13.04.1921
Neðri deild: 42. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í B-deild Alþingistíðinda. (785)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Gunnar Sigurðsson:

Jeg vil ekki láta hjá líða að svara háttv. 2. þm. Hiinv. (Þór. J.) nokkrum orðum.

Háttv. þm. (Þór. J.) sagði, að jeg hjeldi því fram, að rjett væri að spara stærri upphæðirnar, en ekki þær smærri. Þetta er rjett hermt, það sem það nær. En jeg skýrði þetta álit mitt og nefndarinnar þannig, að ekki sje rjett að leggja í ný og dýr fyrirtæki, meðan ekki er raknað úr peningakreppunni, er vonandi verður bráðlega, ef skynsamlegar ráðstafanir verða gerðar. Og þar sem líka er von um, að verðlag lækki, þá má gera ráð fyrir, að heppilegt sje af þeim ástæðum, að draga það að ráðast í stærri fyrirtæki. Þetta er mín skoðun, en hann vildi draga hana lengra. Hann vildi gefa í skyn, að jeg vildi ekki leggja fje í að bjarga verðmæti, sem væri í veði. Jeg hefi ekki sagt neitt í þá átt, og jeg vona, að háttv. þm. (Þór. J.) skilji það, að jeg hjelt, að jeg væri ekki að tala við börn. Jeg get líka beinlínis sýnt fram á hið gagnstæða í framkomu minni. Jeg var t. d. með því að veita fje til bryggjugerðar á Akranesi, vegna þess, að háttv. þm. Borgf. (P. O.) upplýsti, að bryggjan lægi undir skemdum. Ef háttv. þm. (Þór. J.) hefir sagt þetta til mín, vegna þess að hann hafi haldið, að jeg væri á móti fjárveitingu þeirri, sem hann berst fyrir, til viðgerðar Blönduóssbryggjunnar, þá er það vindhögg og sagt út í bláinn. Jeg var ekki á fundi fjvn. þegar um hana var rætt, en jeg skal lýsa því yfir nú, að jeg mun greiða atkv. með henni. vegna þess, að jeg álít hana nauðsynlega.