09.04.1921
Neðri deild: 39. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í B-deild Alþingistíðinda. (418)

35. mál, lífeyrissjóður barnakennara

Þorsteinn M. Jónsson:

Orsakir þess, að jeg flutti brtt. á þskj. 143, eru þær, að mjer virtist barnakennarar verða fyrir misrjetti í samanburði við aðra opinbera starfsmenn. Frsm. (P. O.) sagði, að barnakennarar væru ekki nema að nokkru leyti starfsmenn ríkisins, og stjórninni bæri því ekki eins skylda til að hlýuna að þeim sem öðrum starfsmönnum, en sú skoðun virðist mjer vera ærið hæpin. Ríkið viðurkendi barnakennara sína starfsmenn árið 1917, með því að veita þeim dýrtíðaruppbót sem öðrum starfsmönnum sínum. Síðan hefir þessi viðurkenning orðið ljósari á ýmsan hátt. Og þótt sveitarsjóðir launi þeim að nokkru leyti, þá er það alls engin sönnun þess, að þeir sjeu ekki starfsmenn ríkisins. Starfið er þeim veitt af ríkisstjórninni og meiri hluta launa sinna fá þeir úr ríkissjóði. Það er full sönnun fyrir rjettmæti skoðunar minnar í þessu efni. Og það er svo með fleiri starfsmenn ríkisins, að þeir fá ekki öll laun sín úr ríkissjóði. Þótt stjettin sje fjölmenn, þá getur ekki komið til mála að beita hana frekar misrjetti af þeirri ástæðu.

Jeg sný mjer þá að brtt. mínum.

1. brtt. mín fer fram á það, að í stað þess að útborgist 25%, þá verði útborgað 27%. Þessi krafa er svo sanngjörn, að varla verður á móti henni mælt. Þar sem kennarar greiða sama í lífeyrissjóð og aðrir starfsmenn ríkisins, þá virðist rjettmætt að þeir fái einnig sama hundraðshluta útborgaðan úr lífeyrissjóði sínum. Háttv. allshn. hefir lagst á móti ýmsum ákvæðum í frv. um lífeyrissjóð embættismanna. Nái þær tillögur að ganga fram, þá mun jeg koma með brtt. við frv. það, sem hjer er um rætt, og samræma það við frv. um lífeyrissjóð embættismanna og ekkna þeirra.

Viðvíkjandi því, að menn leggi í sjóð til þess að tryggja sjálfa sig og konuna, en ekki börnin, þá skil jeg ekki þá hugsun, sem felst þar að baki. Hvað verður um börnin, ef foreldrarnir falla frá? Ef ekki eru eftir skilin því meiri efni, þá lenda þau á sveitina. Það er fjarstæða, og óhæfilegt, að nokkur maður sje skyldur til að tryggja sjálfan sig og konuna sína, en alls ekki börnin sín. Samkv. frv. um lífeyrissjóð embættismanna, þá greiðir ríkissjóður styrk til barna þeirra embættismanna, er falla frá, meðan börnin eru í ómegð. Verði þetta ákvæði að lögum, þá verður hið sama að ganga yfir börn þeirra starfsmanna, er heita barnakennarar. Annars eru þeir misrjetti beittir. En löggjöfin er að leitast við að vera sjálfri sjer samkvæm, og beita hvergi misrjetti eða órjetti.