15.03.1921
Neðri deild: 23. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í B-deild Alþingistíðinda. (657)

37. mál, varnir gegn berklaveiki

Bjarni Jónsson:

Jeg skil tæpast þær undirtektir, sem þetta frv. hefir hlotið hjá sumum hv. þm., nema ef þær ættu að vera af því, að það er stjórnarfrv. En það mætti nú vera meira hatrið til stjórnarinnar, ef fara ætti að fella hana á slíku þjóðþrifamáli, enda mun nóg annað til. Þjóðþrifamál kalla jeg þetta, því að svo mikils er um það vert, að hvert ár, sem það dregst, getur kostað mörg mannslíf hjer í strjálbýlinu og vanþekkingu á þessum málum. Og svo mikið er það tjón, sem af þessu getur hlotist, að kostnaður sá, sem ríkið hlyti af framkvæmd þess, er hverfandi hjá því, þrátt fyrir þær grýlur, sem menn hafa látið sjer sæma að reisa hjer í þessu efni.

Annars hefir hv. þm. Str. (M. P.) rætt svo um málið, frá sjónarmiði sjerfræðings, að jeg get þar ekkert um bætt, hvorki hans orð, nje þeirra annara ágætra lækna, sem á sínum tíma störfuðu með honum í milliþinganefndinni. En þar átti sæti, auk hv. þm. (M. P.) sjálfs, sem jeg þarf ekki að kynna hv. deild, einn alkunnasti og ágætasti læknir þessa lands, og þó víðar sje leitað, og einhver mesti gáfumaður, sem jeg hefi kynst, Guðmundur háskólakennari Magnússon, og auk þess sá maðurinn, sem af eigin reynslu er málum þessum kunnugastur hjerlendis, og viðurkendur afbragðs læknir í sinni grein, Vífilsstaðalæknirinn, Sigurður Magnússon. Enginn mun því efa, að vel hafi verið til nefndarinnar vandað. En viti menn, í hv. Nd. Alþingis eru samt til þeir spekingar, að þeir álíta, að bæta megi úr starfi þessara manna á margan hátt. Og þeir hafa svo sem ekki verið í vafa um það, hvar eigi að leita bótanna, hvar eigi að hafa yfirumsjá og endurbætur á sjerfræðilegu verki viðurkendustu sjerfræðinga landsins. Og hverjir haldið þið, að það sjeu? Ef hv. frsm. (B. H.) hefði ekki sagt það sjálfur, hefði það eflaust þótt lygilegt, að gera ætti sýslunefndirnar að hæstarjetti og yfirkennurum prófessora og sjerfræðinga í berklaveikismálunum.

En þetta er svo sem ekki nema í samræmi við önnur sómastrik Alþingis í þessu efni, að vilja velta ábyrgðinni og úrslitum málanna af sjer yfir á aðra, eða nota þá sem skálkaskjól, til að drepa á dreif mestu velferðarmálum lands og lýðs. Jeg hefi ekki í hyggju að fjölyrða frekar um þetta að sinni. Jeg er háttv. þm. Str. (M. P.) samþykkur í öllum aðalatriðum, og get vísað til hans ræðu. En jeg stend upp til þess að lýsa vanþóknun og vanþakklæti mínu og minna kjósenda á atferli allsherjarnefndar og hennar fylgifiska í þessu máli. Og jeg veit, að jeg tala þar fyrir munn alls þorra íslenskra kjósenda, sem meta meira líf og heilsu þjóðarinnar en nokkrar krónur úr landssjóði. Fyrir því er það kjósendanna vilji, að þessi mál fái framgang hjer. Og þeir eru hæstirjettur málsins, en ekki sýslunefndir.