20.04.1921
Neðri deild: 48. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 885 í B-deild Alþingistíðinda. (956)

28. mál, bifreiðaskattur

Jón Þorláksson:

Þetta frv. náði samþykki háttv. deildar við 2. umr., án þess jeg ætti þar nokkurn hlut að. Þess vegna her jeg fram brtt. á þskj. 352, í því skyni, að frv. verði svo viðunanlega úr garði gert, sem kostur er, ef það á að ná samþykki þessarar háttv. deildar.

Mjer skildist svo á ræðum háttv. meðmælenda frv. við síðustu umr., að það, sem einkum ætti að rjettlæta þetta gjald, væri það vegaslit, sem yrði af völdum bifreiðanna; gjaldið ætti með öðrum orðum að ganga upp í viðhaldskostnað veganna. En þegar að er gáð, sjest í rauninni engin trygging þess í frv., að gjaldið verði notað á þennan hátt, enda er það vitanlegt, að vegabætur eru einmitt þær framfarir, sem fyrst eru látnar sitja á hakanum, þegar þröngt er um fjárhag landsins.

Nú viðurkenni jeg það, að bifreiðarnar slíta vegunum, en hins vegar hefir gætt í þessu nokkurs misskilnings, því að það er oftast ekki nema slitlagið eitt, sem þær slíta. Og það er eðlilegt, að bílarnir fari illa með vegina, því að vegirnir hjer á landi voru upphaflega ekki gerðir með það fyrir augum að vera bílavegir, og slitlagið þess vegna ekki haft eins sterkt og til þess hefði þurft. Þess vegna er það, að mín till. fer fram á það að tryggja þetta, að skatturinn verði beinlínis notaður til þess að setja bílfært slitlag á þá akvegina, sem bílarnir fara helst um, að svo miklu leyti sem hann hrekkur til þess. Og auðvitað þyrfti kannske að bæta við, með fjárveitingum úr landssjóði, og ekki á þetta að draga úr öðrum fjárveitingum til vegabóta.

Önnur ástæða en þessi hefir reyndar einnig komið fram með frv., sem sje að hjer væri um einskonar „luxus“-skatt að ræða. En slíkt er fjarstæða. Bifreiðarnar eru notaðar jöfnum höndum til nauðsynjaflutninga og skemtiferða, svo erfitt yrði að flokka þar í milli. Auk þess væri ósanngjarnt að borga meira en helming af fargjaldi skemtiferðafólks með strandferðaskipunum, eins og gert er með styrknum til þeirra, en leggja svo skatt á skemtiferðir á landi.

Þá hefi jeg einnig komið með till. um það, að lækka skattinn úr 12 í 9 kr. á hestallið, og byggist það á því, að skatturinn sje gerður óeðlilega hár, samanborið við það, sem lagt er á aðrar eignir og tæki. Þó geri jeg það ekki að eins miklu kappsmáli, hvor talan verður tekin, eins og hitt, að fjeð verði notað á þann hátt, sem jeg hefi áður lýst.