02.04.1921
Neðri deild: 33. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í B-deild Alþingistíðinda. (752)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Bjarni Jónsson:

Fyrst verður hjer fyrir mjer stöðvarstjórinn í Vestmannaeyjum. Margir hafa hjer látið í ljós þá skoðun sína, að þm. væri slíkt mál með öllu óviðkomandi. En þar sem allir þeir, er manninn þekkja, og þá sjerstaklega Vestmannaeyingar sjálfir, bera honum það orð, að hann sje hinn allra samviskusamasti maður, og að honum hafi farið verk sitt betur úr hendi en eftirmanni hans, þá ættu þm. að sjá, hversu óviðeigandi það er, að yfirmaður hans skuli hafa hrakið hann í mörg ár og látið hann vinna fyrir lægra kaupi en aðra þá. er sömu atvinnu stunda. Þetta er að vísu ekki málsvegur fyrir hann, þar sem hann hefir gengið að því að vinna fyrir lægra kaup. Þessvegna getur hann ekki komið fram með skaðabótakröfu og gert hana að dómstólamáli, heldur aðeins sanngirniskröfu, en hún er bæði sterk og rík, ef menn vilja athuga allar þær ástæður, sem fyrir hendi eru, en sem jeg, af ýmsum ástæðum, ekki vil telja upp hjer. Og þar sem nú sjálf landsstjórnin hefir komist að þeirri niðurstöðu, að hann hefði sanngjarna kröfu fram að bera, þá er það hart, ef þm. vilja fara að neita honum um þessa litlu uppbót. Jeg fer ekkert út í það, hvort það er öll stjórnin, sem hjer ræðir um. Þetta mál heyrir auðvitað aðeins undir einn af ráðherrunum, en það væri þá heldur ekki rjett af hinum að vefengja orð hans, sem er málinu kunnugri en þeir. Og jeg tek orð þessa ráðherra (atvrh. P. J.) trúanleg. Það kæmi að vera, að aðrir þm. hugsi öðruvísi, en jeg held, að háttv. þm. sjeu allir þeirrar skoðunar, að sanngirni eigi að ráða í öllu og að Alþingi eigi að hafa æðsta úrskurðarvald um það. Þingið er hjer ekki gert að neinum dómstóli, því að stjórnin hefir sjálf komist að þessari niðurstöðu og vísað manninum til þingsins. Og það er hastarlegt, ef þeir þm., sem ekki vildu greiða atkv. með vantrausti á stjórnina, fara nú að ýfast við þessari till., sem er bæði sanngjörn og rjettlát, nema ef það skyldi vera, að upphæðin væri of lág. Jeg skal svo ekki orðlengja frekar um þetta, háttv. þm. munn greiða svo atkv. sitt sem þeir eru menn til.

Einhver var að hafa á móti uppbótum á námsstyrk til skólapilta í mentaskólanum. Það var nú víst ekki nema einn þm., sem er sparsemdarmaður viðvíkjandi öllu, sem lærdómi og þekkingu viðvíkur. Jeg býst nú ekki við, að fjölyrða þurfi um það, að þegar 100–200 manns eiga að fá styrk af 2000 kr., þá verði lítið handa hverjum. Skóli þessi er olnbogabarn nú. Áður var hlynt að honum eftir mætti, enda var hann þá besti og eiginlega eini skóli landsins, og er bestur enn þann dag í dag, að Háskólanum undanteknum. Nú er aðsókn að þessum skóla meiri en nokkru sinni áður, og það er því undarlegt, að styrkurinn skuli vera minkaður í sífellu, svo að búendum upp til sveita skuli gert með öllu ókleift að kosta sonu sína til náms. Þetta er einnig alveg öfug niðurstaða við það, að þm. vilji að námsmenn veljist ekki eingöngu úr bæjunum, heldur einnig úr sveitunum. En niðurstaðan verður öfug við það, að enginn getur klofið þennan kostnað nema þeir, sem geta haft nemendur hjá sjer og fætt þá og hýst, ásamt öðrum heimilismönnum, sem er miklu ódýrara en hitt. Við þetta veltast allir mentamenn á Reykjavík, og er það alveg gagnstætt því, sem þessi hv. þm. og þeir aðrir, sem líkt stendur á fyrir, mundu kjósa.

Jeg undrast mótmæli þau, er komið hafa fram gegn 300 kr. þóknun til Sveinbjarnar Egilssonar, fyrir fyrirlestrahald. Sú þekking, sem hann getur veitt, er sjómönnum svo þörf og nauðsynleg, að hana ætti jafnvel að kaupa enn dýrara verði, ef hann vildi selja dýrara. Það er mikill skaði, ef sjómenn geta ekki fengið að njóta viðurkendrar yfirburðaþekkingar hans á þeim efnum, sem hjer ræðir um. Það er ekkert smáræði, hvort farmenn og fiskimenn kunna að fara með skip, er þeir koma til annara landa, eða mæta skipi úti á opnu hafi. Á því getur riðið líf og eignir fjölda manna, og menn ættu síst að víla fyrir sjer að veita þennan styrk, þar sem kaupið, sem er 25 kr. fyrir hvern fyrirlestur, er hlægilega lítið. Við, sem sjáum um alþýðufræðslu Stúdentafjelagsins, getum ekki fengið nokkurn fyrirlesara fyrir minna en 80 kr., nema hann þá geri það alveg ókeypis.

Heyrst hefir nokkuð í mótmælaátt um till. nefndarinnar um listamannastyrkinn. Jeg verð að treysta því, að þm. líti sanngjörnum augum á þessa styrki, ef þeir vita gjörla hvernig ástatt er. Ásm. Sveinsson er nú sem stendur við nám í Stokkhólmi. Hann er bóndasonur; faðir hans er aðeins bjargálnabóndi, og alls ekki megnugur að kosta son sinn til náms. Ásmundur lærði trjeskurð hjá Ríkarði Jónssyni, reyndist mjög efnilegur og fjekk sveinsbrjef á stuttum tíma. Jafnframt þessu lærði hann að móta myndir. Þá hjelt hann til Kaupmannahafnar og var við nám þar, og nú í haust hjelt hann yfir til Stokkhólms, til listaháskólans þar. Og í því sambandi vil jeg geta þess, að það eru mikil meðmæli í mínum augum, að hann einmitt skyldi fara þangað, því að þótt Danir hafi okkur í þessum efnum góðir verið, og við margt af þeim lært, þá getur það ekki talist heppilegt, að hver og einn listamaður læri í Kaupmannahöfn. Svíar standa bæði hærra menningarlega og fastari fótum en bræðraþjóðirnar Norðmenn og Danir. Og eitt vil jeg nefna, sem gerir æskilegt, að íslenskir menn leiti til Svíþjóðar til nám , en það er það, að bæði þjóðerni og mál Svía stendur oss nær en hinna, og að með Svíum er fastur þjóðernisbragur, sem má merkja frá hinum æðsta til hins lægsta manns, ástin á eigin þjóðerni menning og siðum. Hins vegar á hið öfuga sjer stað í Danmörku, því að Danir eru fljótir að sníða sig eftir öðrum þjóðum, t. d. Frökkum. Þetta er því, eins og jeg gat um, mikil meðmæli, og við það bætist svo, að hann er efnilegur maður í sinni list. Mætti trúa vottorðum frá þeim Ríkarði Jónssyni og Einari Jónssyni, sem báðir þekkja Ásmund vel og segja hann vera mann stiltan. iðjusaman, vel greindan og sparneytinn, þá liggur í augum uppi, að hann hefir til brunns að bera alla þá hæfileika, er þarf til þess að fá styrk.

Jeg hefi ekki heyrt neinum mótmælum hreyft um styrkinn til Kjarvals. Hann er nýkominn úr Ítalíuferð, og hefir för sú haft allmikinn kostnað í för með sjer, en hann er hins vegar maður fátækur og á í vök að verjast. Þess vegna hefir nefndin samþykt þessa styrkveitingu til hans, þótt hún sje sammála um, að ekki beri að styrkja fullnuma listamenn, öðruvísi en að kaupa af þeim verk þeirra.

Ekki hafa heldur komið fram mótmæli gegn styrkveitingu til Davíðs Stefánssonar, sem og er í suðurför. Hann er efnalítill maður og heilsutæpur, og notar tækifærið til þess að leita sjer lækningar um leið.

Þá vil jeg hnýta nokkrum athugasemdum við það, sem háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) talaði um verkfræðinemana. Það er alveg rjett, að það er mikill munur fyrir þann, sem er skilað svo frá skóla, að hann getur gengið beint að sínu námi, eða hinn, sem þarf að eyða heilum vetri til undirbúnings að auki og kaupa dýra kenslu. Þeir eru þrír, sem líkt stendur á fyrir hjer. Auðvitað er það ekki nema að nokkru leyti um Stein Emilsson. Hann hefir stundað skólanám hjer, en lokið því í Noregi, og eftir það lagt stund á steinafræði. Vill hann nú halda suður til Jena í Þýskalandi, til fullnaðarnáms, og þá sjerstaklega til þess, að reyna að komast í kynni við „Zeiss“, þá er sjónverkfæraverslun, sem frægust er og forðum kepti við Frakka um silfurbergsnámuna hjer. Og þar sem nú er að því komið, að vjer sjálfir tökum silfurbergsvinsluna að oss, þá verður það sjálfum oss mestur ágóði að lofa manni þessum að ljúka námi, því að oss mun nú einmitt þörf á manni með sjerstakri þekking á meðferð silfurbergs. Sú meðferð, er áður var höfð á námunni, að selja hana í hendur útlendingum fyrir lítið verð, var einmitt sprottin af djúpri vanþekkingu á því máli þá. Nú er þekking látin í askana, og er því ekki rjett máltækið, að þekkingin sje ekki látin í askana. Hún er einmitt látin í askana, og hvergi annarstaðar. Þekkingin er vald og máttur og afl þeirra hluta, sem gera skal. Karlmannlegur vilji og þekking skapa auðinn. Þess vegna er vel til vinnandi að kosta þennan mann og aðra þá, er vilja afla sjer sjerþekkingar á því, sem ekki er þekking á í landinu. Jeg vona, að háttv. þm. neiti ekki Steini Emilssyni um þennan styrk. Hann er auk þess sonur Emils Guðmundssonar, sem slasaðist í þjónustu þessa lands.

Nokkur mótmæli hafa komið fram gegn styrkveitingu til Brynjólfs Stefánssonar og Steins Steinssonar, sem báðir eru mjög efnilegir menn. Jeg vil alment geta þess, að það er ekki svo lítið í húfi, að stöðva námsmann, þegar hann er rjett kominn að því að ljúka námi. Það er ef til vill sama og að fórna heilum manni, fórna allri fyrirhöfn hans, margra ára erfiði, tilkostnaði sjálfs hans og foreldra hans. Hjer er um miklu meira en peningamál að ræða. Það er líka lífsskilyrði fyrir hvern mann að lúka sem fyrst námi, svo að hann geti farið að vinna af sjer skuldir, sem safnast hafa á námsárunum. Og hvað gætu menn valið lengi úr mönnum, eins og nú er borguð vinna manna, ef þeir eru jafnskjótt reknir út á guð og gaddinn, er þeir knýja á. Auk þess væri þá rjettur foreldranna algerlega fyrir borð borinn.

Þessi aths. er annars alveg óþörf, þar sem svo sanngjarnir menn sitja hjer að dómi, sem háttv. þm., en jeg hefi þó viljað láta það sjást, að það er skoðun hjer á Alþingi, að svo beri að líta á málið.

Um hinar tvær till., er háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.)talaði um, er jeg honum ekki eins sammála. Um starfrækslu silfurbergsnámunnar er jeg honum sammála í því, að hún ætti eigi að vera framkvæmd án áætlunar. En vegna þess, að jeg hafði kostnaðaráætlunina við hendina, hafði jeg eigi gætt þess, að stjórnin hefir eigi sett hana í till. Hygg jeg, að þetta stafi aðeins af athugaleysi hjá stjórninni, þareð áætlunin liggur fyrir. Er hún gerð af þeim eina námaverkfræðing, sem við eigum.

Veit jeg að vísu, að hann hefir þann galla, sem háttv. þm. (J. Þ.) nefndi, að hafa nýlokið námi sínu, en þar fyrir hygg jeg, að öðrum sje eigi betur treystandi. Hefir mjer komið maðurinn svo fyrir sjónir, að hann væri hygginn og gætinn, og sýnist því eigi rjett að treysta betur áætlunum annara verkfræðinga, enda þótt eldri sjeu en hann. Verkfræðingum getur, sem öðrum mönnum, yfirsjest og misreiknast, enda þó að gamlir sjeu, en hins vegar eru það þeir einu menn, sem þekkinguna hafa á þessum efnum, og þeir einir eru færir um að gera áætlanir um verklegar framkvæmdir.

Þá lagðist sami háttv. þm. (J. Þ.) á móti styrkveitingu til bátaferða millum Hornafjarðar og Austfjarða. Er jeg honum þar ósammála. Þangað fara skip ógjarnan, nema þau hafi fastar áætlunarferðir, og er því hin mesta þörf styrkveitingar til bátaferða á þessu svæði. Sýnir ferðaáætlun Suðurlands það glögt, að hjer sje farið með satt mál, því að neðanmáls þar stendur, að skipið eigi að fara austur þangað þrisvar sinnum, ef tími vinst til og flutningur fæst.

Er athugasemdin merkt með stjörnu, en það merkir venjulega, að þar komi skipin aldrei við.

Eru þessar ferðir því altaf óvissar, og lítt hægt fyrir Hornfirðinga að treysta á þær.

Annars eru þessar bátaferðir ekki sambærilegar við bátaferðir norðanlands. Því sigli Goðafoss á allar hinar stærri hafnir þar, verða bátaferðirnar óþarfar.

Um það er jeg aftur sammála háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), að tilkostnaður til strandferða úr landssjóði er orðinn altof mikill, en úr þeim tilkostnaði má eigi draga með því að klípa styrk af einstökum hjeruðum, heldur reyna að draga jafnt úr tilkostnaðinum.

Mun jeg þá eigi láta fleira ummælt, og stóð jeg eigi upp af því, að jeg teldi þörf að koma háttv. frsm. (M. P.) til hjálpar, heldur hinu, að háttv. sessunaut mínum, sem svo má heita að sje, þykir ætíð gaman að hlusta á mig, og í þetta sinn heyrði jeg æðarfuglinn kvaka.