13.04.1921
Efri deild: 42. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í B-deild Alþingistíðinda. (585)

6. mál, einkasala á tóbaki

Sigurður Eggerz:

Jeg skal lýsa ánægju minni yfir því, að vínið hefir verið tekið út úr frv. þessu, því að á það lagði jeg mikla áherslu, og finn jeg eigi ástæðu til að fara frekar út í það, þar sem líka 2 háttv. nefndir hafa fallist á það. En það var þetta frv. um einkasölu á tóbaki, sem jeg vildi fara örlítið frekar út í, þrátt fyrir það, þótt háttv. frsm. minni hl., 2. þm. G.-K. (B. K.) hafi gert það vel.

Jeg skal þá fyrst snúa mjer að því, sem hæstv. fjrh. (M. G.) sagði, að það væri hart, ef það yrði þessu frv. að fótakefli, að efasamt væri, hvort hægt væri að skipa nógu færan mann til þess að standa fyrir þessari stóru tóbaksverslun. — En það er nú svo með þetta, eins og alla einokun, að mjög mikið vald er lagt í eins manns hendur, og það viðurkenna allir, að mikil hætta er á ferðum, ef valið mistekst, og slíkt getur altaf komið fyrir. En sje um frjálsa verslun að ræða, þá dregst sá aftur úr, sem ekki þolir samkepnina, og slitnar að lokum aftan úr lestinni.

Hvað snertir geymsluna, þá er það vitanlegt, að mjög verður að vanda hana, þegar um svona stóra heildsölu er að ræða. En það er öðru máli að gegna með smásöluna, því að þá þarf venjulega ekki að geyma vörurnar nema tiltölulega stuttan tíma. — Jeg skal geta þess, að jeg er ekki einungis á móti þeim ástæðum, sem færðar eru fram fyrir frv. þessu, heldur og að jeg er á móti einkasölu alment. — Jeg tel því mjög efasamt, hvort ástæða sje til að víkja frá hinni almennu, frjálsu samkepni, inn á þessa einokunarbraut, þegar líka engar líkur eru til þess, að ríkissjóður fái meiri tekjur með þessu fyrirkomulagi en með því að halda gömlu tollleiðinni. — Líka veit enginn um þann kostnað, sem þessi verslun hefir í för með sjer. — Tollleiðin er líka miklu einfaldari. Jeg sje því enga ástæðu fyrir því, að rjettara sje að fara hina leiðina, og því fremur, sem stjórnin á mjög erfitt með að segja, hvað á henni græðist, því að vitanlega kemur það undir innkaupum, og svo því, hvernig versluninni er stjórnað o. fl. — Af þessu leiðir, að frv. þetta getur alls ekki talist nauðsynlegt af því, að það tryggi ríkissjóði tekjur. — Líka má segja, að engin ástæða hafi verið til að samþykkja kornvörufrv. fyrir þá sök, að það væri til tryggingar fyrir landbúnaðinn, því að hann mátti tryggja á ýmsan annan hátt. Hið sama er og að segja um lyfin.

Það var sniðugt hjá hæstv. fjrh. (M. G.) að halda því fram, að þessi frv. væru ekki komin fram af einokunarstefnu hjá stjórninni, því að ómögulegt er annað að segja en að hæstv. stjórn standi á einkasölugrundvellinum, og þetta kemur best fram í korneinkasölufrv. — Jeg skal svo eigi fara frekar út í þetta mál. Jeg hefi bara sagt þetta til þess að sýna fram á, að þetta frv. er ekki komið fram einungis af þeim ástæðum, að það eigi að auka tekjur ríkissjóðs.