09.03.1921
Neðri deild: 18. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í D-deild Alþingistíðinda. (3882)

62. mál, framkvæmdir í landhelgisgæslumálinu

Magnús Jónsson:

Mjer finst það í sjálfu sjer engin furða, að þessi fyrirspurn kom hjer fram, og mjer þykir vænt um að heyra það frá hæstv. forsrh. (J. M.), að málið kunni að koma hjer seinna inn á þingið, og þá ekki sem fyrirspurn, heldur á annan hátt, þannig, að um það megi ákvarðanir taka.

Þegar frjettin um sambandssamninginn við Dani barst út um landið, tóku margir þeirri fregn með miklum fögnuði. Og það voru ekki eingöngu stærstu atriði sambandssamningsins, sem fengu mönnum fagnaðar víðs vegar um landið, heldur einnig, og ekki síður, sum hinna smærri atriða. Vil jeg í því sambandi sjerstaklega nefna tvö atriði:

1. Að Íslendingum var heimilað að flytja æðsta dómsvaldið inn í landið, og 2. að Íslendingum var heimilt að taka landhelgisgæsluna í sínar hendur, er þeir óskuðu þess, að nokkru eða öllu leyti, samkvæmt ákvæðum í 8. gr.

Og þó að sjálfsagt flestir hafi haft skilning á gildi þess að hafa sjálfir æðsta dómsvald í málum sínum, þá hygg jeg þó, að þeir hafi verið talsvert fleiri, sem hafa sjeð nauðsyn þess, að ákvæðum 8. gr., eða strandgæsluheimildinni Íslendingum til handa, yrði beitt, og það fljótlega.

Yfirleitt munu flestir hafa litið svo á, að þetta ákvæði væri sama sem bein áskorun um að hefjast handa í þessum efnum, enda þótt orðalag sambandslaganna hljóti eðlilega að vera þannig, að þar sje vægt á öllu tekið.

Nú hefir fyrra atriðinu, sem jeg drap á, verið kipt í lag. Hæstirjettur er fluttur inn í landið. Er það vel, að landsstjórnin hefir ekki spyrnt á móti þeim broddum. Um hitt atriðið, strandgæsluna, er aftur öðru máli að gegna. Það mál, sem þó er miklu stærra og alþjóð ljósara, liggur enn þá ókarað í höndum landsstjórnarinnar, jeg segi í höndum landsstjórnarinnar, því þjóðin hefir áreiðanlega gert hjer upp huga sinn, og Alþingi hefir einnig tekið hjer af skarið og lýst sínum vilja í þessu máli. Alþingi 1919 samdi lög um landhelgisgæslu. Að vísu var illu heilli smeygt inn í þessi lög, hjer í þessari hv. deild, því ákvæði, sem nú hefir reynst fleygur, að hjer skyldi aðeins vera um heimild að ræða fyrir landsstjórnina, í stað þess, að í upphafi var ætlast til þess, að hjer væri ótvírætt boð Alþingis. Þá var gert lítið úr þessum mismun, en nú hefir það á daginn komið, að töluverðu skakkaði, þegar málinu var vísað til þeirrar stjórnar, sem slælegan vilja hafði á því að framkvæma vilja þingsins. Það var eins og að stíla fyrirfram afsökun fyrir stjórnina, í stað þess að lofa henni sjálfri að hafa fyrir að finna skálkaskjólið.

Aukaþingið 1920 árjettaði enn þessa málaleitun, eins og til þess að sýna stjórninni, að vilji þess væri óbreyttur. Hæstv. fjrh. (M. G.) hefir að vísu ekki viljað skilja þá þingsályktunartill. þannig, heldur svo, að hjer væri um nýjan vilja þingsins að ræða. En til þess að öllum megi verða það ljóst, að svo er ekki, þá vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa þingsályktunina frá 1920:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að annast um, að á þessu ári verði að minsta kosti tvö skip að staðaldri við landhelgisgæslu hjer við land, og að stjórninni heimilist jafnframt fje til þeirra útgjalda, sem af þessu leiðir.

Enn fremur heimilast stjórninni nauðsynlegt fje til frekari undirbúnings og framkvæmda í landhelgisgæslumálinu“.

Ef nú ekkert væri við að styðjast um skilning þessarar þingsályktunar, þá mætti ef til vill skilja hana svo, að hjer væri aðeins um aukna landhelgisgæslu að ræða, annaðhvort af hálfu Dana eða Íslendinga, eða af hvorratveggja hálfu. En þegar við höfum svo eindreginn vilja þingsins 1919 um það, að Íslendingar taki í sínar hendur strandvarnirnar, þá sýnist ekki vera efamál, að þingsályktunin 1920 sje árjetting á vilja undanfarins þings, og ekki annað. En hvað hefir nú komið upp af þessum tilraunum tveggja þinga?

Hv. þm. Borgf. (P. O.) og hæstv. forsrh. (J. M.) og hæstv. fjrh. (M. G.) hafa nú rakið sögu málsins. Af þeim svörum má sjá, að ýmislegt hefir verið bollalagt, en öllu minna framkvæmt. Og þegar alt er saman lagt, kemur það í ljós, að ekki hefir enn verið framkvæmdur vilji Alþingis 1919, sá, að stjórnin ljeti kaupa eða byggja skip til strandgæslu hjer, eða, ef það reyndist ókleift, þá leigja skip til þess. Stjórnin hefir ekki sýnt annað en frábærlega einlægan vilja á því að fara kringum lögin frá 1919, 1. með því að leggja sem ríkasta áherslu á heimildina, vitandi vel, af sögu málsins þá á þingi, að heimildarákvæðið var ekkert annað en einskonar síðasta þrautalending, ef ómögulegar reyndust framkvæmdirnar; 2. hefir stjórnin aðhylst, eða kann ske fundið upp, þann einstaka skilning á þessum landhelgislögum frá 1919, að í rauninni felist ekkert í þeim annað en ósk um aukið eftirlit með landhelginni. En hjer fer sem oftar, að allmikið er undir því komið, hvernig lesið er. Auðvitað felst í lögunum ósk um auknar strandvarnir, en það er skýrt tekið fram, á hvern hátt Alþingi óskaði, að það yrði gert, sem sje með því, að Íslendingar sjálfir hefðu skip til landhelgisvarna. Þetta er alveg ótvírætt. Og því er það alveg ótrúlegur skarpleiki að finna það út úr þessum lögum, að í rauninni sje þeim eins vel fylgt með því að biðja Dani að auka landhelgisvarnirnar. 3. hefir stjórnin sýnt áhuga sinn í þessu máli með því, hvernig hún hefir brugðist við framtakssemi Vestmannaeyinga, og hve drengilega hún hefir stutt þessa fyrstu viðleitni að verja landhelgina með íslensku gufuskipi. Ef stjórnin hefði verið áfram um strandvarnirnar, þá mundi hún hafa brugðist öðruvísi við þeirri málaleitan. Það getur vel verið, að skip það, sem þar var og er í boði, sje ekki upp á það fullkomnasta til þessa starfs, en jeg hygg þó, að það megi vel við una, þegar litið er á landhelgisvörnina frá rjettu sjónarmiði, sem sje ekki að hremma sem flesta sökudólga, heldur að koma í veg fyrir, að menn gerist sökudólgar, með því að vera sífelt á vakki um veiðisvæðin. Ef slík strandvarnaraðferð er höfð, sem óefað er miklu heppilegri, þá þarf ekki varnarskipið endilega að vera mjög fullkomið. Þá er meira komið undir smið en verkfæri.

4. Fjárhagsörðugleikarnir, sem hæstv. stjórn er stöðugt að vitna í. Og enginn neitar því, að þeir sjeu miklir. Hv. þm. Ak. (M. K.) skaut því fram í ræðu eins hv. þm. í gær: „Hvar á að taka peningana?“ til strandgæslunnar. Jeg vildi nú snúa þessu við og segja: Hvar á að taka peningana í ríkissjóð, ef útvegurinn eyðilegst? Eru það ekki einmitt fjárhagsvandræðin, sem gera það nauðsynlegt að verja landhelgina betur einmitt nú? Jeg vil því segja, að óafsakanlegasta atriðið í þessu öllu sje einmitt fjárhagshliðin.

Miljónum og aftur miljónum hefir verið varið til útgerðar, bæði til skipa og annars. Alt stendur það og fellur með því, að sjórinn sje sem minst skemd náma. Ríkissjóður fær og mest af tekjum sínum frá útveginum, þótt landbúnaðurinn sje auðvitað líka stór atvinnugrein. Stjórnin ætti því að sjá hag landsins í því að vernda sem best gullkistu þessa lands, fisknámuna við strendur þess.

Þetta er alveg sama stefnan eins og því miður hefir komið alt of víða fram hjá núverandi stjórn, að spara útgjöldin, jafnvel þótt sá spámaður marghefni sín. Það er samskonar hagsýni og ef bóndi sparar sjer kostnaðinn við að bera á túnið sitt, en gætir þess ekki, að án áburðar fær hann enga töðu.

Spurningin um kostnaðinn leysist því upp í þetta tvent: Hvort verður landhelgin betur varin af Dönum, eins og verið hefir, eða ef Íslendingar tækju hana í sínar hendur að meira eða minna leyti?

Vörn Dana hefir nú margsýnt sig. Varðskipið hremmir einn og einn togara í landhelgi og siglir síðan með hann til Reykjavíkur. En meðan á þeirri för stendur veiðir fjöldi togara í landhelgi. þeir hafa njósn um varðskipið og vita, að þeim er þá óhætt. Mjer finst það því of mikil þolinmæði af hæstv. fjrh. (M. G.) að vilja nú enn þá einu sinni bera mykju að þessu ófrjósama fíkjutrje. Því aðferð Dana til þess að verja hjer landhelgi hefir margsýnt sig að vera óheppileg og ónóg. Það gagnar svo sáralítið að hremma einn og einn togara, og flestum mun koma saman um nú, að önnur strandgæsluaðferð sje miklu heppilegri. En hún er sú, að varðskipið sje stöðugt á sveimi, svo að togararnir þori aldrei að koma inn í landhelgina. Má hjer enn nota hina ágætu líkingu hv. þin. Borgf. (P. O.) um túnið. Mundi ekki hygginn bóndi heldur verja túnið sitt að heiman heldur en semja við bónda af næsta bæ að reka úr því með hundi, þá fyrst, er það stendur fult af skepnum?

Auk þess má og geta þess, að Danir hafa hjer strandvarnarskipið í alt öðrum tilgangi en til strandvarna. Það er skólaskip. Enn fremur eru á skipi þessu tíð foringjaskifti, og hlýtur þetta, ásamt mörgu fleiru, að verða til þess, að gæslan sje slæm. Enda sýnir og reynslan, að svo er, og þær kvartanir, er borist hafa víðs vegar af landinu, um strandgæsluna.

Að vísu höfum við litla íslenska reynslu. Þó má benda á það, að bátur Vestmannaeyinga kvað hafa gert mjög mikið gagn, að sögn kunnugra manna, og að minsta kosti ætti öllum að geta komið saman um það, að hægt sje að verja landhelgina miklu betur en gert er.

Kostnaðargrýlan er því fjarstæða, nema hægt sje að sanna, að ríkið geti þetta ekki, því ef það á annað borð er mögulegt fyrir ríkið að auka og bæta strandvarnirnar, þá er það tvímælalaust stórgróði.

Hæstv. forsrh. (J. M.) vill láta sitja við það, sem er, vegna þess, hvernig er ástatt. Á hann þá við það, að útvegurinn standi svo vel nú, að ekki sje þörf á að vernda fiskimiðin? En jeg vil segja, að einmitt vegna ástandsins er brýn nauðsyn að hefjast handa strax, hvað sem kostnaðinum líður, því framtíð sjávarútvegsins veltur á því, að strandgæslan sje aukin.

Hæstv. forsrh. (J. M.) sagði í svarræðu sinni í gær, að þingið rjeði náttúrlega, hvað það gerði. Hjer var gripið á kýlinu. Þingið ræður og á að ráða. En hvernig hefir það gengið? Þingið er búið að segja sinn vilja skýrt með landhelgislögunum 1919. Stjórnin hefir ekki farið eftir því, sem hún vissi að var vilji þingsins. Spurningin verður því þessi: Hvor á að ráða? Á Alþingi að halda í vald sitt, að setja landinu lög, og á það að heimta af trúnaðarmönnum sínum, að þeir fari eftir þeim? Eða á það að láta þeim haldast uppi að hundsa vilja þingsins með vífilengjum? þegar Alþingi ákveður að taka landhelgisvarnirnar í sínar hendur, á það þá að leyfa stjórninni að framkvæma það svo, að biðja Dani að auka landhelgisgæsluna?

Það má einnig líta á þetta mál frá öðru sjónarmiði, og nær það þá óraveg út fyrir það, sem næst sýnist liggja, það, hvort landhelgin sje vel eða illa varin. Þetta mál má skoða eins og nokkurskonar spegil sjálfstæðismálsins, og vjer sjáum út úr því hinar tvær hliðar þess máls. Annars vegar metnaðarmálið, að sem skýrast sjáist fyrir öllum heimi, að hjer búi sjálfstæð og fullvalda þjóð, er sjálf hafi sín mál með höndum. Það sýnist nú að vísu vera farið að verða tíska í seinni tíð að ypta öxlum við þessari hlið sjálfstæðisins. En víst er um það, að þessi barátta hefir vakið þjóð vora af alda svefni, og það hefir upp vakið henni ýmsa af hennar ágætustu sonum, meðal annars hann, sem hjer horfir enn af stalli sínum yfir þessa samkomu (Jón Sigurðsson), hvort sem menn nú vilja kalla það pappírssjálfstæði og öðrum lítilsvirðandi nöfnum eða ekki, og hvort sem menn nú kæra sig nokkuð um það eða ekki, að aðrar þjóðir viti um fullveldi vort. En landhelgisgæslan á íslensku skipi eða íslenskum skipum hygg jeg að mundi vera betur til þess fallið en flest annað að færa öðrum þjóðum heim sanninn í þessu efni.

Hin hlið sjálfstæðismálsins, sem hjer kemur til greina, er fjárhagshliðin, efnalega sjálfstæðið. Það sannast, að það stendur eða fellur með því, hvernig oss tekst að varðveita gullnámuna við strendur landsins.

Þetta er ekki lítil hlið, þar sem það er efnalega hliðin, og ef grafið er undan henni, mun hitt gliðna sundur og hrynja. Þær voru báðar teknar fyrir á Alþingi 1919, og hið háa Alþingi skarst þá drengilega í leik. En það verður ekki alveg eins drengilega gert hjá stjórninni. Sjest það ljósast á þeim kvörtunum um yfirgang botnvörpunga, sem víðs vegar berast að, eins og t. d. frá Arnarfirði, þar sem útlendir og ef til vill einhverjir innlendir togarar hafa dregið vörpur sínar upp við netalög og landsteina og sópað burtu því eina, sem er bjargræðisvon manna þar, og einnig mætti telja bjargræðisvon þjóðarinnar, þar sem helst er von, að fiskafurðirnar geti bætt eitthvað úr fjárkreppunni.

Þá er hin hliðin, hvort fara á að vekja upp þann aumingjaskap, sem manni svíður sárast að lesa um í sögu þjóðarinnar á liðnum tímum, þann aumingjaskap, þegar menn höfðu ekki önnur ráð en biðja aðrar þjóðir að hjálpa sjer. Maður getur ekki annað en vorkent þeim, sem þá gerðu það, en hvort það yrði gert nú, hvort það yrði talið sæmandi hinu háa Alþingi að taka upp þá aðferð nú, skal jeg láta ósagt.

Þó að hæstv. fjrh. (M. G.) sje svo hátt settur, að hann geti sagt, að hann fyrirlíti röksemdir manna, þá gæti svo farið, að þegar aðgerðaleysi stjórnarinnar spyrst út, þá rísi annar upp, sem er hærri, þar sem er sjálf þjóðin, og segi: Vjer fyrirlítum þessa aðferð.