10.03.1921
Neðri deild: 19. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í D-deild Alþingistíðinda. (3897)

62. mál, framkvæmdir í landhelgisgæslumálinu

Fyrirspyrjandi (Pjetur Ottesen):

Það eru nú orðnar langar umr. um þetta mál, og er því síst að neita, að ýmislegt hefir slæðst inn í þær, sem alls ekkert kom þessu máli við og átti þar ekki heima. Tel jeg það lítilsvirðingu við þetta nauðsynjamál, hvernig menn hafa snúist við því á ýmsan hátt, blandað inn í það ádeilum á stjórnina fyrir óskyld efni, og verið að leiða ýmsar getur að tilgangi mínum með fyrirspurninni. Hjelt jeg þó, að jeg hefði sýnt það í ræðum mínum fullskýrt, hvað fyrir mjer vakti.

Hæstv. forsrh. (J. M.) hefir reynt, eins og vænta mátti, að verja aðgerðaleysi stjórnarinnar í málinu og sýna þinginu, að stjórnin hafi ekki brugðist skyldu sinni nje sýnt vanrækslu í þessu efni. Mjer kom það upphaflega kynlega fyrir, hvernig hæstv. forsrh. (J. M.) kom fram í máli þessu á þingi 1919. Í Ed. sá hann ekkert því til fyrirstöðu að framkvæma vilja þingsins í þessu efni og hreyfði ekki mótmælum. En þegar málið var til umræðu í Nd., sjer hæstv. forsrh. (J. M.) svo mörg ljón á vegi þessa máls, að mig og fleiri stórfurðaði á, hversu sljóskygn hann virtist vera á þá hættu, sem þessi þátttaka í landhelgisgæslunni af okkar hendi átti að reyna að hamla upp á móti.

En nú, eftir að jeg hefi hlustað á ræður hæstv. forsrh. (J. M.) og svör hans, held jeg, að mjer fari að skiljast betur afstaða hans þá til málsins. Hann hefir sýnilega ætlað með því að koma dálitlum glundroða á málið, sem lítinn árangur bar, að búa sjer vígi, sem hann gæti flúið til og leitað skjóls í, þegar stjórnin yrði krafin reikningsskapar um málið.

Það var rjett, að í Nd. kom fram rökstudd dagskrá, sem sýnilega átti að vera til þess að koma málinu fyrir kattarnef, eða, eins og tíðast er áð orða það, að vísa málinu til stjórnarinnar, og ýmsir telja einskonar „drekkingarhyl“ fyrir málin. Dagskrá þessa flutti þm. S.-Þ. (P. J.), núverandi atvinnumálaráðherra, og varð mjer þá að benda á, að eitthvert leynisamband væri ef til vill milli hans og hæstv. forsrh. (J. M.) um þetta ráðabrugg, enda styrkist jeg betur í því nú, að svo hafi verið. Dagskrá þessi var steindrepin þegar.

Hæstv. forsrh. (J. M.) las upp áðan kafla úr ræðu þm. V.-Ísf. (M. Ó.), sem var framsögumaður sjávarútvegsnefndar, og þótti hann ekki hafa kveðið fast á um málið. Jeg skal nú, með leyfi hæstv. forseta, lesa hjer upp nokkur orð úr ræðu framsögumanns sjávarútvegsnefndar í Ed. (Kristins Daníelssonar). Honum fórust orð á þessa leið:

„Jeg verð að halda mjer fast við það, sem jeg sagði, um að málið þolir enga bið; mjer er bæði af sjón og raun kunnugt um það, og er má ske næmari fyrir málinu fyrir þá sök“. (Alþt. 1919. B„ 1944. d.). Það er einmitt þetta, að við, sem eigum atvinnu okkar að meira og minna leyti undir því, að sjávarútvegurinn leggist ekki í kaldakol, við erum næmari fyrir því, og mjer finst það líklegasta lausnin á aðgerðaleysi stjórnarinnar, að hana hafi brostið skilning á því, hvað í húfi sje. Hæstv. forsrh. (J. M.) vill nú að vísu ekki við þetta kannast, en líklegri tilgáta finst mjer þetta þó, því væri það ekki, en drátturinn aftur á móti sprottinn af tómlæti og skeytingarleysi á því að bæta úr svo bráðri þörf, þá er þetta enn verra en jeg hefi þó enn ætlað.

Að því væri haldið fram þá (1919), að stjórnin ætti eingöngu að láta byggja skip, en kaupa ekki, er rjett, en sá varnagli var þó sleginn, að ef hún gæti ekki látið byggja skip, þá ætti hún að leigja skip í bili. Það voru aðeins tvær leiðir, sem stjórnin gat farið; henni var enginn frestur gefinn í málinu. þess vegna þarf ekki að slá því fram hjer, að stjórnin hafi átt að bíða næsta þings og næsta þings. Nei, hún átti í þessu efni eingöngu að fylgja vilja þings og þjóðar í framkvæmdum þessa máls; hann var svo skýrt markaður, að um hann þurfti ekki að deila og þarf ekki að deila. Þetta vissi stjórnin og veit, þó að hún leitist nú við að koma með undanbrögð í málinu.

Það er hægt að segja nú, að það hefði verið óráð að kaupa skip, sökum verðfalls þess, sem orðið hafi á skipum og svo mikið er talað um, en þó er því aðeins hægt að halda þessu fram, að við höfum ekki beðið meira tjón en sparnaðinum nemur við mismun skipaverðsins. Jeg er viss um, að tapið hefir numið margfalt meiru, eins og jeg sýndi fram á í gær, er jeg taldi upp afleiðingar þær, sem nú eru farnar að sýna sig og enginn hefir hrakið enn.

Að vísu benti hæstv. fjrh. (M. G.) á það, að aukinn trollaraútvegur og mótorbáta hefði breytt þessu að nokkrum mun, en við höfum nóga menn á opnu bátana þrátt fyrir það; og í þessu lýsir sjer skammsýni hjá hæstv. fjrh. (M. G.), því landhelgisgæslan er ekki einasta til að vernda fiskveiðamar í dag og á morgun, heldur, og ekki síst, fyrir framtíðina, vernda viðkomu fiskjarins, ungviðið, sem mikið heldur sig innan landhelginnar.

Og hvernig er hann svo kominn, þessi trollaraútvegur?

Hæstv. forsrh. (J. M.) mintist á aðgerðir þingsins í þessu máli 1920. Þótti honum svo, sem þar hefði komið fram lítill áhugi á málinu, þar sem ekki hefðu nema tveir menn tekið til máls, framsögumenn sjávarútvegsnefnda í báðum deildum. En jeg get sagt hæstv. forsrh. (J. M.) það, að á því þingi var eindreginn áhugi á strandgæslumálinu, sem best lýsir sjer í því, að enginn hreyfði andmælum; menn gerðu orð framsögumanna að sínum orðum og tillögur nefndanna að sínum tillögum.

Hæstv. forsrh. (J. M.) las upp kafla úr ræðu þeirri, sem jeg hjelt í þessu máli á þinginu í fyrra, þar sem jeg sagði, að þingsályktunartill. ætti ekki hvað síst að vera til þess að leggja áherslu á það við stjórnina að leita fyrir sjer um kaup á skipi, hentugu til strandvarna. En til hvers átti stjórnin að leita fyrir sjer? Auðvitað til þess að kaupa skip. Þarf ekki annað en líta á þetta í sambandi við það, sem á undan var gengið í málinu, til að sjá, ef þetta þykir ekki nógu ljóst, að þetta var meiningin, þótt ef til vill sje hægt fyrir þaulæfðan procurator að hártoga þetta, með því að slíta þessi orð út úr rjettu sambandi. En það vissi hæstv. forsrh. (J. M.) fullvel, að svo bar að skilja þessi ummæli, sem jeg hefi sagt, þótt hann nú grípi til þess örþrifaráðs að reyna að vefengja þau.

Mjer þótti það nokkuð undarlegt, sem hv. þm. Ísaf. (J. A. J.) lagði til þessara strandgæslumála. Hann taldi það rjett af stjórninni að hafa slegið málinu á frest, en áleit þó, að af þessu aðgerðaleysi stjórnarinnar hefðu sjómenn við Aðalvík beðið tjón svo tugum eða hundruðum þúsunda króna skifti.

Jeg sýndi fram á það í gær, að þótt ekki væri keypt nema eitt skip, þá væri það mjög mikil bót. Jeg sýndi einnig fram á það, að strandgæsla Dana hjer væri ónóg, og væri það sumpart að kenna því, að oft væru foringjaskifti á þeim skipum, og einnig að strandgæslunni væri illa stjórnað. Við Íslendingar þurfum sjálfir að taka forustuna í okkar hendur á þann hátt að hafa eitt skip, gott og hraðskreitt, sem væri stjórnað af duglegum, áhugasömum og vönum sjómönnum, að þetta skip starfaði með og í fjelagi við dönsku varðskipin, hefði þar á hendi forustuna og slægi ekki slöku við.

Jeg sný ekki aftur með það, að það er hvorttveggja, að stjórnin hefir vanrækt að framkvæma skýlausan vilja þingsins og einnig skýlausan vilja þjóðarinnar, og af þessari vanrækslu hefir hlotist það tjón, sem ekki verður tölum talið.

Þá mintist hæstv. forsrh. (J. M.) á það, að það væri miður sæmilegt af mjer að vitna í orð Jóhannesar Jóhannessonar í fundargerð ráðgjafarnefndarinnar. (Forsrh. J. M.: Jeg sagði það ekki). Þóttist hann ekki skilja, að jeg gæti neitt að þeim fundið. Þessi umræddi nefndarmaður viðhefir þau ummæli, að ekki beri að leggja annan skilning í lögin frá 1919 en að eftirlitið væri ófullnægjandi. Mjer þykir þetta satt að segja undarlegur skilningur á lögunum og þeirri hugsun, sem lá til grundvallar fyrir þeim. Og því undarlegra er þetta, þar sem þessi sami hv. þm. er þá búinn að samþykkja frv., sem skipar stjórninni að kaupa, leigja eða byggja skip til strandvarna. Því skipuninni var ekki kipt burtu úr frv. fyr en í hv. Nd.; þó var þetta í rauninni engu síður skipun til stjórnarinnar, þótt því væri í burtu kipt, og það vissi stjórnin.

Jeg þarf ekki að endurtaka það, að rökfærsla stjórnarinnar um kostnaðinn, er aukin strandgæsla hefði í för með sjer, eru gagnslaus rök. Stjórnin gat framkvæmt vilja þingsins í þessu efni. Og því lengur sem framkvæmd málsins dregst, því meira verður tjónið, sem við bíðum, tjónið, sem skiftir áreiðanlega miljónum króna.

Hæstv. forsrh. (J. M.) sagði, að hann gæti ekki svarað spurningum þeim, sem jeg lagði fyrir hann í gær; kvað hann yfirleitt ekki ráðlegt að fela nokkurri stjórn framkvæmd málsins.

Jeg heyri, að sumir þm. muni vera í þann veginn að koma fram með vantraust á stjórnina. Jeg hefi ekki átt neinn þátt í því ráðabruggi. En eftir þessari yfirlýsingu fæ jeg ekki annað sjeð en að stjórnin hafi sjálf lýst á sig vantraustinu, og kemur það þó sannarlega úr hörðustu átt.