22.04.1922
Neðri deild: 53. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 866 í B-deild Alþingistíðinda. (1004)

89. mál, aðflutningsbann á áfengi

Jón Baldvinsson:

Hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) vildi halda því fram, að fráfarin stjórn hefði staðið vel í þessu máli og að jeg hefði farið þar með rangt mál. Það er nú að vísu rjett, að jeg hefi ekki kynt mjer öll skjöl málsins, en jeg dró það af líkum, að stjórnin hefði ekki staðið vel í málinu. Hún hefir liðið slælegt eftirlit með bannlögunum. Hún hefir liðið, að hver og einn selji áfengi, svo að segja í öðru hverju húsi. Af þessum líkum dreg jeg það, að stjórnin muni að minsta kosti hafa haft allmikla löngun til þess að koma þessum lögum fyrir kattarnef. Það var því fyllilega rjettmætt af mjer að draga þessa ályktun.

Hv. frsm. (M. J.) vildi ekki gera mikið úr mótbárum mínum gegn frv. nefndarinnar. Hann fullyrti, að lægsti tollur lenti á neytendum, en hæsti tollur á seljendum. En jeg hygg, að þó við ekki gengjum að samningum við Spánverja nú, mundum við þrátt fyrir það alls ekki fá hæsta toll. Byggi jeg þetta á því, að t. d. Norðmenn hafa ekki fengið hæsta toll enn. Og hafa þeir þó staðið í tollstríði við Spánverja nú um eitt ár. Enda er það skiljanlegt, að Spánverjar fari varlega í það að sprengja upp verðið fyrir sjer á fiskinum með háum tolli.

Jeg ljet í ljósi í ræðu minni áðan, að stjórnin myndi ekki hafa notað afstöðu Dana gagnvart Spánverjum eins vel og skyldi, og skal jeg enn endurtaka efa minn í því, að fyrverandi stjórn hafi gengið vel fram í því. Jeg veit ekki betur en að Danir hafi utanríkismálin á hendi fyrir okkur. Er því ekki lítil ástæða til að ætla, að þeir myndu leggja metnað sinn í það að koma þessu máli voru í viðunandi horf. Er samkomulag vort við Dani að miklu leyti undir því komið, að þeim takist vel að fara með mál vor erlendis, enda vita þeir það og gera alt, sem í þeirra valdi stendur, til að bæta það. Nú hafa þeir ekki staðið eins fast með oss í þessu máli og þeir sökum góðrar afstöðu sinnar hefðu líklega getað, og því var það, sem jeg dró í efa, að eins ríkt hefði verið gengið eftir stuðningi þeirra og skyldi.

Þá hefir því verið haldið fram af sumum háttv. þm., að ef við afnæmum alveg bannlögin, en settum svo strangar reglur um neyslu áfengra drykkja, þá myndu Spánverjar ekki falla frá kröfum sínum. Jeg er á öðru máli um það. Ef við hefðum ekkert bann, þá hefðu þeir engar kröfur á oss í þeim efnum. Þetta er „principmál“ hjá þeim, og þeir myndu alls ekki láta sig neinu skifta, þótt við settum strangar reglur um notkun vínsins og takmörkuðum þannig skaðsemi þess.

Háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) furðaði sig á því, úr því jeg kysi frekar algert afnám bannsins en þennan milliveg, að jeg skyldi ekki hafa komið fram með brtt. þess efnis. — Ja, hann getur nú frómt um talað! Jeg man ekki betur en hann væri rjett áðan að finna að frv., en þó hefi jeg ekki sjeð neina brtt. frá honum ennþá. Hann mætti nú ef til vill ætla, að þetta tvent væri af svipuðum rótum runnið.

Háttv. frsm. (M. J.) hjelt, að með algerðu afnámi bannsins myndi koma meira vínflóð yfir landið. Jeg býst nú við, að við fáum það nægilegt með þessu móti, og ef til vill öllu verra en ef lögin væru afnumin. Því þess er jeg fullviss, að það verða ekki eingöngu mild vín, sem streyma inn í gegnum þetta op, heldur verður brendum vínum einnig veitt þar inn í landið. Það verður ómögulegt að hafa eftirlit með slíku, sem að nokkru gagni geti komið, því ekki er auðvelt að sjá á druknum manni, hvort hann er fullur af þessari eða annari víntegund.

Sami háttv. þm. gaf það í skyn, að ekki væri mikill vandi að standa einn í slíku máli, sem jeg gerði, en hitt væri meiri vandi að standa sem hann í málinu. Jeg skal játa það með háttv. þm., að það myndu ekki allir leika eftir honum að snúast svo við þessu máli eins og hann nú, eftir þá afstöðu, sem hann hefir haft í málinu áður.

Hæstv. forsrh. (S. E.) gaf engin fullnægjandi svör við spurningu minni áðan. Þóttist hann ekki vera undir það búinn að gefa ítarleg svör að svo búnu í slíku vandamáli. Hinu lýsti hann yfir, að stjórnin myndi nota heimildina. Fyrst stjórnin nú vill nota heimildina, þá get jeg ekki betur sjeð en að hún hljóti að vera búin að ráða eitthvað við sig, hvernig þessu skuli fyrir komið. Á að veita víninu svona formálalaust inn í landið eða á að setja einhverjar takmarkanir um notkun þess í landinu? Lögin um einkasölu landsins á áfengi gera ekki ráð fyrir neinu verulegu álagi á vín þau, sem flutt verða inn. Yrði ekki lagt á þessi vín, þá yrðu þau mjög ódýr og þar af leiðandi mikið keypt af þeim. Fróðlegt væri að heyra, þótt ekki væri nema hvernig hæstv. stjórn hugsar sjer að haga þessu.

Það stendur í nál., að búið sje að reyna alt annað til að afstýra skerðingu bannlaganna en að fella frv., og hefi jeg minst á það áður, að jeg viti ekki, hvað þetta eigi að þýða. Nú hefir háttv. frsm. (M. J.) reynt að skýra þetta, en jeg er jafnnær. Ef frsm. er þeirrar skoðunar, sem hann ljest, þá hefði hann þegar átt að vilja fella frv., þegar það kom fyrst inn í þingið, og þá hefði hann átt að fallast á þá tillögu mína að fella frv. frá 2. umr.

En eins og kunnugt er, mælti háttv. þm. móti því og vildi láta vísa því til viðskiftamálanefndar. En það er einmitt þetta, sem þurfti að gera. Þingið átti straks að fella frv. Það voru sterkustu mótmælin, sem unt var að láta í ljós. Og þótt svo hefði farið, að þau hefðu ekki dugað, þá hefði mátt taka málið upp á öðrum grundvelli. Það er nú sjeð, að ekki er hjer um neina nauðung að ræða. Menn vildu ekki fella málið á því stigi, sem það var hættuminst, og freista þannig, hvort ekki mætti afstýra þessu, og það verður tæplega skoðað öðruvísi en svo, að menn hafi frá upphafi ætlað sjer að láta undan í þessu máli.