það leiðir því af sjálfu sjer, að ef ríkið ákveður orkuver, þá verða rjettindi þessi tekin samkvæmt reglum, sem þar um gilda.

Tillagan er því algerlega óþörf. Tilætlunin einungis sú, að fá hv. þm. til að láta í ljós með atkv. sínum, að þeir álíti, að eignarrjettur sje á vatni.

Umr. frestað.

Till. var ekki á dagskrá tekin framar og varð

ekki útrædd.