13.04.1921
Neðri deild: 42. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í B-deild Alþingistíðinda. (799)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Fjármálaráðherra (M. G.):

Hv. frsm. fjvn. (M. P.) talaði um, að ósamkomulag mundi vera innan stjórnarinnar um vitabyggingar. Það mun nú nokkuð orðum aukið hjá honum. en annars álít jeg það ekki skyldu ráðh. að vera sammála um öll smáatriði. Jeg lagði nú reyndar ekki verulega á móti Arnarnesvitanum, þótt jeg teldi þörfina ekki svo brýna, að rjett væri að taka hann á undan þeim vitum, sem þegar er veitt fje til í fjárlögum. Þessari skoðun minni til styrktar vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, leyfa mjer að lesa upp fáein orð um þennan vita, úr brjefi vitamálastjóra:

„Á seinni árum hefir hann þótt ófullnægjandi, enda hefir hann ýmsa galla, auk þess, að hann er töluvert dýr í rekstri. Hann var bygður 1902, húsið er úr timbri og eitthvað farið að gefa sig, svo að grunur er um, að undirstaðan, sem er úr timbri, sje farin að fúna“. Hjer er svo sem ekki um mikið að ræða. Aðeins grunur um, að undirstaðan sje farin að fúna. Það finst mjer tæplega næg ástæða til að heimta hann bygðan af nýju strax.

Jeg skal ekki fara út í meiðsli vitavarðar. Eftir lýsingu læknis virðast þau ekki vera stórvægileg. Þó vil jeg ekki leggja móti þessum styrk til hans.

Háttv. frsm. (M. P.) tók það fram, að það væri ekki „princip“ að veita dýrtíðaruppbót á listamannastyrkinn. Það gleður mig að fá þessa yfirlýsingu hans, því að jeg veit, að hann er fastur á því að fylgja gefnu fordæmi.

Um orðabókarstyrkinn get jeg vísað til þess, sem jeg hefi áður sagt. Það mun varla vera hægt að vísa til styrks, sem rektor Mentaskólans fjekk til útgáfu enskrar orðabókar. Sá styrkur var veittur til útgáfu en ekki til samningar, en hjer er ekki um útgáfu að ræða. Þá verð jeg að segja það, að jeg tel rjett að líta á fjárlögin sem sjerstaka tegund laga, og eigi jafnbindandi og önnur lög.

Háttv. 2. þm. Árn. (Þorl. G.) kallaði meiri hluta þings veika ástæðu fyrir stjórn til að greiða fje úr ríkissjóði. Jeg veit nú ekki. hvernig á að fá betri ástæðu. Hann hjet á bændur sjer til liðsinnis. en jeg veit nú ekki. hversu sterkt liðsinni hann fær þar. en svo mikið er víst, að upptök þess, sem hann nú hrópar gegn. eru komin úr flokki bænda.