09.05.1921
Neðri deild: 65. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 862 í B-deild Alþingistíðinda. (936)

25. mál, skipulag kauptúna og sjávarþorpa

Jón Þorláksson:

Jeg þarf litlu að svara háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.), því að jeg hefi tekið flest andmælin fram áður. Jeg vil benda á það, að samkvæmt brtt. minni nær frv. til 16 bæja eftir manntalinu 1919, en ef miðað væri við 200, yrðu þeir 35, og margir þeirra eiga engan sjáanlegan vöxt í vændum. Það er að vísu rjett, að ekki er gott að sjá fyrir vöxt bæja, en meðan ekki er hægt að sjá fyrir, af hvaða atvinnu bær muni vaxa, er ekki heldur hægt að ákveða skipulag, svo að haldi komi. Ef bær vex ört á öðru sviði en við mátti búast, getur það orðið honum frekar til ills en góðs, ef skipulagið er ákveðið, Að öðru leyti falla allar mótbárur gegn brtt. við það, að það tekur nokkur ár að mæla og ákveða um þessa 16 bæi, og því nógur tíminn til að lögleiða ákvæðin fyrir hina þar á eftir, ef þá þykir nauðsynlegt.