06.05.1921
Neðri deild: 63. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í B-deild Alþingistíðinda. (869)

30. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Sigurður Stefánsson:

Jeg tek undir það, að best sje fyrir fjárhag landsins, að deildin samþykti frv. óbreytt. Jeg get ekki litið eins á og háttv. frsm. (M. P.), að engin ástæða sje til þess, að þingmenn breyti atkvæði sínu frá því, er frv. var hjer síðast til umr. Ástæður breytast dag frá degi, og allar í þá átt, að brýn nauðsyn sje að draga sem mest úr útgjöldunum. Það má vel búast við, að tekjumar fari langt niður úr áætlun. Það er hægt að samþ. sí og æ ný útgjöld, en hvar á að taka tekjurnar? Menn verða að gera sjer ljóst, hvernig ástatt er með atvinnuvegina og viðskiftin, og hve mikilla tekna er af þeim að vænta. Hvernig fer, ef ríkissjóðurinn verður þurausinn á fjárhagstímabilinu? „Taka lán“ er viðkvæðið hjá allmörgum hv. þm. Um það er lítið að fást, ef um arðvænleg fyrirtæki er að ræða, en að taka lán til lúkningar lögákveðinna skyldugjalda og fjárlagabitlinga til einstakra manna, hrein og bein eyðslulán, það er búskapur, sem fyr eða síðar endar með skelfingu.

Það er og kynlegt af þinginu að samþykkja lánsheimildir og lánveitingar, þegar stjórnin hefir lýst því yfir, að enginn eyrir sje fyrir hendi til þeirra hluta. Af þessum ástæðum geri jeg ráð fyrir, að jeg neyðist til að greiða atkvæði móti öllum útgjaldahækkunum í fjáraukalagafrv. að þessu sinni, og þá líka vitabyggingunum á Vesturlandi, þótt jeg búist við að fá litlar þakkir fyrir það hjá kjósendum mínum, en jeg tel mig fyrst og fremst þingmann alls landsins. Þegar hver aukin útgjöld auka á fjárhagsvandræði ríkisins, þá neyðist jeg til að líta meira á hag þess en einstakra kjördæma. Fjárhagsvandræðin versna með hverjum nýjum útgjöldum, og álasa jeg því háttv. Ed. ekki, þótt hún feldi niður vitabyggingarnar. Verði brtt. samþ., eru fjáraukalögin komin í 11/4 miljón, og þar sem ganga má að því sem vísu, að tekjurnar minki um jafnvel miklu meiri upphæð, þá þykir mjer lítið vit í því að auka sí og æ útgjöldin.