12.04.1921
Neðri deild: 41. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í B-deild Alþingistíðinda. (778)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Þórarinn Jónsson:

Það er brtt. á þskj. 289, sem jeg hefi leyft mjer að koma fram með. Jeg hefi ráðist í þetta, þótt óálitlegt sje, þar sem háttv. fjvn. hefir ekki treyst sjer til að taka fjárveitinguna upp, enda þótt hún hafi áður veitt til alveg samskonar fyrirtækis.

Jeg býst við, að þessi ályktun nefndarinnar leiði af hinni ákveðnu stefnu hennar. er háttv. frsm. (M. P.) tók fram hjer, að nefndin sparaði á stóru liðunum, en ekkert á þeim smærri. Þessi stefna er glögg og fremur einföld, þar sem ekki þarf á annað að líta en spara á stærri upphæðunum, en veita allar þær smærri. Er þá auðvelt að sjá, af hvaða toga það er spunnið, að nefndin getur ekki aðhylst þessar till. En þessi stefnufesta háttv. nefndar hefði átt að færast út á víðara svið, og ekki um leið að brjóta aðrar stefnur, sem áður voru upp teknar, og á jeg þar við styrk til listamanna. Það hefir þegar verið samþ. að hafa hann á einum stað, og sjerstakri nefnd fálið að útbýta honum, vegna þess, að ekki væri heppilegt að hafa umræður um þá útbýtingu hjer.

Nefndin hefir nú tekið upp hina stefnuna aftur, svo að bæði þessi sjerstaka nefnd og þingið eiga nú að útbýta listamönnum styrk. Þetta finst mjer óviðeigandi og eigi alls ekki að koma inn í fjárlög, meðan sjerstök nefnd hefir það með höndum. En ef fjvn. hefir þótt nauðsynlegt að veita þetta, þá hefði verið viðkunnanlegra að veita sjerstaka upphæð í viðbót við listamannastyrkinn fyrir sjernefndina til útbýtingar. Jeg býst við, að þessir menn, sem úthlutunarnefndin hefir gert afskifta, hafi henni ekki þótt jafnhæfir til þess að verða aðnjótandi styrksins eins og þeir, sem hún veitti, ellegar það er veiðibrella, til þess að koma þeim inn í fjárlögin. En nú hefir hv. fjvn. tekið úrkastið upp á sína arma, og þó eru þetta ekki svo smáar upphæðir.

Að einu leyti tók þó háttv. frsm. (M. P.) fram, að nefndin hefði verið stefnuföst, og það var með styrkinn til sjúkraskýla. (M. P.: Ekki nefndin). Jæja, þá er hún það hvergi, en þetta tileinkast frsm. (M. P.) einum, og stafar það sjálfsagt frá honun sem lækni. En þá hefði stjórnmálamaðurinn eitthvað átt að hreyfa sig um leið.

Af þessu, sem jeg nú hefi tekið fram, er það auðsætt, að einasta ástæðan til þess að háttv. nefnd hefir ekki getað fallist á brtt. mína er sú, að henni hefir þótt upphæðin of há. Á ekkert annað hefir hún litið. En það er nú einu sinni svo, að ef ríkissjóður telur sjer annars skylt að greiða úr samskonar þörfum kringum land, þá eru staðhættir svo ólíkir, að það verður mjög mismunandi dýrt á hverjum stað, og hefir þetta altaf svo verið. Á Blönduósi hagar svo til, eins og kunnugt er, að þar er með allra verstu lendingum kringum alt land, og það eina, sem þarna er hægt að gera, eru lendingarbætur; um hafnarbætur er ekki að ræða. Þegar þess jafnframt er gætt, að þarna liggur að víðáttumikið og gott hjerað, eitthvert besta hjeraðið norðanlands, þá er það auðsætt, að ekki er síður þörf að ríkissjóður hlaupi hjer undir bagga, þar sem það er samt ærið, sem hjeraðið þarf að leggja á sig, þar sem verkið er svo dýrt.

Bryggja sú, sem þarna er, og nú þarf bráðra aðgerða við, er eina lendingarbótin, sem þar er til. Hún hefir verið bygð með styrk af ríkissjóði, eins og önnur slík fyrirtæki, og var orðin svo, með fyrirhugaðri umbót á henni, að svo mátti segja, að bryggjan kæmi að notum, þegar annars var hægt að komast milli skips og lands. En svo vildi það óhapp til síðastliðið haust, að tvo búkka tók úr miðri bryggjunni, svo að hún er nú algerlega óhæf til notkunar. Af því leiðir, að ómögulegt er að ná vörum frá borði úr skipi, ef nokkuð er að sjó.

Þingið 1919 gekk inn á það að veita fje til byggingar nýrrar bryggju, sunnan Blöndu, sem ekki er enn byrjað á, og má vera, að háttv. nefnd hafi því þótt óviðeigandi að veita fje til viðgerðar þessari bryggju. En jeg skal leitast við að sýna fram á, að slíkt er ástæðulaust, og full þörf fyrir báðar bryggjumar.

Það hagar svo til, að áin Blanda skiftir kauptúninu í tvent. Að norðanverðu, þar sem þessi umtalaða bryggja er, er kaupfjelagsverslunin, og er það aðalverslun hjeraðsins, en hinumegin, að sunnan, eru kaupmannaverslanir. Þegar ekki er hægt að skipa vörum upp annarsstaðar en á bryggjuna, sem oftast er, þá verður, til þess að ná þeim til verslananna sunnanmegin, annað hvort að flytja þær sjóveg af bryggjunni ellegar þá að aka þeim norðan frá bryggju, upp á Blöndubrú og niður í kauptúnið, og er þetta langur vegur. En svo er annar verri hængur á þessu, og hann er sá, að vegurinn frá bryggjunni og inn að kaupfjelagshúsunum er á vetrum, þegar snjóa fer að leggja, algerlega ófær. Þetta er svo alvarlegt, að á vetrum, þegar vörum er skipað upp á bryggjuna, verða þær að vera þar, þar til þeim verður náð sjóveg. Og þetta hefir á stundum dregist svo, vegna sjógangs, að vörurnar hafa hálfeyðilagst, og man jeg eftir því eitt sinn, að vörur lágu á bryggjunni á annan mánuð. Verkfræðingar landsins hafa hver eftir annan reynt að finna ráð til þess að leggja veg frá bryggjunni að kaupfjelagshúsunum, sem fær væri að vetrinum, en þeim hefir ekki tekist það.

Af þessu er það væntanlega ljóst, að fylsta þörf er á bryggju sunnanmegiu. Mætti þá, eftir því sem veður og sjór haga sjer, skipa upp að hverri bryggjunni sem væri; og það er fullsannað, að bryggjan sunnanmegin yrði eins örugt uppskipunartæki. Þetta leiddi líka til þess, að skip yrðu mikið öruggari að koma á þessa höfn en verið hefir, ef lendingartæki væru betri en nú.

Hvað snertir aftur viðgerð á þessari bryggju, þá má það vera nokkurnveginn næg sönnun á þörf viðgerðarinnar, sem jeg hefi þegar tekið fram, að ómögulegt er að ná vörum frá borði. En svo er meira. Þessir bryggjupartar, sem eftir standa, eru háðir eyðileggingu af sjávarróti, ef ekki er strax að gert. Þessar ástæður eru svo knýjandi að engar ástæður eru til gegn þeim. Ef hv. Alþ. skerst ekki hjer í leikinn, þá er ekki einasta hjeraðinu gerð vandræði, heldur eru líka peningar landssjóðs hindrunarlaust gefnir á ægis vald.

Viðvíkjandi undirbúningi þessa máls, þá skal jeg taka það fram, að áætlun frá vitamálastjóra um kostnað við verkið hefir legið fyrir háttv. fjvn. En jeg verð að efast um, að hún hafi lesið hana eða meðmæli stjórnarinnar.

Eftir áætluninni kostar viðgerðin yfir 58 þús. kr. Jeg bið um tæpan 1/3. Sjest þá, hvað hjeraðið verður að leggja á sig, til þess að fá verkið gert.

Jeg vænti, að atkvæðagreiðslan sýni það, hvernig háttv. deild lítur á stefnu fjvn. og þörfina, sem hjer er um að ræða.