20.04.1921
Neðri deild: 48. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 474 í B-deild Alþingistíðinda. (679)

37. mál, varnir gegn berklaveiki

Jón Sigurðsson:

Jeg hefði einna helst kosið að sleppa því að minnast á brtt. mínar, því að jeg hygg, að háttv. þingmenn sjeu orðnir þreyttir, en fyrst að fundi verður ekki frestað, skal jeg gera stutta grein fyrir þeim.

Það er tekið fram í ástæðum frv. og nál., að kennarar skuli njóta biðlauna í 2 ár, sem svari 2/3 af launum þeirra. Eru taldar fyrir þessu aðallega 3 ástæður. Fyrsta er sú, að það sje ómannúðlegt að kasta þessum starfsmönnum út á klakann. Önnur er sú, að frekar verði sjeð í gegnum fingur við þessa menn og þeir látnir halda áfram starfinu, þótt veikir sjeu, ef þeir eru þá vinnufærir, ef svona verði eigi að farið. Og þriðja ástæðan er, að þeim mundi ljúfara að leita sjer læknishjálpar, ef mannúðlega væri að þeim farið.

Er eigi laust við það, að með ástæðum þessum sje verið að reyna til að villa mönnum sýn, því að undarlegt er að komast svo að orði, að mönnum þessum sje kastað út á klakann, þar sem þeir eiga að fá ókeypis dvöl á sjúkrahúsi og læknishjálp ókeypis. Sýnist ástæða þessi vera fjarri öllu lagi.

Um aðra ástæðuna er það að segja, að nú er lögskipuð skoðun á börnum og kennurum, og sýnist því þessi ótti nokkuð ástæðulítill. Kemur hjer og annað til greina, sem dregur úr þeirri tryggingu, sem ætlast er til að þetta veiti, og það er, að í frv. er gert ráð fyrir, að 2/3 launanna greiðist með sama hlutfalli, sem öll launin eru greidd. Kemur því hjer til kasta sveitar- og bæjarsjóðanna, og gæti því verið dálitil hætta á því, að kennaranum væri haldið, einmitt vegna þessara útgjalda, sem gætu orðið talsverð.

Við þriðju ástæðunni er það að segja, að mönnum mun tæpast verða óljúft, alment, að leita sjer lækninga, og það því síður, þar sem þeim er gert það miklu ljettara en áður. Nær það auðvitað engri átt að kalla það ómannúðlegt, þó að þeim sjeu eigi veitt biðlaun í ofanálag.

Jeg get þess vegna ekki sjeð, að það sje gild ástæða til að halda fram því ákvæði. Jeg vil ennfremur benda á, að þetta skapar útgjöld, sem lítil og fátæk sveitarfjelög munar um. Eftir launalögunum er áætlað, að kennarar við fasta skóla hafi 1600 kr. í árslaun, auk ljóss, hita og húsnæðis. Nú borgar ríkissjóður helming launanna, svo að hinn helmingurinn, 800 kr., greiðist úr sveitarsjóði, og jeg hygg, að reikna megi hitt, sem hreppurinn leggur til, ljós. hita og húsnæði, 300–400 kr., svo að það yrði alt að 1100–1200 kr., seni sveitarsjóður borgaði. Jeg skal taka það fram, að þetta er hámark launanna, eða laun forstöðumanns, en laun undirkennara eru nokkrum hundruðum króna lægri. En ef það væru farskólar, sem er tíðast, þá eru það að vísu ekki nema nokkur hundruð krónur, og býst jeg við, að sumum háttv. deildarmönnum þyki það smáræði, sem ekkert muni um. En jeg vil benda nefndinni á, að það er ekki einungis ríkissjóður, sem á að borga, heldur líka sveitarfjelögin, og þau oft lítil og fátæk. Eins og jeg gat um, þá eru þessir menn. margir hverjir, á ljettsta skeiði lífsins, ungir og einhleypir, og hafa venjulega fyrir engum að sjá. Það er tiltölulega lítill hluti kennara, sem hafa gert þetta að æfistarfi sínu, heldur aðeins haft það sem hlaupaatvinnu um nokkurra ára skeið. Sama er að segja um ljósmæðurnar, að utan kaupstaða er þetta hvergi aðalatvinna þeirra, heldur aukastarf. Til sveita eru það oft góðar húsmæður, er gegna bústörfum sínum með sóma. Það er því gersamlega ástæðulaust að setja þær, og kennarana, á biðlaun, þó að þær yrðu að leggja niður þetta aukastarf.

Þá vil jeg geta þess, að það er ekki ætlast til, að styrkur þessi verði endurgreiddur, hvernig sem á stendur, nema að hlutaðeigandi óski að endurgreiða hann.

Þetta gæti verið skynsamlegt, því að ef sveitarstjórnir ættu að krefjast endurgreiðslu, þá mætti vera, að þær gengju jafnvel lengra en heppilegt væri. En þar sem þetta verður í höndum sýslustjórna eða sýslumanns, þá þarf ekki að bera kvíðboga fyrir, að lengra yrði gengið en hæfilegt væri. Jeg tel því mjög óhyggilegt að útiloka, að forráðamaður sýslusjóðs geti gert kröfu í efnað dánarbú, þar sem að stæðu fjarskildir erfingjar, ef um verulegan styrk væri að ræða.

Hjer er um dýrmæta hjálp að ræða, og jeg þykist viss um, að hver, sem mannslund hefir, endurgreiði þennan styrk, ef hann kemst í þau efni, að hann geti það. En mennirnir eru misjafnir, og þeir mundu máske finnast, er ekki vildu endurgreiða veittan styrk, þótt þeir væru í flokki þeirra manna, er hægast ættu með það. Jeg legg því til, að styrkurinn sje endurkræfur, þegar styrkþegi er megnugur þess að greiða hann.

Þá legg jeg til, að lögin komi ekki til framkvæmda fyr en 1. jan. 1923. Jeg skal taki það fram, að það er ekki af illvilja við málið, því að jeg mun greiða atkvæði með frv., hvort sem mínar brtt. verða samþyktar eða feldar. En mjer finst málið illa undirbúið, og vildi ekki að það kæmi til framkvæmda, fyr en búið er að athuga það úti um sveitir landsins, og þjóðin búin að búa sig undir að taka á móti því, sem lögin leggja henni á herðar.

Bæði hæstv. forsrh. (J. M.) og háttv. þm. Str. (M. P.) hafa viðurkent, að mjög miklir örðugleikar mundu á framkvæmd laganna fyrst um sinn, vegna skorts á sjúkrahúsum, en torvelt, ef ekki óhugsandi, að koma sjúklingum fyrir á heimilum einstakra manna, þar sem hægt væri að fullnægja sjálfsögðum kröfum um hjúkrun, loftræslu, birtu o. fl.

Það virðist því fyrsta sporið að byggja sjúkrahús eða sjúkraskýli, og ætti það að vera skylda stjórnarinnar að skrifa sýslunefndum, með þeim tilmælum, að þær samþykki að taka þetta mál til rækilegrar íhugunar á næsta fundi, til þess að búa sig undir framkvæmdir laganna.

Það er líka á annað að líta í þessu máli. Frv. þetta tekur mjög til alls almennings, og á skilningi hans veltur mjög mikið, hvernig framkvæmdirnar verða. Fari nú svo, að frv. þetta yrði að lögum og gengi í gildi á næsta vori, þrátt fyrir það, þótt þau væru víða óframkvæmanleg af ástæðum, sem ekki yrði við ráðið, þá óttast jeg, að fólk mundi venjast á að skoða þessi lög sem pappírsgagn, eins og ýms fleiri lög hjer á landi.

Jeg legg því áherslu á, að framkvæmd laganna verði frestað til 1. jan. 1923, svo að þjóðinni gefist tími til að búa sig undir þau.